… verður einhvern tíma í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá munum við eiga stóra og fína íbúð og þurfum aldrei að flytja framar. Þá getur maður staðið keikur með ístruna framan í sólinni og dásamað sérhvert tilbrigði við hið kunnuglega lífsstef, og þambarabambað á bumbunni einsog sannur eignamaður, Þríhrossi líkari en Sumarhúsum. Þá verður hvorki grætt né grillað, heldur bara verið til. Þá verður nú gott að vera til. Bara við ástin mín og stelpurnar og ekkert annað í heiminum sem vert verður að gefa gaum (jú, nema brauðstritinu og því öllu).
Eftir þriggja daga sleitulausa flutninga er ekki laust við að manni líði ögn einsog klyfjaklárnum Boxer. Á einhverjum tímapunkti í dag leið mér einsog ég væri við það að fá hjartaáfall, þar sem ég stóð stjarfur inni í svefnherbergi í köldum svita og horfði á eitthvað sem ég áttaði mig ekki lengur alveg á hvað væri. Svo fylgdi verkurinn. Ég þarf þá að tala við lækninn minn aftur og útskýra fyrir honum að þetta sé nú sennilega ekki bakflæði einsog hann hélt, því síður asma einsog ég hélt.
Einhvern tíma hefði ég nú verið liðtækari í svona ofurflutninga en kalla mig þó góðan að hafa enst þetta í þrjá daga, í þessu formleysi og brjósklosi sem ég er. Mig hefur þó langað til að grenja nokkrum sinnum; ekki af sársauka, heldur af tilfinningasemi og þreytu. Þetta er maður nú viðkvæmur. En nú fer að sjá fyrir endann á þessu. Fjórði og vonandi síðasti dagurinn á morgun.
Vitið þið hvað ég mun gera að því loknu? Ekki neitt. Ég mun hverfa inn í og sameinast tómarúminu og hætta að vera til í eitt eilífðar stundarkorn, bara rétt á meðan ég hvíli mig. Þannig að ef ég skrifa einhverja skrýtna hluti á Facebook næstu daga þá er óþarfi að hafa áhyggjur; þetta er bara ég að snappa rétt áður en ég kem aftur til sjálfs mín.