Þetta var ekki frétta af Baggalút heldur á RÚV. Einhver Bandaríkjamaður heldur því fram að Færeyjingar séu árásagjarnir og blóðþyrstir vegna of mikils kvikasilfurs. Sönnun þessa vísindamanns á þessari kenningu var að koma með upptöku af grindhvaladrápi.
Íslendingar drápu hvali áður fyrr á þennan hátt og ég efast um að kvikasilfur hafi átt þátt í því. Spurningin er hvort það séu aðferðirnir sem eru notaðar sem benda til þess að Færeyjingar séu svona blóðþyrstir. Ég veit ekkert um aðferðirnar en ég sé fyrir mér að það sé djöfulerfitt að drepa hval og því sé þetta blóðugt en ég efast um að Færeyjingar séu grófari í þessu en Íslendingar til dæmis voru.
Nú hefði verið gaman ef samanburður á ofbeldisglæpum í Færeyjum og Bandaríkjunum væri til staðar. Kemur þessi hræðilega kvikasilfursmengun kannski bara fram í hvaladrápi?
Í gegnum tíðina hef ég hitt nokkuð af Færeyjingum og man ekki eftir öðru en þeir hafi allir verið með afburðum rólegir, reyndar tekur maður sérstaklega eftir þessu hjá þeim. Nú er hættan semsagt ljós, við þurfum að passa okkur á fólki einsog Jákob í Rúmfatalagernum, Eivöru Pálsdóttur og síðast en ekki síst þá getur maður verið viss um að hljómsveitin Týr sé skipuð brjálæðingum upp til hópa.
Væri ekki gaman ef fjölmiðlar hættu að birta svona rugl fréttir án þess að koma með gagnrýni?
Sem minnir mig að það var grein um Tý í Fréttablaðinu í dag. Kaupið plötuna ef þið hafið ekki þegar gert það, hún fæst allavega í 12 Tónum.