Gæti ég fengið hvuttasekk?

Eftir að hafa eytt of miklum peningum í bílviðgerðir og beðið eftir leiðinlegum viðskiptavin þá virtist fullkomið að skreppa á American Style, það gekk vel fyrir utan að ég fékk BBQ borgara sem ég þurfti að skila. Þegar ég er að skila borgaranum þá tek ég eftir Loga Bergmann þarna og sé líka að með honum er ljóshærð kona sem ég gerði ráð fyrir að væri Ljósavakalæðan (sá aldrei andlitið á henni). Þegar ég kem aftur að borðinu var ég búin að móta plan, ég bað Eygló um að fara að afgreiðsluborðinu (fræga parið sat þar rétt hjá) til að biðja um hvuttasekk.

Nú er ekki öllum ljóst hvaða fyrirbæri hvuttasekkur er. Árið 2002, sem var ár bloggsins, spunnust miklar deilur um hvort hvuttasekkur væri raunverulega norðlenska. Tvö kattardýr börðust um þetta og margir skiptu sér af málinu, annars vegar var Viðar Köttur og hinsvegar Svansý Ljósvakalæða. Ég var einn af þeim sem skipti mér af málinu og tel mig reyndar hafi gert málflutning Viðars að engu, hann hafði heyrt orðið á Vopnafirði en ég benti á að á þessum ákveðna matsölustað unnu á þeim tíma reykvískar stúlkur, þar af leiðir að uppruna orðsins var ekki að leita á norðurlandi.

En aftur í nútímann. Eftir að hafa talað í mig kjarkinn sem Eygló skorti fór ég að fá mér áfyllingu á gosið, sá ég þá fullkomið tækifæri þar sem afgreiðslustúlka átti akkúrat leið þarna framhjá. Ég stöðva hana og spyr stundarhátt:”Gæti ég fengið hvuttasekk”, hún hváir og ég endurtek bónina sem hún skilur. Því miður sá ég ekki að konan sem ég tel vera Svansý hafi brugðist nokkuð við þessu (hver veit nema Logi hafi verið úti að borða með systur sinni eða eitthvað, þá er brandarinn alveg ónýtur).

Ég sný aftur að borðinu og tek þá eftir að við höfum nærri engan mat eftir. Örstuttu seinna kom afgreiðslustúlkan með frauðplastbakka, hún sá hve lítill matur var aftur spurði hvort við vildum ekki bara einhvern smá poka en ég var fljótur að segja að þetta væri bara fínt. Við fórum þar af leiðandi heim með svona fimm heilar franskar og nokkra stubba í bakka sem dugar undir hamborgara og heilling af meðlæti. Eygló hló mikið að þessum brandara mínum og ég verð að segja að mér fannst hann nokkuð góður sjálfur, ég játa að ég hefði aldrei þorað þessu ef ég hefði ekki hugsað útí að þetta væri efni í færslu.

Hver veit annars nema að Svansý fái á hverjum degi yfir sig hvuttasekksbrandara?