Grein í Steingerði tilbúin. Hún fjallar um mikilvægi listarinnar. Þá eru allar áætlaðar greinar skrifaðar, vona þær verði ekki fleiri í bili. Fékk smá sjokk í svona mínútu þegar ég var nýbúinn að skrifa hana og upp kom sá möguleiki að Steingerður væri þegar farin í prentun. Við nánari eftirgrennslan reyndist það sem betur fer ekki rétt.
Sjálfsagt klára ég lagfæringar á stóru ritgerðinni á morgun og læt binda inn daginn eftir. Geri ráð fyrir hilluplássi inni á bókasafni, líkt og hlaut rannsókn okkar Brynjars frá í fyrra.
En af skrifum hef ég fengið nóg í bili og nú þrái ég komu vorsins og sumars án nokkurra annarra skylda en að mæta í vinnuna að morgni dags. Held ég hafi sjaldan verið eins útjaskaður og útkeyrður af akademískri metnaðargirni. Og hver verður svo tilfinningin að sjá öll þessi ár standa sem tölur á blaði? Eru það ekki vonbrigði, eftir alla þá lífsreynslu og þroska sem maður hefur meðtekið á svo löngum tíma? Félagslegi þátturinn er allt námið. Tölurnar eru einskis virði. Áreiðanlega verður útskriftin andklímax dauðans. En það er víst andklímaxinn sem er mælikvarði á getu og gerir fjölskyldur svo stoltar.