Indæl áramót

grylur.jpgÉg átti indæl áramót. Borðaði heima hjá Guðmari og Oddnýju með öllum sem tilheyra þeirri fjölskyldu.  Það réðust á mig ýmis börn sem þótti gaman að láta lyfta sér ítrekað og sveifla.  Eftir að hafa lyft elstu stelpunum tveimur þá var ég orðinn dáltið þreyttur.  Á myndinni sjást einmitt tvær grýlur ráðast á Gumma frænda.  Ég reyndi að koma með fróðleikspunkta um grýlur en það virtist ekki vera stemming fyrir því.

Skaupið var mjög gott.  Maður komst í gírinn um leið og South Park þemað fór af stað.  Mér þótti fyndið þegar Álgerði var drekkt.

Ég fylgdist síðan með þegar fólk var að skjóta upp flugeldum.  Sjálfur er ég reyndar voðalega óspenntur fyrir þessu öllu saman og var því frekar í að mynda fólkið.  Ég tók líka símamynd af stóra flugeldinum sem Árný og Hjörvar voru með og þið getið séð hana hér að neðan.

Ég átti líka indæla stund með sjálfum mér þar sem ég hugsaði um áskoranir næsta árs og það sem mér þótti áður ógnvekjandi varð í huga mínum viðráðanlegt og jafnvel spennandi.  Fannst áramótin í ár falla vel inn í kenningar um jaðartíma.

Ég fór síðan í áramótateiti til Sverris stjörnuskoðunarnörds.  Það var gaman.  Kynntist Ósk konunni hans aðeins og komst að því að hún stórfyndin.  Reyndar varð ég sár við hana vegna þess að hún mundi ekki eftir að hafa hitt mig þó er ég nokkuð viss um að við höfum hist svona tvisvar áður.  En ég ætti ekki að vera sár þar sem það er yfirleitt ég sem man ekki eftir fólki.  Ég spjallaði aðeins við fólk sem ég þekkti í partíinu en síðan skemmti mér vel með að spjalla við það fólk sem var eins og ég utan við þá sem þekktust hvað best þarna.  Fór síðan þegar klukkan var farin að ganga sex enda alveg tilbúinn að koma mér í bólið.