Í nótt dreymdi mig fernt sem ég man.
1. Par sem við þekkjum var ásamt fleiri gestum í litlu boði hjá okkur Eyju. Þau rifust allan tímann og sérstaklega hann, sem ásakaði hana í sífellu um að reyna við mig. Svo lagði hann hönd á öxlina á mér inni á milli og sagði í hughreystandi tón: „Þetta hefur ekkert með ykkur að gera, þetta er bara dálítið sem við erum að útkljá.“ Við hin gátum ekki étið pönnukökurnar okkar fyrir þessu og veltum fyrir okkur hvenær þau færu.
2. Það var partí í kjallaranum á Laugarnesskóla, samt á skólatíma svo það mátti ekki sjást til þess að neitt djamm væri á ferðinni, allt fullt af börnum á skólalóðinni. Í kjallaranum var einskonar dýflissa þar sem allir kennarar við skólann fyrr og síðar áttu sér sitt eigið útskorna dýr (ég tók eftir því að Ármann Jakobsson átti þarna ref, sem var útskýrt fyrir mér þannig að Ármann merkti ‘slóttugur‘ á einhverju tungumáli). Ég þurfti síðan að sækja bjór í aðra byggingu skólans og endaði einhvern veginn sem starfsmaður skólans í anddyrinu.
3. Ég varð gríðarlega skotinn í Justin Bieber, en hann var ofboðslega leiðinlegur við mig og upptekinn af sjálfum sér. Vildi alltaf að ég tæki af sér hreyfimyndir á símann minn sem hann ætlaði svo að eyða löngum tíma í að klippa einhvern veginn saman í tölvu. Ég var farinn að halda að hann vildi kannski bara alls ekkert sofa hjá mér eftir allt saman.
4. Hár sem ég dró úr nefinu á mér breyttist í lítinn, loðinn orm sem vildi ólmur knúsa mig. Hann var nánast einsog kettlingur.