Týr á tónleikum og önnur ævintýri Óla í Kaupmannahöfn

Forsagan er sú að mig langaði heilmikið að fara á tónleika með Tý núna.  Þeir voru á tónleikaferð í aukahlutverki í september og verða aftur í aukahlutverki með sér frægari hljómsveit í nóvember.  En eitt kvöld stóð uppúr í október, eitt kvöld í Kaupmannahöfn þar sem þeir yrðu aðalnúmerið með fullt sett.  Þar til í síðustu viku þá hélt ég að ég kæmist ekki af því að ég hélt að það væri próf daginn eftir.  En ég sá að prófið skipti ekki öllu máli og ákvað að panta flugmiða.  Daginn eftir komst ég að því að þetta var misskilningur með prófið.  Eygló langaði með en það var frekar óhentugt varðandi Landsfund Upplýsingar sem hún þurfti að fara á.


Ég hef aldrei pakkað eins létt fyrir utanlandsferð.  Ég hafði bara nauðsynlegustu föt til skiptanna.  Engar aukabuxur til dæmis. Það þyngsta í bakpokanum var bókin The Road to Middle Earth sem ég er að lesa fyrir Tolkien kúrsinn sem ég sit.

Ég vaknaði rétt fyrir 4 á miðvikudagsmorgun.  Ég eldaði mér hafragraut, kvaddi Eygló og fór í Taxa niður að BSÍ.  Daginn áður hafði ég verið að spjalla við Marie sem er dönsk stelpa í þjóðfræðinni.  Hún sagði mér að hún væri á leiðinni til Danmerkur og kom þá í ljós að við vorum í sama flugi.  Þá ákváðum við að taka sömu rútu á flugvöllinn og við hittumst því á BSÍ.  Við spjölluðum heilmikið saman.  Hún er voðalega skemmtilegur nörd.  Spilar roleplay, pen & paper eins og hún orðaði það.  Ekkert feik tölvudót.  Einnig er hún voðalegur Neil Gaiman aðdáandi.

Á flugvellinum sýndist mér á skilti að það væri alveg bannað að hafa með sér alla vökva í handfarangri (ég var augljóslega með bakpokann í bara með mér og engan inntjékkaðan farangur).  Ég ætlaði að fórna sjampóinu, munnskolinu og tannkreminu en mér var sagt að þetta gilti bara um Bandaríkin.  Hjúkk.

Ég skrapp í Fríverslunina og keypti mér fimm eintök af disknum Krás á köldu svelli sem inniheldur ýmis þjóðlög.  Fjögur eintök voru fyrir meðlimi hljómsveitarinnar en hið fimmta var bara fyrir okkur Eygló.  Við Marie keyptum okkur rándýran mat þarna og komum okkur síðan í vélina.  Kristín Tómasar var líka á leið til Kaupmannahafnar að djamma.  Með spjalli við Marie á meðan flugvélin tók á loft náði ég að koma í veg fyrir mestu flughræðsluna.  Fljótlega eftir að við vorum komin í loftið sofnuðum við bæði.  Mitt króníska vandamál varðandi hrotur þegar ég sef sitjandi í lest/rútu/flugvél hrjáði mig þarna.  Marie vakti mig þá einfaldlega með olnbogaskoti.

Við Marie drifum okkur í gegnum Kastrup. Hún þurfti reyndar að bíða eftir farangri sínum en ég hélt bara beint áfram.  Ég hélt líka að við yrðum ekki í sömu lest.  Hins vegar var ég það lengi að kaupa mér lestarmiða og að villast að við enduðum í sömu lest.  Hún þurfti að ná annarri lest í Kbh til að komast heim til fjölskyldu sinnar.

Ég fór beint á hótelið mitt, Löven og losaði mig við allt óþarft drasl.  Næstu klukkutímana ráfaði ég um Kaupmannahöfn.  Fékk mér pizzu að borða.  Um fimmleytið fór ég að klúbbnum The Rock sem Týr átti að spila í um kvöldið til að vita hvar hann væri, ég ætlaði reyndar síðan að fara að hitta Týsaðdáendur á einhverjum matsölustað við Ráðhústorgið.  Þegar ég kem þangað sé ég tvo menn merkta The Rock standa fyrir utan.  Ég kynni mig sem vina hljómsveitarinnar og spyr hvort þeir séu inni.  Mér er sagt að þeir hafi átt að koma fyrir klukkutíma síðan og hafi ekkert látið vita af sér.  Ég ákveð því að bíða eftir þeim.  Þegar á leið datt mér í hug að símanúmerið sem ég hef hjá Heri sé kannski gsm númer en ekki heimanúmer og hringi í það.  Heri svarar og segir að þeir séu fastir í umferð.

Þeir komu skömmu seinna og ég hjálpaði þeim að bera dótið inn.  Reyndar passaði ég mig líka á að vera ekki fyrir þegar ég vissi ekki hvað átti að fara hvert.  Með hljómsveitinni var Allan bróðir Kára trommara.  Þegar hann kynnti sig þá sagði ég honum að ég vissi hver hann væri.  Hann söng nefnilega á smáskífunni Ólavur Riddararós.  Hans stíl var samt ekki að falla að stíl Týs þannig að aðkoma hans var skammlíf.  Allan virðist vera fínn strákur.

Þegar dótinu hafði verið komið fyrir inni þá fór fram sándtékk sem ég hafði gaman að.  Skemmtilegast var þegar Heri söng Í götu ein dag sem Eivör tók á sínum tíma.  Ég hékk síðan með þeim baksviðs meðan þeir voru að undirbúa sig.  Það var reyndar svoltið ruglandi að hlusta á þá tala því þeir voru alltaf að skipta yfir í dönskuna þegar þeir ræddu við starfsólkið.  En færeyskan síast hægt og rólega inn.  Ég fór reyndar út til að fá mér að borða, fékk vont kebab.  Þegar ég kom til baka var komin voðaleg biðröð fyrir utan klúbbinn en sem betur fer náði ég að laumast aftur inn með Heri.

Þarna hitti ég tvo Íslendinga sem heita Brynjar og Ásta ef ég man rétt.  Brynjar er frændi Sigrid hans Heri.  Ég fékk þær fréttir frá þeim að Sverrir bróðir Sigrid sem lóðsaði mig um Þórshöfn og Kirkjubæ í fyrra væri fluttur til Íslands og farinn að vinna á leikskóla hér.  Það væri gaman að hitta hann og endurgjalda honum gestrisnina.  Það var óneitanlega gaman að hanga baksviðs.  Sjá hljómsveitina koma sér í gírinn og ræða tónleikana sem voru framundan.  Heri útskýrði fyrir mér hvaðan nafnið á The Rage of the Skullgaffer væri komið. Sigrid leit líka snöggt við og spjallaði smá.  Ég fékk disk áritaðann fyrir Dagbjörtu og færi henni hann á mánudag eða þriðjudag.

Þegar komið var að því að Týr færi að spila þá fór ég fram og fann stelpu sem ég vissi að var frá Hollandi.  Hún var með strák þarna sem var frá Mexíkó.  Spjallaði við þau meðan Týr var að koma sér fyrir bak við tjaldið.  Tónleikarnir voru flottir og það var mjög gaman að sjá hve margir þarna sungu með.  Starfsfólkið sagði líka að þetta væri rosalega mikið af fólki miðað við miðvikudagskvöld.  Fyrst hélt ég að þetta væri bara Færeyjingar en í raun voru þetta flestir Danir.  Greinilegt að Týr er kominn með nokkuð stóran aðdáendahóp þar.  Allir voru þeir flottir á sviði.  Terji er klassíski svali gítarleikarinn sem er með gítarinn fyrir neðan pung og einbeitir sér að spilinu.  Gunnar er óði rokkarinn sem keyrir fólk áfram.  Heri stjórnar öllu eins og herforingi.  Að sjálfssögðu fer minnst fyrir Kára á bak við trommurnar.

Í kringum mig var misgáfulegt lið.  Að sjálfssögðu of mikið um reykingar enda lyktar Kaupmannahöfn eins og sígaretta. Nokkrir sem voru aðeins of mikið í að hoppa á hvern annan og saklaust fólk í leiðinni.  Heri varð á tímapunkti svo fúll að hann sparkaði, eða ýtti með fætinum, einum frá sviðinu og lét dyravörðinn henda honum út.  Rétt hjá mér voru stelpur í voðalegum búningum sem ég hélt fyrir að væru færeyskar en voru víst flestar danskar.  Ein þeirra var með 2l flösku af „mjöð“ falda undir kjólnum.  Þessi flaska var reglulega dregin fram og drukkið í laumi.  Að lokum náði dyravörðurinn samt flöskunni af einhverjum sem var að laumast í hana.  Sömu stelpur gáfu Heri hálfslítra flösku af mjöð sem hann drakk úr horni sem einhver aðdáandi var með sér.

Þegar hljómsveitin tók Ormin langa þá hringdi ég í Eygló og leyfði henni aðeins að hlusta.  Að loknum tónleikum fór ég baksviðs með þeim og tók mynd af Gunnari liggjandi á gólfinu.  Hann útskýrði fyrir mér að hann hefði aðeins misreiknað hve hringabrynjan hefði mikil áhrif á sig.  Þetta var allt í lagi þegar þeir voru með stuttan lagalista sem upphitunarband en svona langir tónleikar voru annað mál.  Hann sagði að það hefði næstum liðið yfir sig á tímapunkti.  Síðan tók hann og hellti yfir sig vatni.

Síðan fór hljómsveitin út og áritaði og áritaði.  Bæði diska, miða og líkamsparta.  Ég eyddi mestum tíma með Hollendingnum Cat og Mexíkanum Luis.  Luis er bara 19 ára en Cat er 26 ára og með MA-gráðu í listasögu.  Hún hefur mikinn áhuga á því hvað er á bak við texta hljómsveitarinnar.  Hún var líka mjög ánægð með mig þegar ég sagði henni að ég hefði skrifað póst á spjallborð Týs um það hvað textarnir á Ragnarök þýddu í samhengi goðafræðinnar.  Sagði að hann hefði hjálpað sér mjög.  Hún benti mér líka á að í Færeyska húsinu í Kaupmannahöfn væri hægt að kaupa diskinn frá Færeysku tónleikakeppninni 2001 þar sem Týr spilaði.  Ég montaði mig líka af því að eiga Demódiskinn og að hafa fengið þakkir í Ragnarök bæklingnum.  Maður verður að gera þetta í kringum fólk sem kann að meta það.

Ég spjallaði við fleira fólk.  Heyrði meðal annars dömurnar lýsa yfir aðdáun sinni á fegurð Heri.  Sérstaklega þegar hann fór úr að ofan.  Ég útskýrði fyrir þeim að hann væri nú giftur og með barn þannig að áhuginn færðist yfir á Terji sem er ekki síður vinsæll.  Eftir að gengið hafði verið frá öllu var ákveðið að koma okkur eitthvað í eftirpartí.  En þá þurfti fyrir að færa bílinn með dótinu þar sem græjunum yrði ekki stolið.  Kom þá í ljós að allir hljómsveitarmeðlimirnir og Allan höfðu fengið sér í glas.

„Ert þú með ökuskírteinið þitt Óli?“ spurði Heri.  Ég svaraði játandi en benti á að ég væri nú ekki vanur að keyra sendiferðabíla, jafnvel svona lítinn, og að ég hefði þar að auki ekki keyrt utan Íslands.  Ég sagði nú að ég væri samt til ef ég fengi að keyra löturhægt.  Þetta var voðalega langdregin bílferð.  Tutl-bíllinn er ekki voðalega þægilegur í akstri og Kári og konan hans sem voru að vísa mér leið voru ekki alltof öruggt á leiðinni.  Ég var líka með GPS tæki sem var ekki alltaf með það á hreinu hvar einstefnugötur væru.  Á leiðinni minnti ég Kára á að síðast þegar ég var að skutla honum þá hefði ég villst og þá var ég bara að keyra í Reykjavík.

Það voru engin stæði við hótelið þannig að við fundum bílastæðishús til að leggja í.  Til að komast þar inn þurfti fyrst að keyra niður þrönga og bogadregna aðrein.  Þegar þangað var komið virtist tækið sem stjórnaði inngöngunni ekki vilja hleypa okkur inn og ég var farinn að óttast að ég þyrfti að baka þennan ömurlega stíg aftur upp.  En það opnaðist og við komumst inn.  Við fundum stæði og reyndum að finna leið út.  Þegar við komum að því sem við héldum að væri útgönguleið var okkur ekki hleypt út.  Þarna var takki sem við héldum að ætti að opna dyrnar en virkaði ekki.  Við röltum því til að finna aðra leið út og sem betur fer enduðum við aftur þar sem við höfðum keyrt inn.  Kári fann takka til að opna hurðina og við komum okkur út.  Síðan röltum við að hótelinu.

Á hótelinu sá Hollendingurinn um að bjóða upp á gos, vatn og bjór.  Ég fékk mér Sprite.  Við spjölluðum heilmikið.  Heri sagði mér af framtíðarplönum.  Þegar næsta plata kemur út þá verður Týr væntanlega orðin að headliner bandi og ekki lengur að sjá um upphitun.  Hann sagði mér líka að í þessum tveimur tónleikaferðum sem þeir hafa verið bókaðir í sem upphitun þá hafi þeir í bæði skiptin verið sérvaldir af aðalhljómsveitinni.  Ég hef sagt þetta áður og það er ennþá sagt.  Týr þarf bara heppni til að geta slegið verulega í gegn, allavega í þungarokksheiminum.  Þeir hafa hæfileikana og í raun eru þeir langt komnir í að byggja upp orðspor.  Tónleikaferðin í september gekk víst mjög vel og fólk allsstaðar að þekkti textana þeirra.  Annars tókum við Heri og sungum saman Feed me Seymor úr Little Shop of Horrors.

Umræðan við hitt fólkið snerist að einhverju leyti um Ísland.  Ein stúlka sagði að við værum of amerísk með helvítis herinn. Ég tilkynnti þá fólki að herinn hefði yfirgefið Ísland sem vakti fögnuð og kallaði þetta á skál.  Hins vegar voru menn mér sammála að það væri ekki mikil virðing í því fólgin að hann hefði farið af áhugaleysi í stað þess að vera sparkað burt.  Þarna voru líka búningaklæddu dömurnar.  Þær eru víst allar í víkingapakkanum, endurvakningu og bardögum.  Þær eru á leiðinni að fara að endurskapa orrustuna við Hastings bráðlega.

Þegar klukkan var orðin svona fjögur var ákveðið að nóg væri komið.  En við röltum þó fyrst út í búð og fengum okkur að borða.  Ég fékk með merkilega góðan hálfmána.  Kannski var hann bara góður af því að ég var svangur.  Ég kvaddi hljómsveitarmeðlimi með þeim orðum að næst myndum við sjást á Íslandi.

Ég rölti heim á leið með Hollendingnum og Mexíkananum.  Þau voru ótrúlega glöð enda verður ekki annað sagt en að hljómsveitin sé ákaflega örlát við aðdáendur sína.  Ég sofnaði um fimmleytið.  Uppgefinn.

Ég vaknaði klukkan 10 daginn eftir og ráfaði sem fyrr um Kaupmannahöfn.  Ég gerði töluvert af því að sitja og horfa á mannlífið.  Ég fór líka í verslanir, spilabúðir skoðaði ég sérstaklega. Ég keypti gjafir handa Eygló og dvd myndir handa mér.  Ég keypti mér líka lítinn Gizmo bangsa.  Ég fór líka í Færeyjahúsið og keypti diskinn sem Cat hafði bent mér á.  Þarna voru líka til sölu bolir með Föroya bjór en því miður var verið að selja þann síðasta þegar ég kom.  Á honum var mynd af kind og þar stóð „Black Sheep“, ég hefði viljað gefa Eygló einn svoleiðis.  Þar sá ég reyndar líka að hægt var að kaupa sér disk með Brúðarbandinu þar.  Tók mynd af því.

Ég kom heim um svona fimmleytið og ákvað að leggja mig enda uppgefinn eftir lítinn svefn og miklar göngur.  Ég átti erfitt með sofna vegna þess hve líkaminn var búinn að vera.  Þegar ég vaknaði um áttaleytið ákvað ég að fara út að fá mér að borða.  Ég hafði á rölti mínu tekið eftir kebab stað á Istegade og ákvað að reyna að borða þar.  Á leiðinni þá fór ég að hugsa að þetta væri nú vafasamur staðurinn til að vera á að kvöldi til.  Þegar ég sá tvo 7-8 ára krakka á rölti í hliðargötu af Istegade ákvað ég nú að ég væri kannski að hugsa of mikið einsog sveitamaður.

Ég mundi ekki hvar kebab staðurinn var þannig að ég rölti aðeins um götuna.  Á leiðinni kemur upp að mér kona og segir eitthvað við mig á dönsku.  Ég segi eitthvað að ég skilji ekki og konan spyr mig hvort ég sé að leita að einhverju.  Ég held ég hafi bara orðið vandræðalegur á svipinn sem hún virtist túlka sem ákveðið jáyrði (þó ég væri reyndar bara að leita að matsölustað).  Hún tók og útskýrði fyrir mér að tott kostaði 300 krónur en fyrir 500 gæti ég fengið allt.  Það fylgdi víst líka að borga 90 krónur fyrir herbergi á einhverjum vafasömum topplausum bar.  Ég afþakkaði tilboðið kurteisislega og rölti burt.  Ég vissi að konan minnti mig á einhvern en fattaði ekki fyrir löngu síðar að hún leit út eins og konan úr CSI sem er fyrrverandi strippari.  Næsta sem ég sá útundan mér var kona að undirbúa heróínneyslu (ef ég þekki aðferðina rétt úr kvikmyndum og sjónvarpi) á götuhorni.  Einnig er greinilega mikið af fíklum við kirkjuna þarna.

Ég fann þá kebab staðinn og borðaði þar.  Ekki var þetta jafn slæmt og kebabið af strikinu en þó ekki gott.  Greinilegt að danskir innflytjendur eru ekki jafn góðir í þessu og sænskir innflytjendur.  Síðan rölti ég heim.

Ég vaknaði um morguninn við að einhver var að opna dyrnar mínar.  Ég hafði gleymt lyklinum í skránni.  Gáfaður Óli.  Ég held að konan hafi ekki verið að opna til að ræna mig heldur til að láta mig vita af þessu.

Ég tékkaði mig út fyrir tíu og rölti upp á Strik.  Kíkti í diska/myndabúð og íhugaði að kaupa þættina Dóttir málarans sem ég man svo sterkt eftir frá því í æsku á aðeins 99 danskar.  En ég gerði það ekki.  Þess í stað keypti ég tónleika með Queen frá Japan 1985 sem ég átti ekki fyrir.  Heppni þar.

Það var voðalegur ruglingur á mér með að kaupa miða í lestina á Kastrup.  Ég fékk misvísandi upplýsingar en fékk loks miða.  Ég kom á Kastrup tveimur tímum fyrir flug og lenti ekki neinni röð sem við tjékkinn.  Eitthvað þótti tollvörðunum mínum jakkinn minn grunsamlegur því hann þurfti að fara tvisvar í gegnumlýsingu en kom aftur athugasemdalaust.

Ég skoðaði í búðirnar á flugvellinum og hneykslaðist á verðinu.  Keypti mér vatn og settist til að lesa.  Ég fór síðan í vélina og las þar líka.  Kláraði næstum bókina.  Á Keflavíkurflugvelli keypti ég það sem Eygló hafði skipað mér að kaupa og dreif mig upp í rútu.  Ég var óheppinn með að lenda þar við hlið konu sem var greinilega af þeim skóla sem telur meira betra í ilmvatnsmálum.  Úff.  Á BSÍ beið bíllinn mín enda hafði Eygló farið þaðan með rútu austur á Selfoss um morguninn.

Það var gott að koma heim.