Byggist kristni ekki á Biblíunni?

Í frekar langan tíma hefur mig langað að vita hverju hinir trúuðu meðlimir Þjóðkirkjunnar trúa úr Biblíunni. Í hvert skipti sem maður bendir á eitthvað í Biblíunni þá koma þeir með einhver komment um að þeir trúi nú ekki öllu sem stendur skrifað þar. Ég er byrjaður að halda að þeir trúi varla neinu sem stendur í Biblíunni (sem væri merkilega mikil skynsemi af þeirra hálfu). Það eina sem maður heyrir þá vitna í Biblíuna þá er það eitthvað um að elska náungann, hinn mikli haturs- og fyrirlitningarboðskapur Biblíunnar er hunsaður.

Ég vill fá útgáfu af Biblíunni þar sem er búið að klippa út allt sem þessir náungar vilja ekki skrifa undir, hún yrði vissulega þunn. Það að búa til svona Biblíu væri lítið mál, bara taka netbiblíuna og vinna með hana í einhverju ritvinnsluforriti.

Væri fyrsta verkið að fjarlægja Gamla Testamentið fyrir utan spádóma um Krist? Grunar það. Síðan að klippa út hluti í því Nýja einsog þegar Jesú talar um að höggva af sér höndina. Ég er samt aðallega spenntur yfir því hvað væri gert við bréf Páls postula, áhrifamesta mann kristninnar á eftir Jesú, myndu bréfaskriftir Palla hverfa?
Á hvaða grundvelli stendur kristnin ef ekki á Biblíunni? Ef þú trúir ekki að boðskapur Gamla Testamentisins standi þá sé ég ekki á hvaða grundvelli þú trúir á spádóma um og síðan komu Jesú. Og ef það er ekki hægt að trúa vitnisburði þeirra sem segja frá Jesú þá skil ég ekki hvernig fólk getur vitnað í orð hans eða trúað að hann hafi verið sonur guðs. Á hvaða forsendu eru þessir aðilar sem ekki trúa á Biblíuna að kalla sig kristna?
Hvað eru mörg ár síðan kirkjan hefði einfaldlega brennt fólk fyrir að halda því fram að maður eigi ekki trúa öllu í Biblíunni? Veldi kirkjunnar var ekki byggt á því að segja að sumt í Biblíunni væri satt og sumt ekki, fólk einfaldlega trúði þessu rugli frá A-Ö (Alfa til Ómega) og sumir, sem geta kallað sig kristið fólk með góðri samvisku, gera það enn þann dag í dag. Sjáið fyrir ykkur trúboð þar sem sagt er:”Ja, við erum með þessa bók, við trúum varla neinu sem stendur í henni en samt viljum við troða henni inn á hvert hótelherbergi”.

Kristin trú varð til (einsog nær öll trúarbrögð) vegna þess að fólk vildi skilja heiminn, það vildi finna að gæti haft áhrif á örlög sín (með því að fara eftir skipunum guðs), af því að fólk var ekki sátt við líf sitt og það vildi lifa lengur og betur. Í nútímanum gengur kristni ekki upp.

Þjóðkirkjan í dag er með svona velja og hafna trúarbrögð, þú mátt trúa hverju sem þú vilt svo lengi sem þú gagnrýnir kirkjuna ekki og borgar henni pening (skráir þig ekki úr henni). Þjóðkirkjan er, í stuttu máli, fyrir hræsnara.