Heim í M.A. og líka til Akureyrar

Við skruppum norður á laugardaginn og komum núna áðan.  Vantrú var boðið að vera með fyrirlestur á Ratatosk sem eru þemadagar M.A..  Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um áður en ég ákvað að fara sjálfur.  Í leiðinni gátum við komist í afmælið hjá Sóleyju frænku, það var haldið í gær en hún á afmæli á morgun.  4 ára og les sjálf kortin sín.  Við gáfum henni svona þrívíddarsjónaukadóterí sem ég vissi ekki einu sinni að væri framleitt lengur.  Við gáfum henni líka lögreglubíl.  Þegar hún var að leika sér að bílnum þá spurði Eygló um það hvort löggumaðurinn væri í bílnum.  Henni var snöggt svarað með því að það sko löggukona en ekki löggukarl.  Gott hjá henni.

Við skruppum líka til afa í gær og tókum hann með í veisluna.  Hann var nokkuð hress.

En já, í morgun fór ég í M.A. og laumaðist með í leiðsöguferð um Gamla Skóla með Valdimar kennara.  Eygló og Hafdís voru líka með.  Þetta var skemmtileg söguferð en líka góð minnisbrautarferð.  Sá fjölmarga gamla kennara og skoðaði gamlar kennslustofur.

Ég fór síðan líka á fyrirlestur hjá Þorláki félagsfræðikennaranum mínum gamla um sögu rokksins.  Verst að tæknin var að stríða honum.

Næst var komið að mér.  Ég vissi ekkert hve margir kæmu, ég var í venjulegri kennslustofu í Hólum og hún troðfylltist.  Enginn taldi en giskað var á 60 manns.  Ég held að ég hafi náð að koma þessu vel frá mér.  Eftir á voru síðan áhugaverðar umræður en það er samt alltaf erfitt að taka við svona óundirbúnum fyrirspurnum.  Margt sem ég hugsaði eftir á að ég hefði getað orðað betur.  En ekkert sem ergði mig um of.  Held samt að ég hafi farið of víða, hefði virkað betur að fókusa á eitt efni.

3 thoughts on “Heim í M.A. og líka til Akureyrar”

  1. Já, nú hefnist mér að kynna mér ekki betur dagskrána á Ratatoski! Ég hefði alveg viljað hitta á þig og heilsa. Takk fyrir komuna samt, þó ég hafi ekki fengið að heyra í þér.

  2. Ég var, eins og þú veist, hálfveikur þegar ég sat þarna við hliðina á þér. Þegar þú spurðir mig út í fótanuddsafeitrunartækið átti ég ekki von á því og held að ég hafi svarað eitthvað út í loftið 🙂
    Ég man samt ekkert hverju ég svaraði… vona bara að enginn hafi vitað betur :/

Lokað er á athugasemdir.