Ráðstefnan í Leeds var meiriháttar. Ég myndi segja töluvert skemmtilegri en fornsagnaþingið sem haldið er á þriggja ára fresti, enda er þar ekki einblínt á Norðurlönd sérstaklega heldur á miðaldir einsog þær leggja sig. Auðvitað þurfa allir vísindamenn að sérhæfa sig en sérhæfingin er til einskis ef þeir átta sig ekki á heildinni. Og hvað mínar rannsóknir snertir þá er stærri ramminn áhugaverðari. Góður rómur var gerður að erindum okkar allra (mitt má nálgast hér), og ég var svo lánsamur að slammarinn mætti þegar ég talaði og kinkaði kolli sem óður væri.
Í kjölfarið sótti ég töluvert minni ráðstefnu í Oxford þar sem ramminn var auk þess afar þröngur og það getur verið afar gagnlegt líka að einblína á fáein skyld vandamál til að leita lausna á þeim. En til þess að finna þær lausnir þá þarf oft að leita út fyrir þrönga rammann. Og ég fékk það á tilfinninguna í Oxford að kannski fari fræðimenn nú að gera það í auknum mæli, fari að efast um viðteknar hugmyndir sem e.t.v. standa á brauðfótum. Við vitum að mörgum knýjandi spurningum um norrænar bókmenntir verður ekki svarað öðruvísi en með því að leita út fyrir þær, leita samhengisins. Ef við ætlum að rannsaka eddukvæði (svo dæmi sé nefnt) þá þurfum við fyrst að spyrja okkur að því hvað eddukvæði eru, því kannski er svarið ekki eins sjálfsagt og við viljum halda.
Í Oxford fór ég á báða barina sem Inklingarnir (óþýðandi sniðugheit í því heiti) sóttu; annars vegar The Eagle and Child, sem var upphaflegi fundarstaðurinn, en búið er að rústa fundarherbergið og sameina barinn veitingakeðjunni Nicholson’s svo mér fannst hann lítið sjarmerandi (auk þess er hann troðfullur af Tolkientúristum), hins vegar The Lamb and Flag sem er bara hinumegin við götuna og hefur ennþá yfirbragð alvöru vertshúss. Ef til vill ekki ósvipað Skindbuksen (fremur en Hviids Vinstue, þar sem þjónar eru farnir að snobba með þverslaufur).
Og nú er kannski ekki skrýtið þótt hugurinn hafi reikað til Kaupmannahafnar, því nú hefur mér hlotnast höfðinglegur styrkur frá Den Arnamagnæanske Kommission til handritarannsókna í Árnastofnun eftir áramót. Bréfið barst mér í morgun og af fenginni reynslu er húsnæðisleitin þegar hafin. Það verður gott að hitta alla vinina aftur og eignast þá fleiri. Á haustmisserinu sest ég hinsvegar á skólabekk og nem kennslufræði, sit lit-review námskeið hjá þeim Kolfinnu, Miriam og Þórdísi, og sjálfur mun ég sennilega grípa eitthvað í kennslu á misserinu líka.
En fyrst eru það önnur verkefni. Ég í sveitina með Eyju á morgun að sinna þeim. Og hvílast eitthvað í leiðinni. Brumm brumm.