Á Ráðhústorgi

Placebo í Kaupmannahöfn – haust 2016

Í vor fann ég rosalega fyrir því að ég hefði ekki séð neina hljómsveit sem er í verulegu uppáhaldi hjá mér lengi. Ég fór og skoðaði hverjir væru á ferðalagi og hverjir væru bráðum að fara á ferðalag. Þá kom upp að Placebo væri að fara af stað á tuttugu ára afmælistúr. Við fórum á Placebo þegar þeir komu til Íslands árið 2004 og ég hefði alveg verið til í að fara á venjulega tónleika með þeim en á afmælistúrnum átti að leggja áherslu á eldri lög. Eins og yfirleitt þá er maður meira tilfinningalega tengdur eldri lögunum, bæði af því að maður hefur þekkt þau lengur og líklega af því að maður er líklegri til að taka lög inn á sig þegar maður er yngri.

Það hentaði ágætlega að afmælistúrinn byrjaði í Danmörku. Í Árósum á fimmtudagskvöld og í Kaupmannahöfn á föstudagskvöld. Þar sem ég á fleiri vini í Árósum en Köben var ég dálítið að spá í að fara þangað. En vinnulega hentaði auðvitað betur að taka föstudagskvöldið. Ég keypti tvo miða og bauð Eygló að koma með.Við pöntuðum svo pössun að austan.

Eygló fékk ágæta samloku á Leifsstöð
Eygló fékk ágæta samloku á Leifsstöð

Á fimmtudaginn í síðustu viku var þá kominn tími á ferð. Tengdamamma komin að passa drengi sem virtust ekkert ætla að sakna okkar. Ég fékk ætan hamborgara á Leifsstöð en Eygló fékk grillaða samloku sem var góð á bragðið. Í flugvélinni lenti ég fyrir aftan konu sem hallaði sætinu sínu svo harkalega aftur að hún klessti á hnéið mitt þannig að ég vaknaði upp af ljúfum draumi. Ég eyddi næsta eina og hálfa klukkutíma í að pota í stólbakið hennar og hrista stólinn hennar þar til hún gafst upp og færði sætið fram. Fólk sem hallar sæti sínu aftur í svona þröngum sætaröðum á ekki heima í mannlegu samfélagi.

Við drifum okkur í gegnum Kastrup og tókum lestina í borgina. Reyndar enduðum við á fyrsta farrými án þess að hafa borgað fyrir slíkt en ég var alveg tilbúinn með “ég er heimskur útlendingur” ræðuna mína ef einhver myndi gera athugasemd.

Eygló á Just Thai
Eygló á Just Thai

Í Kaupmannahöfn bað ég Eygló að treysta mér og ég óð af stað í áttina að hótelinu okkar Copenhagen Island Hotel sem ég hafði aldrei áður heimsótt. Áttavitinn minn er auðvitað traustur. Við fleygðum af okkur farangri og ákváðum að vera löt og kíkja bara í verslunarmiðstöðina Fiskitorgið sem er bara við hliðina á hótelinu. Þar náði Eygló að sannfæra mig um að fara á tælenskan stað sem heitir Just Thai og er með hlaðborð. Það var alveg hroðalega gott.

Síðan var það bara að fara aftur á hótelið og fara að sofa. Copenhagn Island Hotel segist vera með módern innréttingar. Það þýðir greinilega að bandarískur uppafjöldamorðingi frá níunda áratugnum sá um að velja húsgögn og liti. En það var fínt. Eina sem ég get sagt slæmt um herbergið er að sturtan var ekki góð fyrir hávaxinn mann og ljósarofinn á rúmgaflinum var illa staðsettur þannig að ég vaknaði ítrekað við að ég hafði sjálfur óvart kveikt ljósin.

Við aðlöguðumst dönskum tíma bara alls ekki og vorum glöð að vera ekki í morgunmat. Þegar við vorum að koma okkur á fætur rakst ég á undarlega tilkynningu frá tónleikastaðnum. Þar stóð að þeir vissu ekki betur en að Placebo myndi spila um kvöldið. Ég hugsaði með sjálfum mér að þarna væri fólk sem tæki tillit til fólks með kvíða og hjálpaði þeim með því að birta svona ítrekanir. En síðan skoðaði ég betur. Brian Molko söngvari Placebo hafði víst horfið af sviði kvöldið áður í Árósum eftir að spilað tvö lög og röflað samhengislaust. Við ákváðum að fylgjast vel með fréttum dagsins.

Við rafhjólið
Við rafhjólið

Eftir að hafa horft á þátt af Travel Man með Richard Ayode náði ég að sannfæra Eygló um að leigja okkur hjól í Kaupmannahöfn. Við tókum meiraðsegja með hjálma til að vera svoltið öðruvísi. Fyrirtækið heitir bycyklen.dk og þetta eru rafhjól. Þau eru hins vegar mjög þung og því ekkert sérstaklega skemmtileg. En þau dugðu vel. Ég sá líka út að það væri betra að kaupa mánaðaráskrift heldur en að borga fyrir hvert skipti. Ég gat líka fengið tvö hjól í einu.

Það vildi svo vel til að rétt við hótelið okkar var stöð með hjólum. Við ákváðum því byrja á að hjóla alveg út á Kóngsins nýja torg og rölta síðan til baka í átt að hótelinu okkar. Við skildum eftir hjólin á stöð sem var fyrir framan Magasín norðursins. Við fórum síðan þar inn og fengum okkur að borða. Ég fékk einhverja voðalega fansí og óspennandi samloku. Eygló var spenntari fyrir Magasín en ég þannig að ég lagði til að hún fengi að fara þar ein á laugardeginum.

Við gosbrunninn á Ráðhústorgi
Við gosbrunninn á Ráðhústorgi

Við röltum Strikið í átt að Ráðhústorgi. Eygló keypti föt á drengina í H&M á meðan ég missti lífsviljann. Games og Faros Cigar eru ennþá skemmtilegustu búðirnar þarna (Games í Jorcks Passage og Faros bara rétt handan við hornið þegar maður kemur út úr Jorcks Passage). En ég keypti svo sem ekkert. Við komum við á Lagkökuhúsinu og ég fékk mér snigil sem mér finnst vera hápunktur danskrar matargerðarlistar. Eygló fékk sér flødebollespøgelse.

Rúta og flutningabílar Placebo
Rúta og flutningabílar Placebo

Síðan var það heim á hótelið og að safna orku fyrir tónleika – og að athuga hvort tónleikarnir yrðu ekki örugglega. Við plottuðum leiðina á Vega, þar sem tónleikarnir áttu að fara fram, og fundum okkur góðan indverskan stað í nágrenni við hann. Ég náði að sannfæra Eygló um að hjóla þangað. Það gekk þolanlega en leiðarkerfið á spjaldtölvu hjólsins var eilítið ruglandi. Eftir að hafa skilað hjólunum kíktum við á röðina við Vega og sáum rútur og flutningabíla sem tilheyrðu væntanlega Placebo.

Eygló á Taj Diner
Eygló á Taj Diner

Þegar við komum þar sem indverski staðurinn átti að vera þá var þar ekkert skilti sem benti til þess að þetta væri staðurinn sem ég var að leita að en það var samt indverskur staður þar. Við fórum þangað og sáum að það var allt fullt af Indverjum. Líklega góðs viti. Við pöntuðum mat og smá saman komust við að þeirri niðurstöðu að þarna væru líklega vinir og vandamenn að fagna opnuninni með eigendunum. Við fengum alveg fínan mat.

Eygló leyfði mér að reyna að finna betri leið frá veitingastaðnum að Vega heldur en Google Maps hafði sagt okkur að fara. Ég var voðalega feginn þegar það gekk upp. Það var hleypt inn í hollum og við vorum fljótlega komin inn. Við fórum upp í tónlistarsalinn. Þar benti Eygló mér á að það væru svalir sem við gætum kannski athugað. Við gerðum það og sáum að þar var hallandi sætaröð. Við fengum staðfest að við mættum sitja þar sem við settumst því þar. Frábært útsýni yfir sviðið.

Takkasímar bannaðir
Takkasímar bannaðir

Vega er voðalega kósí stærð. Tekur eitthvað um tvöþúsund manns. Við sem fórum þarna vorum öfunduð af þeim sem ætluðu að fara á Placebo seinna í túrnum á stærri stöðum. Það var líka reykingabann á Vega sem var stór plús. Kaupmannahöfn hefur reyndar skánað mikið reykingalega séð en það er ennþá sígarettufýla í loftinu.

Á tónleikum
Á tónleikum

Upphitunarhljómsveitin var The Mirror Trap. Ég hafði hlustað dáltið á hana og vissi að hún væri mjög fín og það stóðst. Þeir sögðu ekkert um ástandið á Molko en nefndu að við ættum að skemmta okkur á Placebo. Ég var samt enn óstyrkur.

Rétt fyrir níu byrjaði nýlega útgefið, en þó gamalt, myndband við Every Me, Every You að spila. Eygló hélt þá að myndböndin kæmu kannski bara í staðinn fyrir tónleika. Það kom líka svona niðurtalningarmyndband með klippum úr tuttugu ára sögu Placebo (þar vantaði reyndar nær alveg gamla trommarann þeirra). Síðan byrjuðu hljóðfæraleikarnir að koma á sviðið og að lokum Stefan. Þá byrjuðu þeir á síendurteknu upphafsstefinu á Pure Morning. Mér fannst það standa í einhverjar mínútur en spennan ýkir það væntanlega. Loks kom Molko á svið við töluverðan fögnuð tónleikagesta.

Placebo
Placebo

Þeir héldu áfram með Pure Morning og fóru síðan í Loud Like Love. Eftir það sögðu þeir, líklega Molko, “We Made It”. Hvort það var almenn vísun um að þeir hefðu komist til að halda tónleika eða að þeir hefðu náð að spila fleiri lög en kvöldið áður veit ég ekki. Brian talaði smá áður en þeir spiluðu nýja lagið Jesus Son en mín tilfinning var að hann hafi verið af kvíðinn til að tjá sig vel. Eygló sagði að ég hefði verið taugaóstyrkur fyrir hönd Brian alveg fram á fjórða lag.

David Bowie og Placebo
David Bowie og Placebo

En tónleikarnir keyrðu af stað. Fyrsti hápunkturinn var þegar þeir spiluðu Without You I am Nothing þar sem David Bowie fékk að syngja með af bandi og sást á myndbandi bak við hljómsveitina. Þó fyrrihlutinn hafi verið æði þá náðu þeir að toppa allt með seinnihlutanum sem byrjaði með Slave to the Wage. Mér fannst síðan Special K svo frábært. Manni fannst eins og allir væru að syngja með. Eygló segir að ég hafi ærst við að heyra Nancy Boy. Það var fyrsti smellurinn þeirra og er bara svo yndislegt lag að mér finnst að þeir ættu að fá Nóbelinn fyrir það. Það voru tvö uppklöpp og þeir enduðu á Running Up That Hill sem er upphaflega með Kate Bush en kom út á Covers plötunni þeirra.

Lagalisti:

Lagalistinn á Vega
Lagalistinn á Vega

Pure Morning
Loud Like Love
Jesus’ Son
Soulmates
Special Needs
Lazarus
Too Many Friends
Twenty Years
I Know
Devil in the Details
Space Monkey
Exit Wounds
Protect Me from What I Want
Without You I’m Nothing
36 Degrees
Lady of the Flowers
For What It’s Worth
Slave to the Wage
Special K
Song to Say Goodbye
The Bitter End
Fyrra uppklapp
Teenage Angst
Nancy Boy
Infra-red
Seinna uppklapp.

Running Up That Hill
Þess má geta að ég sá mynd af áætluðum lagalista frá kvöldinu áður og þar var lagið Meds inni. Það hefði verið of viðeigandi miðað við heilsuvandræði Brian og ég giska að það sé ástæðan fyrir að því var sleppt.

Þetta var innilega þess virði. Eygló vildi kíkja á eitthvað “eftirpartí” en ég var alveg búinn þannig að við röltum bara heim á hótel.

Eygló á gömlum slóðum
Eygló á gömlum slóðum

Eftir að hafa farið aftur á Just Thai á Fiskitorginu fórum við á gamlar slóðir Eyglóar frá því í tíundabekkjarferðalaginu hennar. Hún fékk mig með á lúmskan hátt – hún stakk upp á hjólatúr. Við fórum sumsé að Bellehöjfarfuglaheimilinu og röltum síðan í kringum einhverja tjörn þarna. Nostalgíutúrnum lauk með því að fara á bakaríið sem hún heimsótti á hverjum degi í útskriftarferðinni.

Eftir þetta hjóluðum við á Kóngsins nýja torg þar sem ég skildi Eygló eftir þannig að hún gæti fengið útrás fyrir magasínblæti sitt. Þessir hjólatúrar voru stórskemmtilegir og það er bara ekkert mál að hjóla þarna. Ég var reyndar stundum smá óviss með vinstri beygjurnar og síðan var leiðsöguforritið dáltið ruglandi. Sjálfur fór ég bara og skilaði hjólinu rétt við hótelið og kom aftur við í lágverðsversluninni Aldi þar sem ég keypti fjórar sódavatnsflöskur á fimmtán danskar. Afgreiðslumaðurinn spurði mig hvaðan ég væri og þegar ég sagðist vera frá Íslandi þá klappaði hann höndunum fyrir ofan höfuðið og sagði “húh”. Ég held að ég hafi aldrei verið glaðari með fótbolta en akkúrat þá. Á hótelinu kannaði ég úrvalið á danska Netflix.

Eftir að hafa sent mér mörg villandi skilaboð komst Eygló loksins aftur á hótelið. Hún hafði þá treyst leiðbeiningum Google um hve lengi hún væri að labba en herra Google hélt að hún væri hjólandi.

Vafasamur maður á Shezan
Vafasamur maður á Shezan

Við fundum pakistanska staðinn Shezan á Istegade og borðuðum kvöldmat þar. Hann var góður en ekki jafn góður og dómarnir höfðu gefið til kynna. Sem fyrr þá dáðist Eygló að því hve duglegur ég væri að nota dönskuna mína á meðan hún treysti mest á ensku. Ég sagði henni að hún þyrfti að segja Hafdísi systur minni það.

Við höfðum ætlað að eyða kvöldinu í Tívolí en því var aflýst vegna rigningar. Í staðinn fórum við á hótelið eftir að hafa athugað hvort það væri nokkuð spennandi í bíó.

Eins og allir góðir foreldrar sem eru í fríi frá börnum sínum þá notuðum við aftur tækifærið á sunnudagsmorgni til að sofa út. Við tékkuðum okkur út alveg á síðustu mínútu og skildum farangurinn eftir á hótelinu.

Senjóríta á Senorita
Senjóríta á Senorita

Hádegismaturinn var borðaður af hlaðborði á notalengum stað sem heitir Senorita. Reyndar átti ég eftir að sjá eftir Tacokjötsáti mínu því ég var aumur í maganum það sem eftir var dagsins. Ekkert hræðilegt og líklega ekkert að matnum nema að hann var fullkryddaður fyrir maga minn sem var mögulega þreyttur á sterkum mat í öll mál.

Við galloppuðum á Galloppen
Við galloppuðum á Galloppen

Eygló vildi næst rölta að Tívolí og þegar þar kom þá plataði hún mig inn þó við hefðum varla nema klukkutíma þar. Hápunkturinn frá mínu sjónarhorni var þegar við spiluðum Gallopen alveg eins og Richard Ayoade. Hápunktur Eyglóar var væntanlega þegar hún sveiflaðist um tugi metra upp í loftinu á nornapriki á meðan ég stressborðaði ristaðar möndlur.

Til að vera róleg síðustu tvo klukkutímana fórum við á Fiskitorgið og skoðuðum búðir. Þar keypti ég það eina sem ég keypti fyrir sjálfan mig, Chromecast Audio sem ég ætla segja við hátalarana í svefnherberginu.

Hótelið næst, síðan lestarstöðin, næst troðfull lest með miða sem við höfðum óvart keypt of snemma þannig að þeir voru útrunnir. Mér leið illa. Á Kastrup byrjuðum við á því að elta uppi Global Blue Tax Free dæmið og voru send fram og til baka. Í leiðinni lentum við á meinhæðnum tollverði sem nennti greinilega ekki túristum sem ekki vissu hvað þeir væru að gera.

Þegar við vorum komin inn á fríhafnarsvæðið reddaði ég mér bara kóki til að sötra á meðan Eygló reyndi að finna sér eitthvað til að kaupa. Ég endaði með að bíða eftir henni sitjandi á gólfinu við hliðið okkar. Lukkulega var fyrst hleypt inn pakkinu á Saga Class og síðan fólkinu aftast í vélinni þannig að við, sem höfðum sæti við innganginn (og neyðarútganginn) máttum hvort eð er ekki fara inn fyrren síðast.

Kominn aftur á Leifsstöð.
Kominn aftur á Leifsstöð.

Ég naut þess að hafa pláss fyrir fæturna mína í vélinni. Eygló fékk síðan það hlutverk að benda villuráfandi farþegum á að þó dyrnar væru lokaðar þá væri salernið ekki endilega upptekið. Við hlið mér sat ágæt kona að öðru leyti en því að hún át endalaust einhverjar hnetur. Ég hefði líklega dáið ef ég hefði ofnæmi en í staðinn fékk ég bara meiri óþægindi í magann (of dramatískt?).

Það var lukkulega lítið að gera á Leifsstöð. Ég keypti nammi fyrir vinnuna og beið síðan bara eftir töskunum. Á leiðinni út greip Tollurinn mig ekki. Ég veit ekki hvernig ég á að taka þessu sinnuleysi Tollsins í minn garð. Ætli þeir séu svona klárir og sjái bara á mér að ég er ekki smyglaratýpan?
Hérna eru síðan fleiri myndir.