Óútsofinn

Í morgun ætlaði ég að sofa út en í staðinn hlustaði ég á fólk slá grasið út, hreinsa ruslageymsluna og losa farm af trukk. Ég var kominn á fætur þegar náunginn sem var að hreinsa ruslageymsluna dinglaði hjá mér til að komast í ruslalúgurnar. Ég svaf ekki alveg til níu.

Ég fór og náði í bílinn okkar úr skoðun. Hann er í góðu ásigkomulagi.

Síðan hringdi ég í Tölvulistann til að spyrja um tölvuna mína sem hefur verið í viðgerð í mánuð. Ég fékk að hlusta á Pálma Gunnarsson syngja “Ég elska þig enn” nokkrum sinnum í röð með reglulegum truflunum þess eðlis að ég myndi fá að heyra í starfsmanni um leið og þeir nenntu að svara mér. Ég hef aldrei skilið svona skilaboð. Væri ekki nóg að segja það í byrjun símtalsins og leyfa manni bara að hlusta á tónlistina?
Hvað sem því líður þá er ekkert að frétta af tölvunni minni en sá sem svaraði ætlaði að hringja í mig uppúr eitt. Eftir þetta símtal var inneignin á símanum mínum komin niður í 86 krónur.

Ég er núna að reyna að ná í væntanlega viðmælanda minn. Ég hefði átt að negla niður viðtalstíma í gær en ég var hálfutan við mig.