Það er við hæfi á þessum degi, þegar ríkisvaldið vill halda að okkur minningu manns sem var negldur upp fyrir heldur litlar sakir fyrir tæpum tvöþúsund árum, að fjalla um eina trúarlega gripinn sem ég á.
Sumarið 2003 var ég staddur á Krít í hálfgerðu reiðuleysi, vissi ekki alveg hvernig ég átti að hegða mér eða hvað ég ætti að hafa fyrir stafni. Svo ég eigraði mikið um Chania og tók myndir af því sem fyrir augun bar, þar með af feitasta hundi sem ég hef á ævi minni séð. Það var eins og hann æti ekkert annað en ólífur og músakka.
Hvað um það, ég rambaði inn í einhverja litla skranverslun sem seldi hið aðskiljanlegasta dót, svona hluti sem aðeins túristar myndu kaupa. Öldruð kona sat við búðarkassann og kallaði stundum eitthvað til mín á grísku og brosti. Ég brosti á móti, gat ekkert annað gert. En vegna þess hvað hún var vinaleg fór ég að fá samviskubit yfir því að vilja ekki kaupa neitt þarna, svo ég afréð að kaupa eitthvað pínulítið svo hún fengi þó eitthvað fyrir sinn snúð.
Það var þá sem ég rak augun í litlu hasspípuna sem kostaði eina evru; plebbalegur gripur sem undirstrikaði tilganginn með mynd af kannabislaufi á pípustilknum. Þetta var það ódýrasta sem ég fann svo ég rétti konunni pípuna, en hún tók við henni og sýndi mér í þaula hvernig ætti að nota hana. Ég skildi ekki orð í grísku en skildi þó allt hvað hún átti við. Síðan pakkaði hún pípunni snyrtilega inn í gjafapappír og límdi og rétti mér, en sagði mér þó að hinkra aðeins.
Hún fór eitthvert á bakvið og kom síðan aftur með íkon af Maríu mey og Jesúbarninu. Þetta rétti hún mér með þeim orðum, eftir því sem mér skildist, að ég ætti að gefa þetta móður minni. Ég taldi að hugsunin væri ef til vill á þá leið að fyrst ég ætlaði í sollinn, þá væri gott að mamma hefði sem bestan aðgang að guðsmóðurinni. Ég þakkaði kærlega fyrir mig, á íslensku enda skildi hún hvort eð er enga ensku, og fór heim á hótel með þennan fallega kaupbæti.
Þegar ég svo kom heim færði ég mömmu íkoninn en hún vildi hann ekki. Ég veit ekkert hvað varð um hasspípuna (kannski hún sé heima hjá mömmu, hehe), en íkoninn á ég enn og mér þykir vænt um hann. Í grísku og rússnesku rétttrúnaðarkirkjunum er íkoninn ekki mynd af almættinu, heldur gluggi sem veitir þér beint samband við almættið. Samkvæmt trúnni þá er ég því með Maríu sjálfa og Jesúbarnið hjá mér, sem mér finnst falleg hugmynd þótt ég sé vitatrúlaus.
Mér finnst ég miklu frekar með þeim mæðginum hafa beint samband við gömlu konuna í Chania sem ég hef svo oft hugsað til, sem lét mér líða eitt andartak eins og ég skildi grísku og sem vildi mér svona vel. Þannig að íkoninn hefur fylgt mér á margt heimilið og hangir nú á vegg inni í svefnherbergi, undir málverki af Chania.