Skotlandsferð númer tvö

Skotland 2008
Snemma á þessu ári kom til tals að vinnan hennar Eyglóar færi í utanlandsferð. Að lokum var ákveðið að fara til Edinborgar. Á svipuðum tíma kom tilkynning um að Queen + Paul Rodgers yrðu á ferð um Evrópu og yrðu í Glasgow um það leyti sem átti að fara. Við stukkum til og keyptum miða á tónleikana í byrjun apríl án þess að vita hvort það myndi passa akkúrat við Edinborgarferðina. Þegar sú dagsetning var ákveðin kom í ljós að það var næsta helgi við. Þá tók við smá tími þar sem við Eygló reyndum að ákveða hvað gera skyldi, vera í Skotlandi í viku eða bara fara á tónleikana. En þá breyttust skyndilega plönin hjá vinnunni hennar þannig að allt passaði saman. Við myndum fara út fimmtudaginn 9. október með vinnufélögum hennar, vera með þeim fram á laugardag þar sem við færum til Glasgow á tónleika og að lokum hitta þau í flugvellinum aftur.

Ég fylgdist vel með gengisþróuninni fyrir ferðina. Sem betur fer voru hótelin í Edinborg og Glasgow borguð fyrirfram þannig að við þurftum bara að hugsa um eyðslupeninga. Mánudaginn 6. október keyptum við 150 pund á 227 þegar kerfið virtist vera að riða til falls. Ég sagði við sjálfan mig að ég yrði bara ánægður fyrir hönd landsins ef þetta væru vond kaup og ég held að ég hafi bara verið það. Við keyptum ekki meiri gjaldeyri næstu daga af því að bankarnir voru fullir af fólki sem var ekki skilja hvernig bankakerfið virkar.

Við pökkuðum létt fyrir ferðina. Eitt af því sem við tókum með var matur. Ég smurði samlokur og keypti appelsín og topp í Bónus, það borgaði sig. Við fórum að heima rétt um fjögur á fimmtudagsmorgni og keyrðum til móts við rútuna sem færði okkur til Keflavíkur. Ég man lítið um flugferðina annað en að flugsokkarnir mínir svínvirka og Valdimar fær þakkir fyrir þá kaupráðleggingu. Á flugvellinum í Glasgow tók við önnur rúta til Edinborgar. Á leiðinni fengum við þau ráð að fara í Boots apótekið og kaupa okkur Meal Deal. Það er samloka/salat, drykkur og snakk fyrir þrjú pund. Þegar við komum til borgarinnar á okkar fjögra stjörnu hótel tóku líka flestir sig til og nýttu það tilboð.

Ég ráfaði aðeins um meðan Eygló var að vinnuvesenast. Ég skoðaði búðir sem ég hafði ákveðið að heimsækja og bara umhverfið almennt. Ég tjékkaði mig síðan inn á hótelið þegar það var hægt. Eygló kom skömmu seinna. Við sofnuðum fljótlega. Þegar við vöknuðum aftur var komið kvöld. Við fórum út að rölta. Keyptum smá mat í kjörbúð og fórum aftur heim. Við horfðum síðan á endalausar fréttir af Íslandi í sjónvarpsfréttunum. Það var hrikalegt.

Við vöknuðum til að fara í morgunverðinn á föstudaginn. Ég tróð vel og vandlega í mig til að þurfa ekki að kaupa dýran mat. Eygló fór síðan út eftir það í vinnuves og ég í rölt. Það sem er skemmtilegt við Edinborg er að hún er eiginlega á mörgum hæðum. Ég tók því lyftuna á hæð mínus 4 og endaði þá hjá lestarstöðinni. Ég fann út allt um miðakaup og ráfaði síðan aðeins. Ég kíkti í Tesco og man eftir að hafa staðið í röð hugsandi bara um ástandið á Íslandi. Við Eygló hittumst síðan og fórum síðan niður í skoska þingið. Þar vorum við tekin í túr. Það var sérstaklega gaman að sjá salinn aftur sem við höfðum séð í sjónvarpinu kvöldið áður. Þá ræddu þingmenn um Ísland.

Eftir erfiðar umræður fórum við með Berglindi og Ásgeiri Bryndísarbróður upp á Calton hill. Því miður var eitthvað verið að setja upp hjá National Monument þannig að við gátum ekki farið upp á það. Hins vegar er útsýnið þarna frábært hvorteðer. Við fórum síðan í Boots til að kaupa samlokur og í bolabúð að kaupa boli áður en við fórum í draugagönguna.

Ég var augljóslega spenntur að sjá hvernig draugagangan væri. Ég hafði séð finnskan þjóðfræðing tala um göngur þar í borg og þótt hann frekar naívur þegar hann ræddi um hvað þar fór fram. Ég var líka spenntur að sjá hvort mér þætti túrgædinn ganga of langt í að ljúga að fólki. En ég hafði bara gaman af þessu. Hann sýndi okkur hvar John Knox er líklega grafinn og ég passaði mig að ganga yfir gröf kalviníska bastarðsins.

Síðan fórum við niður í einhverja kjallara sem höfðu verið lokaðir heillengi. Þar áttu að vera hinir og þessir draugar. Í einu herberginu spurði gædinn hópinn hvort þeim þætti það ekki kaldara en það sem á undan hafði komið. Ég hafði ekki tekið eftir neinu en flestir sögðu já. Það hefði verið áhugavert að vita hvort hópnum þótti það kaldara áður en hann minntist á það. En það kemur reyndar málinu lítið við þar sem það er ekkert undarlegt við að herbergi séu misköld. En þetta átti að túlka sem áhrif drauga. Þar var líka eitt horn með steinahrúgu sem menn höfðu víst orðið varir við mikil óþægindi og sumir dottið eins og þeim hefði verið hrynt. Ég tók náttúrulega áskoruninni og fór þangað. Ég passaði mig reyndar á steinunum því þeir sem passa sig ekki gætu alveg dottið á þeim…

Eftir þetta fórum við út að borða á Pizza Express. Það er greinilegt að þar á maður bara að borða pizzur því við sem fengum okkur eitthvað annað vorum ekki glöð. Seinna um kvöldið var síðan smá partí á einu herberginu og hópur á hótelbarnum.

Á laugardagsmorgni vöknuðum við og tróðum í okkur morgunmat. Við fórum síðan og keyptum lestarmiða áður en við röltum stefnulaust um borgina. Að lokum enduðum við á þjóðminjasafninu og skoðuðum Dolly og ýmsa vísindaleiki fyrir börn. Síðan aftur á hótelið, niður lyftuna og út á lestarstöð. Við tókum lest sem stoppaði alveg ógurlega oft. Sjálfur svaf ég aðallega eftir að hafa borðað Boots nestið okkar. Í Glasgow vorum við fljót að finna hótelið okkar og tékka okkur inn. Við veltum fyrir okkur hvort Noregur eða Skotland hefði unnið fótboltann en þótti jafntefli líklegast miðað við ástand tartanhersins. Við borðuðum á ágætum ítölskum stað við Hope street og röltum síðan út í átt að ráðstefnuhöllinni. En tónleikana mun ég fjalla um í sér færslu. Eftir þá gengum við alltof lang leið heim á hótelið til að finna búð til að geta keypt snarl í.

Það var lítið planað á sunnudagsmorgni. Við vöknuðum snemma fyrir morgunverð sem var mikið betri en sá á hótelinu í Edinborg. Þó var þetta hótel, Alexander Thomson, bara tveggja stjörnu. Við tékkuðum okkur út, létum farangur í geymslu og ráfuðum um. Við enduðum upp á Buchanan. Ég keypti mér sjálfsævisögu Steve Martin áður en Eygló fann H&M. Eygló bað fyrst um hálftíma þar en það endaði í klukkutíma. Þá var gott að hafa keypt bókina. Við ráfuðum meira um. Keyptum Meal Deal í hinsta sinn. Fundum skemmtilega spilabúð sem var raunar á svæði með ótal nördaverslunum. Eygló keypti sér síðan skó áður en við enduðum á því að borða á Bella Italia mjög sátt. Við náðum síðan í farangurinn okkar og fórum út á flugvöll þar sem við hittum hópinn.

Á flugvellinum gerðum við lítið nema að bíða. Við reyndum að fara á netið, við höfðum ekki gert slíkt í ferðinni, en það virkaði ekki þó vélin hafi hirt peninginn okkar. Síðan reyndum við að fara í þythokkí en sú vél át líka pundið okkar. Við erum ekki glöð með þennan peningaætuflugvöll.

Ég hata IcelandAir. Ég hef aldrei áður setið svona þröngt þó ég hafi ítrekað flogið með RyanAir. Það sem meira er ákvað konan fyrir framan mig að halla sér aftur. Það munað minnstu að hún bara skemmdi bókina mína með þessu. Ég endaði með því að ýta bara reglulega á sætið hennar með hnjánum þar til hún gafst upp á tilrauninni. Ég kláraði Steve Martin bókina sem var góð.

Í fríhöfninni eyddi ég á fullu. Eða allavega smá. Engar sígarettur voru keyptar á minn toll frekar en fyrri daginn og ég tek fram að ef ég myndi gera slíkt þá væri það fyrir tengdapabba og engan annan. En ég er andsnúinn reykingum og geri það því ekki. Tollverðirnir gerðu enga athugasemd við mig frekar en fyrri daginn þannig að við gátum hoppað fljótt upp í rútuna. Þegar ég kom heim náði ég þeim glæsta árangri að fá lyklaborð í hausinn.

End of Story.