Annáll 2003

Fyrstu mánuðir ársins einkenndust af mótmælum gegn yfirvofandi innrás í Írak, ég hef enga hugmynd um hve mörgum sinnum ég mætti. Ég tók líka örlítinn þátt í kosningabaráttu VG. Ég gekk síðan að lokum í Samtök Herstöðvaandstæðinga en hef ekki gengið í VG enda fyndist mér ég þá vera fullbundinn. Í gegnum mótmælin og allt tengt því kynntist ég mörgu áhugaverðu og skemmtilegu fólki.

Ég þurfti að skipta um vinnu á vormánuðum vegna þess að aðalvertíð perubúðarinnar gekk ekki vel. Ég fékk góða vinnu eftir að hafa verið atvinnulaus í svona viku, þetta varð samt til þess að ég gat ekki tekið neitt sumarfrí. Reyndar hafði ætlunin alltaf verið sú að við Eygló færum til Evrópu á Interrail en það brást þegar Eygló fékk ekki vinnuna sem henni hafði hálfpartinn verið lofað eftir að hún útskrifaðist. Í staðinn fyrir að fara í vinnu fór Eygló bara í Háskólann. Áætlanir breytast semsagt auðveldlega. Eitt gott við vinnuskiptin var að ég missti alveg ótalmörg kíló í nýju vinnunni og þó virðast ekkert ætla að snúa aftur nema í mýflugumynd.

Eftir að Eygló byrjaði í skólanum fór hún að kynnast fólki sem nú er orðið vinafólk okkar, það er afar ánægjulegt.

Í mars eignaðust Hafdís og Mummi dóttur sem fékk strax nafnið Sóley Anna, var ekki skírð mér til mikillar gleði. Ég man að við Eygló vorum að borða hamborgara á American Style og skoða kennsluskrá Háskólans áður en við fórum til Akureyrar að sjá Sóleyju, þá ákvað ég endanlega hvað ég ætlaði læra, aukagrein og aðalgrein.

Dagbókin mín færðist yfir á Kaninkuna í sumarbyrjun, það var nú skemmtilegur flutningur.

Við ferðuðumst aðeins í sumar, fórum austur fyrir fjall einsog það heitir á reykvísku, skoðuðum meiraðsegja Stokkseyrarbakka. Við fórum líka til Borgarfjarðar og skoðuðum okkur aðeins um með frænku, afa og ömmu Eyglóar.

Í lok júní fengum við fréttir af því að amma í Stekkjargerði væri orðin veik og við drifum okkur strax af stað að hitta hana. Þetta fór ekki á versta veg en ekki heldur á besta veg, amma er núna komin á elliheimili. Það er erfitt að sjá ömmu á elliheimili og passar ekki við það hvernig amma var fyrir örstuttu síðan, það var hins vegar hiklaust best fyrir hana að komast á elliheimilið. Allt er breytt.

Við fórum á Foo Fighters tónleika í lok ágúst, það var gaman en margt var að gerast á sama tíma sem gerði það að verkum að tónleikarnir urðu aukaatriði.

Við höfðum sótt um á stúdentagörðum og tveir mánuðir fóru í endalausa bið, sjá hvort biðlistarnir færu ekki að breytast. Í ágúst varð þetta hins vegar ljóst og við gátum loks byrjað að undirbúa flutninga. Fyrsti september var erfiður, við biðum eftir að fá svar um hvort við gætum flutt inn þá eða hvort við þyrftum að bíða, það gekk loks eftir og við fluttum inn.

Við byrjuðum líka í skólanum fyrsta september, við vorum reyndar upptekin í mörgu allan september þannig að námið var í öðru sæti. Við vorum líka upptekin í félagslífinu, Eygló opinberlega í stjórn Katalogosar og ég fylgdi með. Ég varð líka skorarfulltrúi fyrsta árs nema í bókasafns- og upplýsingafræði þannig að ég hef fengið einhverja innsýn í hvernig innra starfs skólans er. Ég er víst líka deildarfulltrúi nemenda í skorinni en hef ekkert gert sem slíkur.

Í september byrjaði ég líka að skrifa fyrir vefritið Vantrú og það hefur verið skemmtilegt að undanskyldum tæknivandræðum. Það verður gaman að sjá hvernig það þróast.

Þegar við vorum nýflutt inn byrjuðum við að fá gesti í gistingu, fyrst voru Anna og Haval, síðan var Eva hjá okkar í viku þegar hún flutti suður. Hafdís, Sóley og Mummi hafa líka komið nokkrum sinnum.

Í október datt mér í hug að stofna kvikmyndaklúbb og gerði það. Það hefur verið ægilega gaman og ég vonast eftir að það verði jafnvel meiri virkni þar þegar Idol hættir og kvenþjóðin sýnir áhuga.

Ég veitti Vefverðlaun Gneistans í annað skipti í lok september og það birtist grein um það í Fréttablaðinu, það var ákaflega gaman.

Í nóvember þá kom hljómsveitin Týr aftur til landsins, ég fór á alla tónleikana og hitti þá þar, hafði haft einhver samskipti við þá áður. Þetta þróaðist hins vegar þannig að þegar þeir komu aftur í desember voru þetta orðnir vinir mínir, það var óvænt en skemmtilegt. Ég fékk skemmtilega innsýn í tónlistarbransann með því að fylgja þeim og með því að vera hálfgerður fjölmiðlafulltrúi þeirra í seinna skiptið sem þeir komu.

Yfir heildina var árið án efa gott, best var að eignast nýja vini, kynnast nýju fólki og einnig það að fá eldri vini í nágrennið.