Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.
III. She’s All That.
Tveim og hálfu ári eftir síðustu umfjöllun um meistaraverk æskuáranna bregður nú svo við að orðið meistaraverk er ekki notað í háði. Hér er komin mynd sem hafði áhrif á mig og sem ég hafði miklar mætur á í mörg ár; ég lenti meira að segja nærri því í handalögmálum við leikarann Þorvald Davíð sem fór með hlutverk Simba vegna þess að ég kaus frummálið fram yfir talsetninguna og sameiginlegur vinur okkar ákvað að túlka það á sinn hátt og etja honum á mig (hvorugur okkar er sérlega þekktur núorðið fyrir að vera æsingamenn, en svona geta menningarátökin magnast upp).
Hvað er hægt að segja um Konung ljónanna sem ekki hefur verið sagt áður? Ábyggilega ýmislegt en ég held ég verði ekkert voðalega frumlegur hérna. Númer eitt, tvö og þrjú er þetta Hamlet með ljónum, nokkuð sem mér tókst að ergja vel lesna tólf ára stjúpdóttur mína með því að benda á, því það verður ekki aftur tekið þegar maður veit það og sumt vill maður fá að hafa í friði fyrir bókmenntafræðingum. En af því þetta er Disney þá fá Hamlet og Ófelía að lifa og eignast börn sem fengu sínar eigin beint-á-vhs-myndir sem best eru gleymdar. Maður toppar ekkert Shakespeare með soddan gróðahyggju og svínaríi.
Sagan hverfist um hinn unga prins Simba (Hamlet prins) sem fæðist inn í fullkomna veröld þar sem allt er í jafnvægi (Danmörk þykist vera hamingjusamasta land heims um þessar mundir, en hér er hún sýnd ískyggilega lík afrískum sléttum). Upphafsatriði myndarinnar er stórfenglegt og tónlistin ótrúleg: sólin rís á sléttunni og öll dýrin flykkjast af stað til að verða viðstödd athöfnina þar sem framtíðarkonungur þeirra er fyrst sýndur þegnum sínum (sebrahestar að hylla ljón, aðeins í Disneymynd).
Konungur ljónanna, Mufasa (Hamlet konungur), er dyggur fylgjandi Bangsapabbapólitíkurinnar að undanskildu því að ljónin virðast ein dýra hafa guðsgefinn rétt til að veiða sér önnur dýr til matar, innan hóflegra marka að vísu. Öll dýr eru jöfn þótt sum séu jafnari en önnur, og enn önnur dýr eru útlæg ger úr konungsríkinu: hýenurnar. Hýenur í raunveruleikanum eru einstæður og nauðsynlegur þáttur í vistkerfi Afríku, en í Konungi ljónanna eru þær úrhrök; þær eru eiginlega of líkar ljónunum, eins og bjöguð spegilmynd þeirrar hliðar sem ljónin helst óttast í sjálfum sér: þörf þeirra fyrir kjöt sem þarf að beisla til að viðhalda hinu viðkvæma jafnvægi lífsins þar sem hýenurnar eru fulltrúar gráðugs frumsjálfs sem kann sér engin mörk. Fyrir vikið eru þær sveltar og jaðarsettar og það gerir þær enn hættulegri, sem færir þær að lokum í faðm hins fláráða Öra (Claudius) eða Scar, sem er svo illur að foreldrar hans nefndu hann eftir útlitslýti sem varla er einu sinni mögulegt að fæðast með, og þar með tilheyrir hann miklu safni einhentra, eineygðra og annarra illmenna hverra fatlanir sýna innri brenglun þeirra (nafnið var illa þýtt í íslenskri talsetningu sem „Skari“; það er ekki eins og illmennið heiti Óskar).
Jaðarsetningin er fullgerð þannig að ljón sjást aldrei borða annað en pöddur meðan hýenurnar sjást rífa í sig læri af sebrahesti og síðar heilt ljón. Að vísu kemur fram í máli Simba að ljón borði antilópur og Nala reynir síðar að éta villigöltinn Pumba, og jafnvel þótt markötturinn Timon reyni að benda á þennan tvískinnung breiðir myndin snyrtilega yfir þá staðreynd að ljónin éta þegna sína. Þegar Claudius hefur með dyggilegri aðstoð hýena myrt Hamlet konung með því að hrinda honum ofan í hjörð af trylltum gnýjum (það má sjá fyrir sér að annað eins gerist reglulega í Helsingør) sannfærir hann unga prinsinn Hamlet um að allt sé þetta honum að kenna, sigar svo hýenunum á hann þar sem hann flýr í útlegð sína, en hann kemst undan óétinn (sem fyrr eru hýenurnar allar í kjaftinum, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu).
Á meðan Hamlet (Simba) er í útlegðinni krýnir Claudius (Scar) sjálfan sig konung og tekur upp einkennilegt samband við drottninguna Geirþrúði (Sarabi) sem áhorfendum Disneymyndarinnar er blessunarlega hlíft við. Þau ár vex Ófelía (Nala) úr grasi og stundar veiðar fyrir konunginn sem sýnir á meðan afleiðingar óbeislaðrar nýtingar landkosta; hýenurnar hafa verið teknar inn í samfélagið og hinu viðkvæma jafnvægi vistkerfisins hefur verið raskað. Jafnvel gróðurinn deyr vegna lélegrar stjórnar konungsins, af alveg óútskýrðum orsökum (kannski gleymdi hann að vökva?).
Þar kemur til kasta Ófelíu (sem undir venjulegum sjeikspírskum kringumstæðum væri drukknuð) og bavíanans Rafiki (sem hefur lengi vantað í sviðsuppfærslur á Hamlet, grunsamlegt sem það er) að fá Hamlet til að snúa aftur úr útlegðinni og fóðra Whoopi Goldberg og fleiri hýenur á illa frændanum sem myrti föðurinn, táknrænt vanaði soninn og gerði sig breiðan við móðurina, en það er hægara sagt en gert þar sem hann telur sjálfan sig hafa myrt föðurinn og óttast það sem hann er orðinn: morðingi, engu betri en hýena. Að vera, eða ekki? Þar er efinn (eða „hakuna matata“ eins og það er kallað hér).
Þá grípur draugur föðurins í taumana og eggjar soninn áfram og áhorfandinn sannfærist um ágæti þessarar ráðagerðar vegna þess hvað tónlistin er frábær. Þetta getur ekki klikkað. Enda er ekki fyrr búið að éta frændann en hellidemba skellur á Helsingørkletti, sem einhverra hluta vegna logar allur ólíkt því hvernig grjót hegðar sér í raunveruleikanum, og nálega kortéri seinna er landið allt gróið og dýrin öll snúin aftur og allt er orðið frábært. Þannig hverfist myndin um hæðir: í upphafi er prinsinum haldið hátt uppi yfir öðrum dýrum á konungsklettinum, næst fellur konungurinn niður í gljúfur og deyr, og í lokin tekur prinsinn aftur völdin af illa frændanum og varpar honum fram af konungsklettinum en tekur sér þar stöðu sjálfur.
Enginn getur orðið konungur, heldur fæðist ljón konungur. Aðeins hið rétta ljón getur vammlaust troðið hið torrataða einstigi milli þess að éta þegna sína og þjóna þeim, gert brottræk hin óæskilegu dýr og getið afkvæmi sem hægt er að gera lélegar framhaldsmyndir um sem í hræsni sinni fjalla um fordóma. Stemningin kringum Simbahamlet er eins í ríkisstjórn leiddri af Dansk folkeparti; hin óæskilegu bíða á landamærunum tilbúin að tæta sundur þjóðfélagið í einni sviphendingu og ógna þar með valdajafnvægi hinna H.C. Andersen hvítu fyrir innan. Tökum hvaða jaðarhóp sem er: múslima, gyðinga, svarta, Flæmingja, læmingja, snorkstelpur og hemúla, og Konungur ljónanna sýnir okkur hvað gerist ef við hleypum þeim inn. Myndin lofar þá sem fæddir eru til forréttinda og fer hvergi í grafgötur með það að aðrir megi þakka fyrir að fá að heyra undir samfélag þeirra. Það má éta hvaða svín sem er svo lengi sem það er ekki vinur konungsins, og hýenur, þær mega bara hoppa upp í rassgatið á sér.
Þótt undarlegt sé bragðið sem tvíhyggjuheimsmynd Disney skilur jafnan eftir, þar sem allt er gott eða illt og pólitískur undirtónn virðist eftir á að hyggja yfirleitt alvarlega vanhugsaður ef ekki meira, þá er ekki hægt annað en að dást að Konungi ljónanna, stórbrotinni hreyfilist hennar og óviðjafnanlegri tónlist sem er sennilega með því betra sem nokkru sinni hefur verið samið fyrir kvikmynd. Þá hverfur seint sá rýtingur sem myndin stakk í hjarta barna árið 1994 þegar við uppgötvuðum öll sem eitt að örótt illmenni gæti fyrirvaralítið myrt pabba okkar, sem er litlu skárra en sú vitneskja sem Bambi færði okkur að mæður okkar gætu fyrirvaralaust verið skotnar í miðjum lautartúr, og hvorki bavíanar sem kunna kung fu né fuglar sem líta út eins og Rowan Atkinson geta fært neina huggun við því. En mikið er myndin óskaplega góð fyrir því.
One thought on “Meistaraverk æskuáranna IV: The Lion King”