Queen + Paul Rodgers í Glasgow

Tónleikarnir maður, tónleikarnir. Ég fór árið 2005 í Brixton á Queen + Paul Rodgers og langaði að sjá þá aftur. Við Eygló fórum sérstaklega til Glasgow í miðri vinnuferð hennar til þess. Tónleikarnir voru í Scottish Exhibition and Conference Centre sem er nokkuð stórt pláss. Þegar ég fékk miðana mína var ég ekki glaður með sætin okkar. Við vorum langaftast en þó beint fyrir framan sviðið. Þegar við komum á staðinn var heillöng röð en það gekk vel að koma okkur inn. Ég keypti engan varning sökum stöðu krónunnar og við fundum síðan sætið okkar. Það var betra en við héldum. Í raun hefði verið verra að vera mikið framar því það hefði heft útsýnið.

Spennan jókst meðan við biðum. Loks byrjaði sjóvið. Og þetta var flott. Alveg gríðarlega flott (þrátt fyrir drukknu kjaftatíkurnar fyrir framan mig). Paul Rodgers er enginn Freddie en hann er ekki að reyna það og þannig gengur þetta upp hjá honum. Sjálfur var ég þó glaðastur þegar Roger og Brian voru einir á sviðinu. Síðan var hápunktur tónleikanna þegar Love of my Life og ’39 voru spiluð. Þetta var vissulega flott líka núna en, merkilegt nokk, sló Roger Brian út strax eftir það.

Þegar ’39 var spilað kom Roger fremst á “catwalkið”, mjótt áframhald af sviðinu sem leiðir út í áhorfendaskarann. Brian hafði verið þar þegar hann söng Love of my Life. Fyrir framan Roger var komið með bassatrommuna sem hann notaði ásamt tamborínu í laginu. Eftir lagið var komið að trommusólóinu. Ég varð hissa þegar ég frétti af því að Roger skyldi vera með trommusóló á þessum túr þegar hann hefur lýst yfir andstyggð sinni á slíku. En hann var með meira upp í erminni. Trommusólóið byrjaði þar sem Roger trommaði með kjuðum á ytri hluta bassatrommunnar. Næst tók hann sig til og trommaði á bassagítar sem bassaleikarinn hélt á lofti. Það var viðbjóðslega flott atriði. Til að toppa þetta settist Roger aftur niður og rótari kom með hi-hat trommu. Roger hélt áfram að leika sér á henni. Og koll af kolli var heilu trommusetti komið fyrir þarna fremst á sviðinu meðan Roger lék sér að því. Þetta var þvílíkt flott og skemmtilegt. Ég var eiginlega bara hlæjandi allan tímann. Eftir það voru tekin lög sem Roger söng.

Brian May tók líka sitt sóló sem mér þótti líka flott. Það þróaðist út í Bijou þar sem var spilaður söngur Freddie í miðju laginu. Að lokum kom síðan Paul Rodgers aftur á svið og þeir héldu áfram. Ég var hvorki ósáttur við nýju lögin né lögin hans Paul. Sérstaklega finnst mér Seagull flott lag. Af nýju lögum Q+PR var Say its not true flottast (er þó ekki alveg nýtt). Fyrsta lag í uppklappi var síðan Cosmos Rockin’. Það lag fannst mér ekkert rosalega flott á plötunni en þegar maður sá það spilað á tónleikum og sá undirtektirnir þá trúði maður textanum “we got the whole town rockin'”. Tónleikunum lauk á We Will Rock You og We are the Champions. Þeir kvöddu undir God Save the Queen sem var ekki sungið af öllum í salnum.

Við vorum sumsé mjög mjög mjög sátt við tónleikana. Ég naut þeirra meir en í Brixton 2005 en það gæti líka bara verið vegna spennufalls sem ég varð fyrir þá. Núna var ég rólegri sem var betra. Ég mæli sumsé með þessu og ég held að maður þurfi alls ekki að vera die-hard aðdáandi til þess að fara á þetta. Hvað sem allir gagnrýnendur segja þá eiga þeir endilega að vera að spila því þeir eru bara svo góðir.