Meistaraverk æskuáranna VI: Gremlins

Sjá áður í syrpunni:
I. Backdraft er ennþá málið
II. Lilli klifurmús er sjálfselskur kúkalabbi.
III. She’s All That.
IV. The Lion King
V. Táningsstúlkan penetreruð hnífi

Ég hef áður skrifað smotterí um Gremlins hér. Ég ætla að taka þann séns núna, eftir góð viðbrögð við syrpunni um meistaraverk æskuáranna, að hætta öllum trúverðugleika og halda því fram að Gremlins og Gremlins 2 séu á vissan hátt þroskasaga sem fjalli um skil bernsku og gelgju, ungdóms og ábyrgðar. Aðallega eru þetta auðvitað skemmtimyndir um kínverska álfa eða púka sem gera allt vitlaust í Bandaríkjunum, en sitthvað má samt lesa á milli línanna. Svo er hitt sem hvergi liggur milli lína heldur er grátlega augljóst, eins og að Gremlins 2 er með langtum verri tæknibrellur en fyrri myndin þrátt fyrir að vera sex árum yngri, en það er önnur saga.

Enda þótt sjálfsvísanir séu aðall Gremlins 2, þá vísar Steven Spielberg í eigin verk í fyrri myndinni. Don Steele, sem fer með hlutverk Rockin Ricky Rialto, sést aldrei í myndinni. Velkunnugir munu þó þekkja svipinn og röddina og tengja við myndina Death Race 2000 (1975) með David Carradine og Sylvester Stallone.
Enda þótt sjálfsvísanir séu aðall Gremlins 2, þá vísar Steven Spielberg í eigin verk í fyrri myndinni. Don Steele, sem fer með hlutverk Rockin Ricky Rialto, sést aldrei í myndinni. Velkunnugir munu þó þekkja svipinn og röddina og tengja við myndina Death Race 2000 (1975) með David Carradine og Sylvester Stallone.

Í upphafi Gremlins sjáum við uppfinningamanninn Rand Peltzer reyna að selja eina af sínum lélegu uppfinningum kínverskum glingursala í New York (að maður skyldi ætla). Uppfinningin nefnist Baðherbergisfélaginn, handhægt box minna en snyrtitaska sem líkt og svissneskur vasahnífur inniheldur allt það helsta sem maður myndi þarfnast til sjálfssnyrtingar á ferðalögum. Salan gengur ekki sem skyldi en þess í stað gengur Peltzer á söng lítils álfs í búri, „mogwai“ heitir dýrið, og hann ræður ekki við sig. Hann verður að eignast álfinn sama hvað því hann vill gefa hann syni sínum, sem hann barngerir með því að kalla „my kid“. Kínverjinn vill ekki selja hann, en barnabarn hans svíkur afa sinn og selur hann Peltzer fyrir utan.

Óríentalismi að verki í Gremlins: Hinn spaki, pípureykjandi Kínverji veit betur um mystískar hliðar lífsins en kjánalegir Ameríkanar. Sítt skegg hans táknar visku og þroska; markmiðið sem aðalpersónur Gremlins eiga eftir að ná.
Óríentalismi að verki í Gremlins: Hinn spaki, pípureykjandi Kínverji veit betur um mystískar hliðar lífsins en kjánalegir Ameríkanar. Sítt skegg hans táknar visku og þroska; markmiðið sem aðalpersónur Gremlins eiga eftir að ná.

Áhorfandinn veit ekki betur en sonurinn hljóti að vera lítill strákur, en í reynd er hann fullorðinn, útskrifaður úr framhaldsskóla og vinnur í banka í smábænum sínum Kingston Falls (sem er sami bær og Hill Valley úr Back to the Future, enda þótt sá fyrri sé á austurströndinni og sá seinni á vesturströndinni – takið eftir bíóhúsinu sérstaklega – sem fær mig til að trúa því að báðar myndir, sem hvor um sig er sambærileg þroskasaga, gerist í eins konar limbói ameríska úthverfadraumsins fremur en eiginlegum veruleika, þar sem persónur beggja mynda lifa lífinu og arka um sömu götur án þess að vita hver af annarri). Ekki er nóg með þetta, heldur á Billy Peltzer þegar gæludýr – hund af einhverri loðsort sem var sérstaklega vinsæl í bíómyndum á níunda áratugnum (sbr. Honey, I Shrunk the Kids). Það er því óneitanlega sérstakt þegar pabbinn kemur heim og tilkynnir syninum að þessi álfur sé nýja gæludýrið hans, eins og hundurinn eigi að fara á haugana fyrir það, og hundurinn sýnir viðeigandi merki afbrýðisemi. Við sjáum það líka mjög snemma að sonurinn hefur gengið um dyr kynferðislegs þroska þegar faðirinn sýnir honum nýjustu viðbótina við Baðherbergisfélagann, sem er rakvél, og gefur sterklega í skyn að sonur sinn hafi nægilegan skeggvöxt til að það yrði vandræðalegt fyrir hann að fara órakaður á vinnufund.

Faðirinn viðurkennir karlmennsku Billys sem bregst við með því að sprauta hvítri raksápu yfir föðurinn úr hans eigin „Baðherbergisfélaga“ – samsvörun fallosins.
Faðirinn viðurkennir karlmennsku Billys sem bregst við með því að sprauta hvítri raksápu yfir föðurinn úr hans eigin „Baðherbergisfélaga“ – samsvörun fallosins.

Þrátt fyrir þetta er Billy „krakki“ sem býr hjá foreldrum sínum og fær gjafir eftir því – álfurinn sem hann fær, Gizmo, er sjálft tákn bernskunnar. Hann er í barnslegum hlutföllum, ógnarsmár, þarf stöðuga umönnun og umhirðu varðandi hvenær hann má éta, hvernig má ekki þvo honum, en jafnframt eins og einhvers konar leyndarmál má hann ekki líta dagsins ljós. „Ekki bleyta hann, ekki fóðra hann eftir miðnætti, ekki vippa honum út,“ mætti umorða reglurnar sem fylgja kínverska álfinum – sjálfri barnæskunni sem ekki má spilla með frumstæðum þörfum snemmunglingsáranna. Þörf föðurins fyrir að færa syni sínum álfinn verður ljós: hann vill halda honum heima sem lengst, hindra hann í að verða fullorðinn. Gallharðir freudistar myndu segja að faðirinn reyni að vana soninn með gjöfinni, en látum það liggja milli hluta. Billy skilur barnæskuna eftir heima sem best hann getur þegar hann fer í vinnuna, en þegar hann kemur heim bíður hún eftir honum – fyrst sem óhlutbundin nærvera foreldranna sem koma fram við hann eins og barn en síðar á formi Gizmo – og þar ver hann tíma sínum með álfinum og grunnskólakrakkanum Corey Feldman. Billy er barn heima hjá sér hvort sem honum vex skegg eða ekki, en leit hans að eigin fótfestu á sér öll stað utan heimilis. Kærastan sem hann óskar sér vinnur bæði með honum í bankanum og þess utan á bæjarbarnum og táknar þar með tvenna vídd fullorðinsþroskans: fjárhagslega ábyrgð og þroskann til að umgangast áfengi. Hún hefur einnig upplifað föðurmissi og hefur þar af leiðandi glatað æskunni, meðan Billy sýnir ítrekað að hann er lítt þroskaður og saklaus í hugsun. Það fær Billy þó ekki að vita fyrr en hann stendur sjálfur á tímamótum.

Billy sýnir Pete álfinn sinn, en Pete bleytir hann óvart og afleiðingarnar verða þeim ofviða. Eftir þetta sjást þeir ekki varla ræðast við.
Billy sýnir Pete álfinn sinn, en Pete bleytir hann óvart og afleiðingarnar verða þeim ofviða. Eftir þetta sjást þeir varla ræðast við.

Það sem gerist þegar Billy „bleytir álfinn“ er að álfurinn fjölgar sér og getur af sér enn óþroskaðri skepnur en sjálfan sig: líkamleg afkvæmi sjálfs sín sem líkjast honum mjög í útliti en eru alveg ábyrgðarlaus og hugsa ekki um annað en svölun frumþarfa sinna. Afkvæmin eru hreint út sagt á þermistigi, þau hafa ekki annað hugtak yfir föður sinn Gizmo en „ka ka“, það sem honum er fundið til foráttu nær hámarki í saursgervingu, og hitt sem þeim er hugleikið er „yum, yum“ – matur. Fyrst um sinn virðist Billy ekki þykja það sérlega slæm hugmynd að bleyta álfinn oftar, en hann er fljótur að komast að því að það er rangt og að afleiðingarnar eru skelfilegar. Þegar Billy „fóðrar álfinn eftir miðnætti“ – réttara sagt afkvæmi hans – þá tekur hin barnslega mynd þeirra umbreytingu og verður að ögn stærri, hreistruðum, afkáralegum verum sem tákna táningsárin – í raun sömu tímamót og Billy sjálfur stendur á. Þetta eru óheflaðar, ofbeldisfullar skepnur sem hika ekki við að „bleyta og fóðra álfinn“. Og sem fyrr hvílir forsenda tilvistar þeirra á því að frumþörfum þeirra verður ekki fullnægt nema í myrkri. Einn drýslanna birtist í gervi flassara (sem þótti sérstök velsæmisvá á níunda áratugnum) og fýsnir þeirra leiða þá út í svall, drykkjulæti og slagsmál á kránni. Og þegar Billy reynir að koma í veg fyrir að aðaldrýsillinn bleyti sig sjálfur í sundlaug KFUM verður kristilegur ótti hans við sjálfsfróun ljós.

Billy fylgist varnarlaus með athöfnum drýsilsins í KFUM.
Billy fylgist varnarlaus með athöfnum drýsilsins í KFUM.

Gremlins gefur ekki annað til kynna en að umbreyting barns í táning sé óafturkræf og því sé best að barnið sé barn að eilífu – sem Gremlins 2 á vissan hátt hafnar með þroskasögu Gizmos, sem nánar verður vikið að. Billy tekst að rífa sig úr þeim þrönga stakk sem honum er sniðinn með því að stríða beint gegn æskunni og mótþróaskeiðinu. Það gerir hann – í heldur gróteskri senu – með því að brenna inni þá drýsla sem fyrrum voru álfar inni í bíóhúsi meðan þeir horfa á Mjallhvíti og dvergana sjö, þar sem þeir sitja eins og börn og syngja með. Foringi drýslanna (sem að sjálfsögðu er með hanakamb) kemst undan en Billy tekst með aðstoð barnsins innra með honum – persónugerðu í Gizmo – að afhjúpa hið dimma leyndarmál frammi fyrir dagsljósinu og kveða það niður. Drýsillinn brennur og leysist upp í afleiðingu eigin hvata: óhugnanlegt gums. Billy hefur opinberað kenndir sínar og sýnt að hann er ekki barn lengur, og þar með er honum gert kleift að stíga út í nýja dögun sem fullorðinn maður með kærustu upp á arminn.

Drýslarnir verða að tákni æskunnar sem Billy þarf að yfirstíga til að verða maður.
Drýslarnir verða að tákni æskunnar sem Billy þarf að yfirstíga til að verða maður.

Táknmynd bernskunnar þarf hann að gefa frá sér. Billy hefur hegðað sér ósæmilega, hann hefur bleytt álfinn og fóðrað, svo kínverski glingursalinn tekur af honum Gizmo með þeim orðum að hann sé ekki tilbúinn, því mogwai fylgi mikil ábyrgð. En Billy er ekki lengur barn, hann er maður. Það er föðurhlutverkið sem hann er ekki tilbúinn í. Að lokum reynir Rand Peltzer aftur að pranga upp á Kínverjann gagnslausri uppfinningu: reyklausa öskubakkanum. Það er eins og að reyna að bjóða getnaðarlaust kynlíf. En sígarettu verður ekki stungið inn um það gat nema þar verði reykur; táknmynd getnaðar er færð frá föðurnum – ekki til sonar – heldur til mannsins sem hefur táknmynd æskunnar á brott með sér. Kínverjinn tekur við öskubakkanum og álfinum og hefur hvort tveggja með sér þar til Billy er reiðubúinn. Í næstu mynd er það enda skýrt að Kínverjinn (sem þá fyrst fær nafn, Wing) deyr hóstandi og táknmynd barnsins, Gizmo, færist yfir til Billy sem er þá í þann veginn að giftast kærustunni og er í barneignarpælingum.

Barnæskan kveður Billy.
Barnæskan kveður Billy.

Gremlins fjallar því um kynþroska og það að takast á við ábyrgð, en Gremlins 2 fjallar um hjónaband. Jafnvel tákn hins bernska, Gizmo, þarf að fullorðnast þegar hann er pyntaður af uppivöðslusömum drýslum og tekur að sér hlutverk Rambos þar sem hann tekur þátt í að stráfella unglingsmyndirnar þar sem þær djamma án afláts eins og á gamlárskvöldi. Gizmo stendur þar með í svipuðum sporum og Billy í lok fyrri myndarinnar en Billy í sporum föðurins. Einn drýsillinn drekkur gáfnavökva Doktors Þvagleggs (sem leikinn er af Christopher Lee), nánast eins og að éta af skilningstrénu og glatar eins og Eva og Adam við það sakleysi sínu. Hann reynir að leiða hina drýslana áfram til menningar, en samtímis því er augljóst að þeir eru ekki nema börn, svo yfirgengilega mikil börn að þeir hafa jafnvel sumir þyrluspaðahúfur á höfðinu eins og krakki úr teiknimynd, og sjálfur skýtur hinn vitri drýsill einn slíkan í höfuðið í sömu andrá og hann talar um siðmenningu. Í hliðstæðu atriði fyrr í myndinni kvartar eldri maður við Billy undan ungu kynslóðinni sem engu eirir og ber enga virðingu fyrir neinu; hann nefnir sérstaklega endurgerð Casablanca í lit sem sé villimannsleg. Þroski og bernska eru hinar hatrömmu stríðandi fylkingar hér sem fyrr.

„Skollans unga kynslóð með þeirra síða hár og Wham!“ segir Drakúla við Billy
„Skollans unga kynslóð með þeirra síða hár og Wham!“ segir Drakúla við Billy

Öll gerist myndin í fallísku háhýsi manns sem er að öllu leyti hvatvís og barnalegur rétt eins og skrímslin sem leika þar lausum hala; hann er engu betri en þau, ekki fyrr en í lokin að hann virðist varpa allri tilveru sinni á konu sem hefur fá áhugamál önnur en vinnu og ábyrgð. Myndin fjallar mjög skýrt um mörkin milli bernsku og fullorðinsára, svo þegar Kate kærasta Billy ætlar – líkt og í fyrri myndinni – að segja raunasögu úr æskunni, afskaplega óhugnanlega sögu sem virðist ætla að fjalla um tilraun manns í Lincolngervi til að misnota hana, þá er gripið fram í fyrir henni. Það er enginn í seinni myndinni sem hefur áhuga á því að hlusta á hana, hún er hunsuð eins og barn frammi fyrir fullorðnu fólki, barn sem þó hefur glatað æskunni.

Hlutverk Kate er að segja sem minnst og gera það sem Billy vill að hún geri, þar með talið að vera heima með barnið Gizmo meðan hann fer út að borða með spólgraðri yfirmanneskju sinni (og hefur rangt barn með sér heim í ofanálag). Hún er stöðugt í hættu, æpandi og ósjálfbjarga.
Hlutverk Kate er að segja sem minnst og gera það sem Billy vill að hún geri, þar með talið að vera heima með barnið Gizmo meðan hann fer út að borða með spólgraðri yfirmanneskju sinni (og hefur rangt barn með sér heim í ofanálag). Hún er stöðugt í hættu, æpandi og ósjálfbjarga.

Það er morgunljóst að myndin fjallar um djammárin sem eru að baki. Endalausar poppkúltúrvísanir eins og vinir fleygja sín á milli einkenna myndina (raunar svo mjög að þær verða þreytandi, t.d. er myndin sjálf mynd inni í myndinni sem fólk er að horfa á, en þar eru drýslar sömuleiðis að skemma fyrir áhorfendum í bíósal svo sjálfan Hulk Hogan þarf til að lækka í þeim rostann), djammskrímslin dansa konga útötuð í konfetti og syngja New York, New York. En nú er partíið búið og myndin undirstrikar það í síðasta atriðinu þar sem kvenkyns drýsill gengur á móti starfsmanni hússins í brúðarkjól og svipur hans gefur til kynna að hann felli sig við þessi örlög sín – en fyrr í myndinni hékk hún utan á honum og æpti að honum „why won’t you commit?“ Í enskri brúðkaupshefð er talað um að brúðurin þurfi að hafa eitthvað gamalt, eitthvað nýtt, eitthvað að láni og eitthvað blátt, og ef það var ekki augljóst að sá hræringur sem er Gremlins 2 er allt þetta – blanda úr gömlu Gremlins með nýrri sögu og sígildum dægurvísunum fengnum að láni – þá breytist bakgrunnslitur kreditlistans í lokin úr svörtu yfir í bláan.

Daffy mætir síðan til að fara í taugarnar á áhorfendum og undirstrika að hann heyrir til löngu liðnum heimi bernskunnar.
Daffy mætir síðan til að fara í taugarnar á áhorfendum og undirstrika að hann heyrir til löngu liðnum heimi bernskunnar.

Fleiri þemu eru vissulega til staðar, t.d. ótti við hið óþekkta og útlenda (sbr. Dick Miller í hlutverki Murray Futterman), andstaða við kapítalisma (Mrs. Deagle í fyrri myndinni, sem á sér þónokkurn skyldleika við Mr. Potter úr It’s a Wonderful Life, og svo Clamp í seinni myndinni og allur hans kapítalíski yfirgengileiki), og ótti við nýjungar andspænis gamaldags amerískum gildum að viðlögðu smábæjarblæti. En Gremlins er svo yfirgengileg metafóra fyrir kynþroska og hjónaband; andstæður frumsjálfs og yfirsjálfs, að varla verður litið hjá því.

Það er einmitt svona kjaftæði sem Billy þarf að vaxa upp úr til að verða ábyrgur eiginmaður á framabraut.
Það er einmitt svona kjaftæði sem Billy þarf að vaxa upp úr til að verða ábyrgur eiginmaður á framabraut.

One thought on “Meistaraverk æskuáranna VI: Gremlins”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *