Klassísk íslensk spilling?

Ég fatta ekki hvernig stendur á því að Guðjón Ólafur hefur ekki verið tekinn í almennilega yfirheyrslu hjá fjölmiðlum út af þessu ríkisborgararéttarmáli. Ef það hefur verið eitthvað skrýtið í þessu máli þá er hann maðurinn sem getur svarað til um það.

Ég efast um að Jónína Bjartmarz hafi sagt við Guðjón Ólaf að hann ætti að hleypa stúlkunni í gegn, ég tel hins vegar allar líkur á því að hún hafi ætlast til þess. Ég tel ekki ólíklegt að Guðjón Ólafur hefði þekkt heimilisfang Jónínu á pappírunum sem fylgdu með umsókninni. Ef nafn sonar Jónínu hefur komið fram þá myndi ég halda að það hefði dugað til að Guðjón vissi hver tengsl stúlkunnar væru við Jónínu. Klassísk íslensk spilling er ekki skipulögð á leynifundum heldur er ætlast til þess að menn viti hvað eigi að gera. Þó er ég ekki að útiloka að einhver hafi pikkað á öxl Guðjóns og sagt honum að þessi stúlka væri sérstök á einhvern hátt. Það er samt þannig að þegar menn vita að þeir eru að gera eitthvað af sér þá passa þeir sig á að hafa undankomuleið.

“Á fundinum kom aldrei fram…”, “Hún ræddi aldrei við mig um málið”, “Enginn minntist á tengsl hennar við…” og svo framvegis. Þú getur orðað hlutina á ótal vegu þannig að þeir séu ekki bein lygi án þess þó að þú segir frá öllu sem þú vissir.

Ég er almennt hlynntur því að það eigi að vera auðveldara fyrir innflytjenda að fá ríkisorgararétt. Það er hins vegar ákaflega slæmt að fólk fái sérmeðferð vegna tengsla sinna við ráðamenn. Það sem gerir þetta mál alvarlegra er það að Sjálfsstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gerðu innflytjendum einmitt erfiðara að fá ríkisborgararétt hér um árið.

Það sem vantar inn í þessa umræðu alla eru grunnupplýsingar. Hvað var mörgum hafnað þegar stúlkan fékk ríkisborgararétt? Á hvaða forsendum var þeim hafnað? Hvað réði því að stúlkan fékk að fara í gegn? Í grunnatriðum þá þyrfti ekki að benda á nema einhver örfá atriði, jafnvel bara eitt atriði sem réttlætir þessa sérmeðferð stúlkunnar.

4 thoughts on “Klassísk íslensk spilling?”

  1. Tek undir það að útlendingalögin eru allt of ströng. 24 ára reglan er t.d. fáránleg. Ef ég skil þig rétt þá erum við sammála um að fréttamenn eigi að beina sjónum sínum núna að Allsherjarnefnd en ekki Jónínu. Jónína hafði ekkert með veitingu réttarins að gera fyrir utan það að greiða atkvæði í þinginu.

    Alls fengu 18 ríkisborgararétt af 36 sem sóttu um undanþágu. Vegna þess að um mjög persónulegar upplýsingar er að ræða eru ástæður fyrir samþykki eða synjun ekki gefnar upp. Samkvæmt mínum upplýsingum fór stúlkan fór í gegn af mannúðarástæðum, vegna bakgrunns hennar og stöðu í Guatemala.

  2. Málið er að það er ekkert almenna reglan að fólki sé veittur ríkisborgararéttur þó að staðan í heimalandinu sé slæm, allavega ekki svona fljótt.

  3. Allsherjarnefnd metur hvert mál fyrir sig. Um þriðjungur þeirra sem fá ríkisborgararétt hafa búið á Íslandi skemur en tvö ár.

  4. Ég hef ennþá ekki hugmynd um hvernig stúlkan er í samanburði við þá sem var hafnað af nefndinni. Það er aðalatriði í þessu sambandi. Það er samanburðurinn sem skiptir máli. Það ætti að vera hægt að láta fara yfir slíkt án þess þó að gera allar persónuupplýsingar opinberar.

Lokað er á athugasemdir.