Meistaraverk æskuáranna V: Táningsstúlkan penetreruð hnífi

Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.
III. She’s All That.
IV. The Lion King

Árið er 1996, stórfenglegt ár á (bókstaflegu) breytingarskeiði í lífi mínu, fjögur ár eru liðin frá útkomu tímamótaritgerðarinnar Men, Women, and Chain Saws: Gender in the Modern Horror Film eftir Carol Clover, þar sem hún lýsir því yfir að „The slasher film proper has died down (even the sequel activity has subsided), not least because (as I have suggested) its salient contributions have been absorbed into the mainstream […] Whatever the cause, the effect is clear: the independent or off-Hollywood horror industry has fallen on hard times. And the effect of that effect seems inevitable. Deprived of the creative wellspring of the low tradition, I suspect, larger studios are more likely than before to imitate their own tried-and-true formulas, and less likely to take a flier on the kind of bizarre and brilliant themes that can bubble up from the bottom.“ Og viti menn: Scream kemur í bíó og breytir öllu. Wes Craven fann að vísu ekki upp metahryllingsmyndina, en hann gerði hana að því sem hún er í dag.

Það er ef til vill til marks um ástand mitt fremur en myndanna sem hér verða til umfjöllunar (Scream 1996; Scream 2 1997; I Know What You Did Last Summer 1997; I Still Know What You Did Last Summer 1998; Urban Legend 1998) að mér þykja þær ekki hafa elst hætishót. Vissulega eru kostuleg „gamaldags“ atriði eins og að þurfa að deila símalínu með herbergisfélaga sem hangir endalaust á netinu yfir módem, nema mér finnst það reyndar ekkert fyndið. Svona var þetta nú bara. Svo má reyndar sumpart hlæja að tónlistinni, eins og Save Yourself með Stabbing Westward, en aftur er þetta bara til marks um tíðarandann sem var.

Það sem er áhugavert við bylgjuna sem verður með tilkomu Scream, sem sjálf gengur út á ytri vísanir í hryllingsmyndahefðina (og sem slík byggð á þeirri hefð sem varð til með Halloween tæpum 20 árum fyrr og nefnd er „slasher“ á ensku – þ.m.t. eldri mynd frá 1981 sem einnig heitir Scream – en snýst í raun meir um stungur en högg eins og hér verða færð rök fyrir), að sá hópur mynda sem verður til fyrir sakir vinsælda Scream er með töluvert af innri vísunum hver til annarrar. Þannig hefst I Know What You Did Last Summer á hópi ungmenna á strönd sem heitir Dawson’s Beach þar sem þau segja hvert öðru draugasögur. Í einni þeirra heyrir stúlka eins og krafs ofan á þaki bílsins sem hún situr í og veit ekki að það er kærasti hennar sem búið er að hengja úr tré fyrir ofan (svo deila ungmennin um hvort sagan sé sönn). Í myndinni Urban Legend sem kom út ári síðar fer Damon (leikinn af Joshua Jackson) með aðalpersónunni Natalie (Alicia Witt) út í skóg. Þegar hann ræsir bílinn verður hann vandræðalegur því þemalag sápuóperunnar Dawson’s Creek spilast af kassettu í bílnum, og hann er fljótur að slökkva á útvarpinu, og vísar þá myndin bæði til þess að Joshua Jackson lék eitt aðalhlutverkanna í Dawson’s Creek (súrmúlinn Pacey, sælla minninga), og svo vísar hún einnig til I Know What You Did Last Summer með því að benda á nafnið Dawson og hengja í næstu senu hinn fremur óviðkunnanlega Damon úr tré svo fæturnir rétt nema við þak bílsins sem Natalie situr í – og ekur af stað í geðshræringu.

Vesalings drengurinn
Vesalings drengurinn

Munurinn er þó sá að Natalie er ekki kærasta Damons, sem beitir óheiðarlegum meðulum í tilraun til að sænga hjá henni. Í myndum sem þessum er penetrasjón stúlkunnar af völdum karls jafnan undanfari þess að hún er penetreruð með hníf af öðrum – stundum sama – karli, og þannig má þekkja söguhetjuna að hún hleypir ekki hverjum sem er upp á sig. Að vísu er Damon annar til að deyja í Urban Legend (á eftir stúlku sem er afhöfðuð úr aftursæti bíls), en hann er kvengerður þannig að hann er sagður hafa lélegt skegg (áhorfandinn verður þess tæplega var að hann hafi nokkurt skegg) og hann bregst við með því að lýsa því yfir að það hafi tekið hann heila átta mánuði að safna því. Ennfremur leggur hann allt í sölurnar til að fá sofið hjá Natalie og uppfyllir þar með annað skilyrði þess að deyja: lauslæti. Honum verða einnig á þau mistök að fara úr bílnum til að skvetta úr skinnsokknum úti í skógi, með orðunum „Ég kem strax aftur,“ sem allir vita að merkja að hann komi aldrei aftur. Í Urban Legend fer að vísu lítið fyrir penetrasjón með hníf enda morðingi hennar, ólíkt hefðinni, kona. Ástæða þess að morðinginn gengur berserksgang um háskólasvæðið og myrðir þá sem verða fyrir henni er sú að hún ætlar að drepa þær stúlkur sem urðu valdur að dauða unnusta hennar með því að leika eftir flökkusögu um hættulega ökuþóra og blikka stöðugt á hann háu ljósunum uns hann missir stjórn á bílnum og ekur út af veginum, en sjálf myrðir hún einatt með því að líkja eftir sambærilegum flökkusögum (annað dæmi er sagan um köttinn í örbylgjuofninum). Þannig tengist myndin aftur I Know What You Did Last Summer og framhaldsmynd hennar I Still Know What You Did Last Summer (sem ætti að vera „the summer before last,“ en látum það eiga sig), sem báðar hefjast á því að Freddie Prinze Jr. í hlutverki hins flata og óáhugaverða Ray ekur á eða fram á morðingjann (í seinna tilfellinu er morðinginn á BMW, alveg eins og þeim sem Ray ekur upphaflega á morðingjann með, sem endurspeglar viðsnúninginn á aðstæðum þeirra – og í þetta sinn er það Ray sem skilinn er eftir til að deyja).

Ef einhver ætti aldrei að keyra, þá væri það Ray.
Ef einhver ætti aldrei að keyra, þá væri það Ray.

Líkt og Julie (Jennifer Love Hewitt) bendir á í upphafi fyrri sumarsmellsins, þá eru hryllingssögur af ofsóttum táningsstúlkum ekkert annað en aðvörun til ungra stúlkna að stunda ekki kynlíf fyrir hjónaband, og krókurinn sem notaður er sem morðvopn í einni af sögum þeirra segir hún að sé hreint og klárt reðurtákn – og hér vísar myndin til forvera sinnar Scream og ítarlegrar hryllingsmýtólógíu hennar sem áreiðanlega þiggur ýmislegt frá fyrrnefndri bók Clover. Julie er ekki hjátrúarfyllri en svo að hún leggst með Ray af öllum mönnum á Dawson’s Beach og í beinu framhaldi aka þau niður manninn sem mun hundelta þau allar götur síðan, symbólískt vanar hinn karlmennskulega Barry (Ryan Philippe) fyrir framan kærustu hans Helen (Sarah Michelle Gellar, öðru nafni Buffy vampírubani) áður en hann penetrerar systur hennar og loks hana sjálfa í sérlega óhugnanlegri senu í húsasundi, en áður hefur hann svipt hana kvenleikanum með því að klippa af henni hárið meðan hún svaf (og hér er ágætis vísun í fyrstu myndina um Guðföðurinn, þar sem kvikmyndaleikstjóri vaknar og finnur stolt lífs síns afhöfðað í rúmi sínu), og hann hættir ekki fyrr en hann hefur sjálfur verið aflimaður af Ray.

Í framhaldsmyndinni mætir hann svo með krók í stað handarinnar sem hann missti („Gimme a hand!“ segir hafnarstjóri og er penetreraður með fallískum krók sem áður var hönd), og hér kemur sonur hans við sögu einnig sem framlenging á sadískum vilja föðurins, en faðirinn hefur getið hann við konu sinni sem hann myrti vegna gruns um framhjáhald og sonurinn því í senn afsprengi tvöfaldrar penetrasjónar króks og lims. Allt er þetta myndmál sem myndin gengst blákalt við með fullyrðingu Julie í upphafi: krókurinn er reður, hann er gjaldið sem greiða þarf fyrir kynlíf utan hjónabands – eða til hliðar við það (ekki síður en gjaldið fyrir að vera lélegur í landafræði, en söguhetjurnar vinna ferð til Bahama – fyrir tilstuðlan morðingjans – með því að giska rangt á höfuðborg Brasilíu). Ekki síður er áhugaverð sena í framhaldsmyndinni þegar karl fellur ofan á konu með skutul í bakinu; konan kemst ekki undan honum og morðinginn grípur um skutulinn og rekur alla leið í gegnum karlinn og inn í konuna. Aftur birtist hér myndmál nauðgunar, eins og senan í húsasundinu í fyrri myndinni þar sem Helen er þvinguð bak við dekkjastæður meðan heil skrúðganga fer hjá án þess að verða neins vör.

helen-s-death-helen-shivers-22335006-852-480

Allt eru þetta þó persónur sem áhorfandinn hefur litla ástæðu til að hafa samúð með, og engin þessara mynda nær í raun þeim áhrifum sem Scream setur í öndvegi, en þar er lykillinn dramatísk fjölskyldusaga sem virðist hálfsótt í harmleikinn um Ödipus konung en hinn helmingurinn úr Halloween – sem ungmennin sjást horfa á í myndinni, á meðan þau fara yfir reglur um hvernig eigi að hegða sér í hryllingsmynd, vitandi það að reglur hryllingsmyndarinnar gilda nú einnig um raunverulegt líf þeirra. Þar eru illmennin tvö, annars vegar ósköp venjulegur lúði sem hefur séð of margar hryllingsmyndir (Matthew Lillard), hins vegar hinn sjálfselski Billy Loomis (Skeet Ulrich, ójá) sem er kærasti söguhetjunnar Sidney Prescott (Neve Campbell).

Eftir nokkrar tilraunir tekst honum að vekja upp í henni nægilegt samviskubit gagnvart sambandi þeirra til að hún sofi hjá honum, og litlu síðar kemur hinn hræðilegi sannleikur í ljós að hann er orsök allrar angistar hennar: hann er stjúpbróðir hennar! Og hann nauðgaði og myrti móður hennar, vegna þess að faðir hans hélt við hana og hrakti hina raunverulega móður í burtu, sem bjó til öfund í hjarta hans. Í framhaldsmyndinni er það móðir Billys sem er (aftur) annar tveggja morðingja, en hinn er (aftur) lúði sem hefur séð alltof margar bíómyndir. Í söguheimi annarrar myndarinnar er verið að kvikmynda atburði fyrri myndarinnar eftir sögu fréttakonunnar Gale Weathers (Courteney Cox, sem er stórfenglega vanmetin dramatísk leikkona, þökk sé Friends), og þar sést Luke Wilson leika Billy Loomis og Tori Spelling Sidney í sprenghlægilegri senu.

Billy Loomis mundar framlengingu karlmennsku sinnar framan í stjúpsystur sína
Billy Loomis mundar framlengingu karlmennsku sinnar framan í stjúpsystur sína

Í þriðju myndinni sem best væri gleymd, eins og oft vill vera um þriðju myndir, er morðinginn bróðir Sidney, og það verður nánast hallærislega ljóst að rýtingur/reður morðingjans snýst í raun ekki um hreinlæti æskunnar og spillingu þess heldur er hann tákn fyrir sifjaspell, og þar eru tengsl mæðra og sona sýnu brengluðust. Þó er brugðið á leik með reðurtáknið; í annarri myndinni leggur maður eyra við svonefnt gloryhole (gat í vegg sem hægt er að þiggja munnmök í gegnum) á salerni kvikmyndahúss (þar sem hann horfir á myndina um atburði fyrri myndarinnar) og fær rýting inn í eyrað – reður í næsta op í höfðinu. Þetta er hlægilegt og á að vera það. Í hallærislegu grínmyndinni Scary Movie frá árinu 2000 er það einmitt ekki hnífur sem penetrerar eyra mannsins á salerninu, heldur reður. Þá má velta fyrir sér merkingu senunnar í fyrstu myndinni þegar morðingjarnir tveir Billy og Stu stinga hvorn annan til skiptis til að líta út eins og fórnarlömb en ekki gerendur, og Stu fer að sundla og telur sig hafa verið stunginn of oft, hann sé að deyja, og grætur sáran.

Piltar stinga hvorn annan
Piltar stinga hvorn annan

Þessar myndir innihalda hér um bil allt fallega fólkið af X-kynslóðinni sem þá var mest áberandi og sum þeirra leika í fleiri en einni syrpu (t.d. Sarah Michelle Gellar sem bæði er í Scream 2 og I Know What You Did Last Summer); eina ástæða þess að Joshua Jackson er með aflitað hár í Urban Legend, svo dæmi sé nefnt, er sú að hann lék náunga með aflitað hár í Cruel Intentions. Samanlagt eru þessar myndir framlag Dawson’s Creek kynslóðarinnar til hryllingsmyndageirans (gleymum þó ekki hliðrænum myndum á við The Skulls, Gossip eða spin-off draslinu American Psycho 2, allar frá árinu 2000) og nýlundan við þessar myndir er í raun sú að þær iðka bókmenntafræði hikstalaust – þær eru suðupottur tákna og sjálfsvísana og dýrkunar á hefð og formgerð sagna. Allar byggja þær á sömu forsendum og hafa sambærilega lausn. Í heimi þeirra er engin undankomuleið frá óðum mönnum sem vilja brjóta á ungum stúlkum.

ae6b378f6421410f6259df6162c204ea

Í I Still Know What You Did Last Summer er löng lokasena þar sem Ray þjónustar munninn með rafmagnstannbursta meðan eiginkona hans Julie eigrar ein og yfirgefin um efri hæð húss þeirra og óttast um líf sitt. Á sömu stundu og Ray klárar að bursta í sér tennurnar með hinu langa tákni og hrópar upp yfir sig „I love this thing!“ birtist krókur undan hjónarúmi þeirra og kippir Julie á náttkjólnum undir rúmið, þar sem morðinginn bíður í leyni. Óbragðið sem þetta skilur eftir er tilgangur sögunnar: konur skulu ekki halda að þeim leyfist sama frjálsræði og körlum, þeim skal refsað fyrir það sem þær gera, og þeim skal refsað fyrir gerðir karlanna líka, þær eru einar og yfirgefnar í heimi sem stjórnað er af hinu fallíska, hið kvenlega er viðfang góns og kynferðislegra óra. Hitt þema myndanna er svonefnt „gaslighting“ – að rengja sífellt upplifun kvenpersónanna af veruleikanum, að hafna skýringum þeirra og spyrja hvort þær séu ekki bara að ímynda sér ógn hins penetrerandi manns sem aldrei er hægt að festa hendur á. Framlag X-kynslóðarinnar er að draga þetta upp á yfirborðið og æpa það framan í áhorfandann. En ég er ekki viss um að við höfum endilega skilið boðskapinn. Yfirgengilega líkingamálið þegar Julie syngur „I Will Survive“ í karókí andspænis endalokum myndarinnar skilur nefnilega eftir þá spurningu hvort konur geti yfirleitt lifað af í þessum heimi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *