Vídeóspólan á síðasta snúning

Í dag er spennandi að sjá hvort söfnun mín á Karolina Fund fyrir heimildarmyndinni Vídeóspólan nær að klárast. Ef ekki þá fæ ég enga þá peningum sem fólk hefur heitið á verkefnið. Málið er að ég er bara bjartsýnn og sé fram á spennandi dag. Ég veit af framlögum sem eru á leiðinni og mig grunar nokkuð marga um að ætla að vera með.

Það er svolítið skondið að ég hef farið í fjögur útvarpsviðtöl vegna söfnunarinnar og þá er eitt lag sem er svo augljóst að spila. Video Killed the Radio Star með Buggles.

Hin augljósa staðreynd er að útvarpið lifði myndbandsspóluna. En það er skemmtilegt að orðið myndband hefur líka lifað af spóluna. Það eru engin “bönd” í merkingunni þræðir á YouTube en samt tölum við alltaf um myndböndin þar. Ég hugsa kannski meira um þessi bönd því ég dundaði mér oft við að laga spólur, reif þær í sundur, klippti jafnvel til og límdi slitna þræði. Ég hef stundum átt erfitt með það en eftir því sem spólan verður fjarlægari þá finnst mér þetta eðlilegra.

Það eru ekki bara unglingar sem geta horft á myndbönd í símum án þess hugsa sífellt um þessa horfnu þræði sem gáfu þessum fyrirbærum nöfn sín.