Ég var að horfa á kvikmyndina Kingdom of Heaven. Það var nú ljóta draslmyndin.
Hér má fræðast um þriðju krossferðina. Ekki er það nú beinlínis skemmtileg mannkynssaga, en af vafasamri heimild sem Wikipedia er, má sjá að þar sem Orlando Bloom, Liam Neeson og Jeremy Irons voru ekki í myndinni, þar fylgir hún sögunni bærilega.
Enda var það svosum ekki vandamálið. Það eru Orlando Bloom og þriðja krossferðin sem eru vandamálið – hvorttveggja er álíka leiðinlegt. Þetta tvennt vafið inn í eitt undarlegasta handrit og eina þá lélegustu klippingu sem ég man eftir úr „epískri stórmynd“ gerir alla stjörnugjöf óþarfa.
Ef menn vilja krossferðir, þá er sú fjórða málið. Ekki sú þriðja. Aldrei sú þriðja. Ef einhver gerir mynd um þá fjórðu með Orlando Bloom í aðalhlutverki, þá bít ég af sjálfum mér hausinn.
Það væri nú áhugavert að sjá (eiginhausbitið altså).
Ég lærði það af munkum í háfjöllum Tíbet. Eða ég held ég hafi lært það, maður veit það ekki nema að reyna, og maður reynir aðeins einu sinni.