Ojróvisjon

Fólk pirrar sig stundum á því þegar annað fólk (oft þulir Ríkisútvarpsins) tala um Evróvision. Hvers vegna að þýða aðeins fyrri partinn en ekki þann seinni? Annaðhvort skal það vera Evrópusýn eða Eurovision og engar refjar!

Ef við tökum hefðarrökin þá er sannarlega hefð fyrir því í íslensku að setja inn v í stað u í sérhljóðaklasanum eu, þar sem ekki finnst sambærileg stafsetning í íslensku. Í ensku er eu borið fram (eða jeú) og í þýsku er borið fram (gríðarfallegt) oj, sem margir Íslendingar hafa tekið upp á arma sína (sbr. sjónvarpsauglýsingar um nojtralsjampó).

En hefðin kallar á v. Á íslensku er skrifað um Evsebíus þar sem annarsstaðar er talað um Eusebius (Júsebíus). Í íslensku er einnig talað um Evridís en Euridice (Júridisí) í ensku. Seinniparturinn á sér annarskonar hefð í íslensku. Við höfum t.a.m. í meira en 30 ár talað um vídeó (úr latínu: ég sé), enda liggur það beint við, og þá er ekkert svo galið að tala um visíó (úr latínu: sýn) heldur. Það er okkur ekki framandi hugmynd að i sé oft borið fram einsog j (í orðinu video er það nálægð e-sins við tannhljóð sem gerir það að i/j-hljóði), en sérhljóðaklasinn eu þekkist ekki í íslensku. Þess vegna er þetta v sett inn í staðinn (svo má alltaf nefna það að u og v eru sögulega sama hljóðið í latínu).

Það þýðir hinsvegar ekki að réttur framburður á því orði sé evróvision! Það er málvöndun. Stafsetning og framburður njóta ekki nema vafasamra tengsla til að byrja með og því vil ég heldur leggja til við fólk að það tali annaðhvort um Júróvisjon eða Ojróvisjon, jafnvel þótt það skrifi evróvision. Það er ekkert rúm fyrir þetta evró í framburði samsetts tökuorðs, ekki nema það sé Bogi Ágústsson sem talar.

Að því sögðu eru sjálfsagt til faglegri útskýringar á fyrirbrigðinu. Ég er bara að hugsa upphátt (eða í letri fyrir pjúristana). Og vissulega tölum við um Evrópu og evrur, en mér finnst annað prinsíp vera að verki þar.

One thought on "Ojróvisjon"

  1. Pétur Rasmussen skrifar:

    Nú er Eurovision í raun nafn á samstarf Evrópskra sjónvarpsstöðva. Einn liður í því var „The European Song Contest“ eða „Le Grand-Prix Eurovision de la Chanson européenne“ sem var upphaflega nafnið. Þess vegna kalla Danir það Melodigrandprix.
    Eurovision er auðvitað „Télévision européenne“. Réttnefni er Söngvakeppni Evrópu.

Lokað er á athugasemdir.