Það er ekkert nýtt við skærur í hugvísindum. Þegar maður er ungur og vitlaus er jafnvel hætt við að maður teldi sig nú aldeilis til í slíkt tusk, færan um að æða ótrauður á foraðið með sannleikann að vopni. Þau sem eru eldri og reyndari skilja betur hvers vegna valdahlutföll gera það í mörgum tilvikum ómögulegt að taka þátt í slíkum deilum, ekki síst eftir því sem þeim er betur ljóst að deilur snúast ekki eins oft um sannleika eins og það að hafa rétt fyrir sér. Hljóta ekki fræðimenn að vera öðrum færari um að hlýða á rök og móta sér skynsamlegar skoðanir, að sjá sannleikann þar sem hann blasir við? Nei, ekki endilega. Enda blasir sannleikur sjaldnast við.
Þó að heiftarlegar deilur blossi við og við upp meðal hugvísindafólks hefur verið lítið um þær meðal miðaldafræðinga, þ.e. þeirra hugvísindamanna af ýmsum stéttum sem eiga það sameiginlegt að einblína á miðaldir hver frá sínum sjónarhóli (sjálfur er ég íslenskufræðingur en telst einnig til miðaldafræðinga). Miðaldafræði hafa löngum þótt heldur forpokuð og gamaldags hvað sumt varðar. Til dæmis hefur gengið erfiðlega að viðurkenna að kynþáttabundin hugsun hafi raunverulega verið til á miðöldum, enda hafi kynþáttahugtakið sem slíkt ekki verið skilgreint fyrr en á 19. öld. Því sé hugsunin að baki hugtakinu varla eldri en hugtakið sjálft. Þetta er, auðvitað, vitleysa. Hugtakið er aðeins kerfisbundin nálgun á hugmynd um greiningu mannkyns sem virðist hafa verið til með mismunandi formerkjum frá ómunatíð.
Það er því afskaplega mikilvægt að á síðustu fimmtán árum hefur orðið hugarfarsbreyting meðal margra miðaldafræðinga. Fleiri og fleiri rannsóknir hafa miðað að því að skoða miðaldasögu og -bókmenntir út frá sjónarmiði kynjafræða, kynþáttafræða og nýlendufræða, svo fátt eitt sé talið. Þessi nálgun hefur gert okkur kleift að öðlast mun betri skilning en nokkru sinni fyrr á því hvernig sjálfsmyndir verða til og hvernig munur sjálfsins og annarra var hugsaður og ítrekaður á miðöldum. Þetta hefur einnig að gera með það hvernig Íslendingar skópu sína sjálfsmynd á miðöldum, svo þetta er ekki innihaldslaus pappír fyrir okkar sögu heldur.
Þetta skiptir gríðarlegu máli. Þess vegna skiptir engu minna máli að hægt sé að ræða þessa hluti af yfirvegun. En það er erfitt að vera yfirvegaður andspænis sögulegum kúgunartólum ef maður sjálfur verður fyrir þeim dagsdaglega. Reynsluheimur fræðimanna sem ekki eru hvítir er einfaldlega annar en okkar hinna. Það eru fyrst og fremst fræðimenn af öðrum uppruna en evrópskum sem hafa vakið máls á þeirri kynþáttabundnu orðræðu sem ekki aðeins er viðloðandi í heimildum fyrri tíma, heldur einnig í orðræðu fræðasamfélagsins í dag. Ennþá búa hvítir fræðimenn við yfirburði í heiminum almennt, og þetta gildir um fræðaheiminn einnig. Jafnvel þar skiptir hörundslitur máli þegar kemur að því að meta verðleika fólks. Rasismi er kerfisbundinn og leynist víða. Það er því skiljanlegt þegar þolinmæðin brestur, þegar yfirvegunin er látin lönd og leið. En það er verra þegar það gerist að ósekju.
Upphaf máls er árlega miðaldafræðiráðstefnan í Leeds, sem er sú stærsta í Evrópu og sú næststærsta í heimi. Í ár var ákveðið að yfirskrift ráðstefnunnar yrði Otherness, sem hægast er að þýða sem framandleiki. Hugtakið á helst við þá sem eru jaðarsettir, en það er flóknara en svo og jafnvel þetta hugtak er umdeilt vegna ýmissa merkingarauka sem stundum vilja hanga saman við það. Tvennt gerist svo á Leedsráðstefnunni: það er augljóst þeim sem ekki eru hvítir að þau eru í svo miklum minnihluta á ráðstefnunni að annað eins gerist varla nema, svo dæmi sé tekið, í íslensku sjávarþorpi. Þannig er þetta á miðaldaráðstefnum. Hitt er að einn heiðursfyrirlesari hefur mál sitt á því að segja hræðilegan brandara, að ef hann virkaði ekki sérlega framandlegur á áheyrendur þá ættu þau sko að sjá hann eftir sumarfrí á Kanaríeyjum. Einhverjir gerðu sitt besta til að hlæja að þessu fyrir kurteisissakir, en það mun ekki hafa verið sannfærandi.
Viðbrögðin, í fyrstu, voru nauðsynleg. Það var löngu kominn tími til að gagnrýna það hversu yfirgengilega hvít miðaldafræði eru, og það hvernig hvítir miðaldafræðingar leyfa sér stundum að tala. Auðvitað var það löngu tímabært. Þetta eru vísindi sem helst laða að hvítt fólk, eru ítrekað misnotuð af hvítum rasistum og nýnasistum í ofanálag, og það þarf kannski ekki að undra að hugarfar sumra þar innanborðs sé gamaldags þegar þeir gera ekki annað en að fjalla um afgömul efni. En það þarf að gagnrýna samt sem áður. Þar hefur viss kynslóð (að mestu) norður-amerískra fræðimanna rutt brautina fyrir nýja, alþjóðlega kynslóð sem hefur tekið upp merki þeirra. Ég tilheyri þessari síðari kynslóð og get fullyrt að áhrif hinnar fyrri eru ómæld. Norræn fræði, svo dæmi sé tekið, eru orðin mun alþjóðlegri en nokkru sinni. Þau eru orðin gagnrýnni og taka nú tillit til ýmiss konar félagslegra þátta sem hefðu þótt framandlegir í umræðu um íslenskar miðaldabókmenntir fyrir ekki nema tuttugu árum. Þetta var umræða sem hreinlega þurfti að taka og allir viðloðandi vissu hvorum megin sannleikans þeir voru. Eða þannig var það þangað til kollegi minn og vinur leyfði sér að nálgast umræðuna með örlítið blæbrigðaríkari hugsun en hann áttaði sig á að væri leyfilegt.
Bandarísk fræðikona af asískum uppruna, velþekkt fyrir dugnað í baráttu fyrir alls konar félagslegum réttlætismálum innan miðaldafræða, skrifaði inn í áhugahóp um fornensku á Facebook um ályktun félagsskapar miðaldafræðinga sem eru „of color“ vegna ráðstefnunnar í Leeds. Þetta hugtak þýðist ekki á íslensku, enda er því ætluð viss andstaða gagnvart hinni eldri afmörkun „litaðra“ (colored) andpænis hvítum, nokkuð sem umdeilt er hvort raunverulega heppnist enda er sömu aðgreiningu viðhaldið með nýja hugtakinu. Á móti er því ekki að neita að sú aðgreining getur einmitt verið gagnleg þegar rætt er um jaðarsetningu litaðra hópa. Með öðrum orðum: þetta er flókið. Í ályktuninni var staða litaðra (ég neyðist til að nota þetta orð á íslensku) fræðimanna hörmuð sem og skilningsleysi fræðasamfélagsins gagnvart þeim flóknu strúktúrum og valdahlutföllum milli kynþátta sem þar eru undirliggjandi.
Vinur minn gerði þau mistök fyrst að átta sig ekki á því að fræðikonan hafði birt þetta sem fulltrúi félagsskapar sem beinlínis kennir sig við „of color“ hugtakið, og þau önnur mistök að gagnrýna (vinsamlega) þessa orðnotkun. Gagnrýni hans var sanngjörn og fólst í því að í raun sé hugtakið mjög ameríkusentrískt. Þótt kynþáttahyggja sé alstaðar í heiminum til þá eru formgerðir hennar og staðalmyndir mjög ólíkar eftir stað og samhengi. Það er nefnilega alls óljóst hvað það merkir að vera litaður í Bandaríkjunum eða í Evrópu, og oft eru mörkin milli hvítra og annarra fremur persónuleg en félagsleg. Hispanir og latneskir geta t.d. í Bandaríkjunum vel flokkast sem hópar litaðra, ekki síst vegna sögulegrar undirokunar þessara hópa og svo þess að oft (en alls ekki alltaf) er fólk af þessum uppruna dekkra á hörund en hvítir. Þó eru ýmsir sem ekki líta á sig sem litaða en kalla sig etníska þess í stað, sakir uppruna. Svo blandast auðvitað allir kynþættir stöðugt saman svo uppruni fólks verður í raun afar ruglingslegur. Aftur: málið er flókið. Í evrópsku samhengi virkar þetta ekki eins. Spánverjar og Ítalir eru ekki litað fólk í augum Evrópubúa þótt það fólk sem deilir með þeim uppruna vestanhafs sé iðulega aðgreint frá hvítum. Það hver er hvítur og hver ekki er m.ö.o. menningarleg ákvörðun og verður svo dæmi sé tekið sérstaklega flókin þegar litið er til Austurlanda nær. Þegar öllu er á botninn hvolft er það sjálfsmynd hvers og eins sem taka þarf tillit til og virða, því það er ekki bara hörundslitur sem aðgreinir hvíta og litaða. Vinur minn sagði þetta ekki, en hugsunin var svipuð. Hann benti á að í Asíu, þar sem hann þekkir vel til, þykir það beinlínis móðgandi að vera dreginn í dilk með lituðum andspænis hvítum. Hann vildi benda á að það eru ekki allir „litaðir“ sem sætta sig við að vera auðkenndir með þeim formerkjum. Þegar honum á móti var bent á að þetta væri nafn félagsskapar en ekki alhæfing baðst hann afsökunar á misskilningnum, en áréttaði að þótt hann vildi ekki gagnrýna fólk fyrir að nota þetta hugtak um sjálft sig, þá gæti verið snúið að nota það um aðra. Hér í frásögninni er rétt að taka fram að vinur minn er frá Hong Kong.
Fræðikonan bregst illa við þessu og sakar vin minn um hvítþvott og afneitun á því að rasismi sé einu sinni til. Sama hvað hann reyndi að skýra mál sitt þá sneri hún harkalega út úr fyrir honum. Ástæðan fyrir því er líka flókin: Hún er sjálf kona fyrir það fyrsta, og sama hvað hver segir þá eru konur enn lítilsvirtar í fræðaheiminum. Í öðru lagi er hún af asískum uppruna og þarf að þola linnulausa áreitni og lítilsvirðingu fyrir þær sakir. Þetta tvennt gerir hana eðlilega árásargjarna þegar efast er um orð hennar. Hún er vön því að tuskast við kvenfyrirlítandi kynþáttahatara og á það til að slengja fólki óforvarendis í þann hóp þegar henni er mikið niðri fyrir. Í þriðja lagi er hún alin upp í Bandaríkjunum þar sem kynþáttabundin hugsun er svo yfirgnæfandi þykkur hluti andrúmsloftsins að hægt væri að skera með hníf. Ástæður þess eru sögulegar eins og allir þekkja og togstreitan eftir borgarastríðið hefur í raun aldrei náð að jafna sig. Bandaríkin eru enn ekki ein þjóð í einu landi og afstaða hvítra til svartra (svo dæmi sé tekið) er enn mjög flókið fyrirbæri að átta sig á. Réttindabarátta svartra átti sér ekki stað í Evrópu með sama hætti og í Norður-Ameríku. Andrúmsloftið í heimsálfunum tveim er og var gjörólíkt og Bandaríkjamenn eiga stundum erfitt með að trúa því að það hugsi ekki allir nákvæmlega eins um kynþætti eins og þeir, enda er allt daglegt líf fólks vestra undirorpið þessum þankagangi þar sem jafnvel er orðið til hugtak um það hvernig hvítir geta talað um kynþætti án þess að nefna þá, með því að beita hundablístru (dog-whistling). Þannig getur stjórnmálamaður t.d. talað um velferðarmæður sem bagga á samfélaginu og allir vita undir eins að hann á við einhleypar svartar konur sem eru of latar til að vinna, án þess hann hafi sagt nokkuð um það. Í fjórða lagi er erfitt að sannfæra baráttufólk um að þeirra eigin hugtök eigi sér ekki alltaf stað og stund. Í baráttuhópum myndast oft viss stemning í kringum viðtekin sannindi og þeir sem ekki fella sig alveg við þau sannindi eru sjálfkrafa taldir hafa rangt fyrir sér. Umræðugrundvöllurinn er ekki alltaf mikill enda er þolinmæði fólks oft af skornum skammti þegar flestir andstæðingar þeirra eru í raun bjánar sem annað hvort skilja ekki baráttuna eða eru beinlínis á móti því að gefa eftir af eigin hagsmunum til annarra. Skynsamleg gagnrýni drukknar í svoleiðis orðræðuumhverfi, sem er einmitt það sem gerðist í tilviki vinar míns. Á köflum getur núanseruð gagnrýni nefnilega hljómað nákvæmlega eins og þöggunartilburðir þeirra sem vilja setja endalausa fyrirvara á alla róttæka umræðu. Þetta er vandamál sem ég get ekki ímyndað mér að verði nokkru sinni leyst.
Vinur minn var á þessum tímapunkti orðinn afneitari kynþáttahyggju, hvítþvottamaður og hrútskýrandi. Þá er honum bent á að fræðikonan er farin að baktala hann í öðrum hópi á Facebook frammi fyrir sumum af helstu amerísku fræðimönnum á sviðinu, og hann fer þangað til að verja sig en er fálega tekið. Þetta hefði getað endað þarna en í miðjum þessum umræðum áttar fræðikonan sig á því að hún hefur verið þögguð í fornenskuhópnum; nær allt sem hún hafði sett inn á síðuna var horfið, en þegar hún fékk hvítan karlvin sinn til að setja inn sömu færslur aftur þá stóðu þær án þess að nokkur hróflaði við þeim. Það er vandséð að þetta sé ekki kerfisbundin mismunun gagnvart henni persónulega, nokkuð sem vitanlega á ekki að líðast, en hún (skiljanlega mikið niðri fyrir) slengir vini mínum í hóp þeirra sem hún telur að hafi reynt að þagga niður í sér. Umræðurnar urðu þungar og hatrammar og vini mínum fannst hann dreginn í svaðið. Þá gerir hann þriðju mistökin: Hann sendir tölvubréf til sameiginlegrar vinkonu þeirra til að skýra mál sitt, að þetta hafi allt farið úr böndunum og það sé nú heldur ósanngjarnt hvernig honum hefur verið spyrt saman við hvíta alræðissinna og aðra rasista. Hann hefur væntanlega sent bréfið til að sjá hvort hægt yrði að miðla málum, en tónninn í bréfinu var ófagmannlegur og hann sér eftir því að hafa sent það.
Vinkonunni, sem er prófessor eins og allir í frásögninni nema vinur minn, blöskrar bréfið, brýtur trúnað og sendir það rakleiðis til fræðikonunnar ásamt eigin inngangi og túlkun á því. Þá fyrst verður allt vitlaust. Nú er vinur minn sakaður um að hafa reynt að doxxa hana, skilgreint hugtak sem merkir að hann hafi a) aflað sér upplýsinga um hana, b) deilt þeim upplýsingum með öðrum, c) í þeim tilgangi að koma höggi á hana. Um leið kemst hún að því að fólk hefur verið að gúgla sig í gríð og erg; þetta sér hún t.d. á prófílum sínum hjá academia.edu og háskólasíðunni sinni og víðar. Þeir vinir hennar sem höfðu staðið með henni í umræðunum segja sömu sögu. Nú virðist þeim sem einhvers konar doxxunarherferð sé í gangi gegn þeim. Með Trump sem forseta og nýnasista marserandi og drepandi fólk er kannski ekki skrýtið þótt bandarískir fræðimenn séu margir hverjir á nálum. Nú var vinur minn nálega kominn með horn og hala.
Næst birtast nokkrar ályktanir prófessora á vefnum, þar af ein sem nafngreinir vin minn ásamt með þekktum rasistum og einum zíonista sem fagnar því alltaf þegar palestínsk börn eru myrt. Þetta fólk sé ábyrgt fyrir persónuárásum, þöggun og doxxun fræðikonunnar og annarra, og það sé nauðsynlegt að afhjúpa það. Annar vinur minn blandar sér í málið og spyr hvort þetta sé nú viðeigandi, að fastráðnir akademíkerar séu að ráðast opinberlega gegn doktorsnema sem hafi ekkert af sér gert nema að segja skoðun sína á flóknu málefni. Fyrir þetta fékk hann yfir sig svívirðingar og ásökun um að taka málstað geranda umfram fórnarlambs og þar með viðhalda retórík nauðgunarmenningarinnar. Þetta fær hann yfir sig frá sumum af helstu fræðimönnum í faginu fyrir að biðja vægðar fyrir vin okkar. Á sama tíma grínuðust fræðimennirnir með það að einn þeirra er nafni þessa hræðilega vinar okkar, og greindu þá að í „góða“ X og „hinn“ X, sem er einmitt grundvöllur jaðarsetningar. Asískur vinur minn var með öðrum orðum jaðarsettur og aðraður í gríni af þeim (aðallega hvítu) fræðimönnum sem helst hafa rannsakað jaðarsetningu og öðrun. Ég held ekki að þeir hafi áttað sig á því hversu illa þessi framkoma hittir þá sjálfa fyrir. Í ofanálag bætist við valdastrúktúr hinna fastráðnu andspænis nemanda sem tölfræðilega átti litlar líkur fyrir á því að geta fengið vinnu við háskóla, en eftir þessa árás er spurning hvort hann muni nokkru sinni geta gert sig gjaldgengan þó ekki væri nema í bandarísku akademíunni. Það er búið að svartlista hann. Hann er „hinn“.
Málið hófst á hvítum fræðimanni sem grínaðist með að hann væri framandlegur eftir sólbað á Kanarí, en hefur endað (í bili) á asískum manni sem hefur verið gerður framandlegur og sakaður um allra verstu fyrirætlanir af (aðallega) hvítum fræðimönnum sem eiga að heita sérfræðingar í framandleikakenningum, og hafa í ofanálag lýst sig opinberlega andsnúna hvíta brandarakallinum. Það væri ekki hægt að ljúga svona furðusögu því til þess er veruleikinn of skrýtinn. Nú hefur framtíð vinar míns og frama verið teflt í tvísýnu, og til þess skrifa ég þetta á íslensku en ekki ensku að eyðileggja ekki eigin feril í leiðinni í vörn fyrir vin minn. Við þurfum á þessum Ameríkönum að halda ef við ætlum að verða eitthvað, svo það er best að við höldum kjafti og verum þæg. Það er í raun ótrúlegt hvað þau upplifa sig ofsótt rétt á meðan þau rústa mannorði valdalausra nemenda. Og það er ömurlegt að sjá að allt sem vinur minn gerðist sekur um hafa þau gerst sek um tífalt. Það gerðu þeir fræðimenn sem helst hafa orð á sér fyrir að vera framsýnir, félagslega meðvitaðir, andfasískir lýðræðis- og réttlætissinnar. Ég hlýt þá að velta fyrir mér hver sé eiginlega framtíðin í þessari umræðu ef það er svona sem hún á að virka. En það sem verst er af öllu er að svona tilgangslaus bræðravíg eru helst til þess fallin að verða vatn á myllu hinna raunverulegu andstæðinga.