Um að særa saklausa

Vefritið Vantrú hefur ekki oft verið ásakað um að sýna tilfinningum fólks of mikla virðingu, hið gangstæða hefur oft verið sagt. Samt er það þannig að það eru ótal tilvik þar sem við höfum fengið til okkar mál eða dæmi þar sem við hefðum getað komið stórum og réttlátum höggum á ýmsa aðila sem eru í hindurvitnabransanum en sleppt því að nota þau þar sem við hefðum þurft að særa tilfinningar saklausra málsaðila í leiðinni.

Í síðustu viku fékk ég einmitt slíkt mál upp í hendurnar en engin grein var skrifuð þar sem þarna var um að ræða nokkuð sem hefði getað ýft upp sár og sorg. Þetta hefði hins vegar komið mjög illa við þann „seka“ í málinu. Sá á það algjörlega skilið af því að hann lék sér einmitt að tilfinningum þeirra sem ég vil ekki særa. Þetta gerist mjög reglulega.

Yfirleitt fer þetta þannig fram að á lokuðu spjallborði Vantrúar fara fram umræður um málið og ég get alveg sagt það sem satt er að nær alltaf eru allir sáttir við að sleppa svona málum þrátt fyrir að það hefði komið sér vel fyrir okkur að upplýsa um þau. Mér finnst líka alltaf skrýtið að sjá fólk sem notar sér svona mál sér til framdráttar.

Smáralindarbæklingarmálið er á suman hátt keimlíkt þessu. Guðbjörg hefði getað tekið sig til og rætt um þetta mál á póstlista feministafélagsins eða bara konu á konu (eða konu á mann jafnvel) og þá hefði hún vonandi fengið þá ábendingu að þarna sé ekki bara möguleiki til að koma höggi á þá sem hún telur vera að setja barn fram á ósæmilegan máta heldur myndi þetta einnig koma mjög illa við stúlkuna.

Guðbjörg er lektor í fjölmiðlafræði en virðist ekki hafa mikinn skilning á miðlinum sem hún tjáir sig á. Þegar ég skrifa eitthvað á þessa síðu mína þá geri ég það vitandi að það gæti endað í fjölmiðlum og það hefur alveg komið fyrir. Samt skrifa ég bara á mína fáförnu síðu. Guðbjörg er meðlimur í stóru bloggsamfélagi sem er um leið hluti af stærsta fjölmiðli Íslands. Það er ljóst að þegar einhver mál koma þar upp þá vekja þau athygli. Ef maður varpar sprengju þar þá mun fólk taka eftir henni. Guðbjörg hefði átt að gera sér grein fyrir þessu og ég skil ekki hvernig hún gerði þessi mistök. Sama hve vitlaus mér finnst túlkun hennar þá finnst mér mun verra hvernig hún sniðgekk tilfinningar varnarlausrar 14 ára stúlku.

Núna verður Guðbjörg bara að vona að stúlkan sleppi að mestu við eftirköst þessa máls en ég er ekkert of bjartsýnn. Við verðum að treysta á að skólafélagar stúlkunnar og aðrir í kringum hana hafi meiri tilfinningaþroska en Guðbjörg.

8 thoughts on “Um að særa saklausa”

  1. 14 ára stelpa umkringd „smábarna“-böngsum í of stórum háhælaskóm,í þvingaðri óeðlilegri stellingu.

    Auðvitað er þetta ekki alveg normal mynd, það má vel sjá út úr þessu tilvísanir í klám, og þá í perraklám.

    Kannski tók Guðbjörg of stórt upp í sig, en mér finnst markaðsstjóri Smaáralindar fara offörum í að einhver gagngrýndi þessa framsetningu á auglýsingabæklingi sem var dreift í öll hús.

    Sorglegt að sjá greinina í Fréttablaðinu í dag, virðist vera skrifuð af markaðsstjóra Smáralindar, algerlega einhliða áróður.

    Það er hægt að sjá þessar kennimyndir kláms, punktur og basta. Aftur á móti er Smáralind frjálst að senda svona forssíður meðan þetta er bara á gráu svæði. En forsíðan, sem og svo mörg tískuvaran sem er markaðsett á unglinga, er öll með tilvísun í eina átt.

    Ég skora á foreldra sem eiga stúlkur í efribekkjum grunnskóla að láta rödd sína heyrast, ekki halda að þetta fólk í tískuheiminum eigi að hugsa fyrir okkur og segja okkur hvað sé innan velsæmis og hvað ekki.

    Allavegna er þetta ekki jafnt einfalt og augljóst mál og markaðsstjóri Smáralindar óskar sér að það sé. Hér er hægt að túlka hlutina á annan hátt en ég vona að markaðstjórinn ætlaði sér. Kannski ætti hún að sitjast niður og hugsa sinn gang, hvert smekkur hennar og tískuskyn hefur leitt hana.

  2. Ég vísa bara á það hvernig ég túlkaði þessa forsíðu. Ég held að sú greining sé mikið betri en greining þín og Guðbjargar. Hún skýrir allt sem þú minnist á á rökréttan hátt.

    Þessi mynd er svo laus við allar kynferðislegar tengingar. Það að túlka þetta sem klám er bara fáránlegt og segir meira um ykkur heldur en þá sem sáu um myndatökuna. Ykkur hefur líka mistekist að sannfæra neinn um að túlkun ykkar sé rökrétt.

    Það er alveg ljóst að það er til fullt af auglýsingum þar sem eru óviðeigandi vísanir en þetta er bara ekki ein af þeim.

  3. ÉG er alveg sammála að stelpan sé fórnarlambið, en ekki fórnarlamb þeirra sem túlka ósmekklega tvíræðni í uppstillingu forsíðunnar, heldur er hún fórnarlamb stíllista, ljósmyndara og markaðsstjóra Smáralindar sem greinilega vilja ekki sjá að þarna sé eitthvað að.

    Ég held að tilfinningadofinn sé hjá markaðsliði smáralindar, þeir komu stúlkunni á forsíðuna, þeir stilltu upp proppinu, völdu fötin, stellinguna og dreifðu svo í markpósti, þeirra er ábyrgðin.

  4. Ekki misskilja mig.

    Ég er ekki að segja að þessi forsíða hafi verið klám. Ég er að segja að hún hafi tilvísanir í klám. Að minnsta kosti er hún tvíræðin.

    Og svo finnst mér túlkun Guðbjargar og orð hennar hafa verið yfirgengileg.

    En það breytir því ekki að kannski hafði hún eitthvað smá rétt fyrir sér?
    Annars má snúa þessu við, hvað er myndin að segja? Hvað átti hún að segja?
    Myndir, myndmál hafa sterk kenni sem höfða til undirmeðvitundarinnar, enginn veit það betur en fólk skólaði í sálfræði auglýsinga og áróðurs.

    Ekki reyna að klína á mig perraskapnum, þótt ég hafi kjark í að fara gegn „almenningsálitinu“ í þessu tiltekna máli.

    Ég vil einmitt meina að siðferðisleg hræsni liggi hjá markaðsstjóra Smáralindar og hans fólki.

  5. Þetta er allt í hausnum á ykkur. Ég vísa bara aftur á túlkun mína sem er fullkomlega rökrétt ólíkt ykkar túlkun.

    Fæ ég komment frá fleiri heimilismeðlimum?

Lokað er á athugasemdir.