Annáll 2007

Árið byrjaði bara vel. Síðan fór ég í kosningabaráttu og Háskólalistinn þurrkaðist út. Þar með var ég blessunarlega kominn útúr stúdentapólitíkinni. Námið var skemmtilegt á vorönn. Ég sótti tíma hjá þremur áhugaverðum erlendum kennurum og Rómarsögu hjá Sverri Jakobs. Mest vinna fór samt í Eigindlegar Rannsóknaraðferðir. Ég skrapp síðan norður og talaði við nemendur MA um trúleysi.

Í upphafi árs var ég líka að reyna að sækja um að eyða haustönninni í Memorial University á Nýfundnalandi. Samstarfssamningur milli skólans og HÍ gufaði síðan upp eftir að ég hafði skilað öllum pappírum. Þá gat ég valið um að fara flóknu leiðina til að komast að í námi þar eða fundið mér skóla innan Eramus áætlunarinnar innan tveggja vikna. Skóli sem kennir þjóðfræði á mastersstigi á ensku, Dublin eða Cork? Ég valdi Cork og fékk þar inni.

Í stað þess að fá mér heiðarlega vinnu sótti ég um styrk frá Nýsköpunarsjóði íslenskra námsmanna og fékk tveggja mánaða styrk. Það að ég fékk styrk til að vinna að rannsókninni minni varð síðan til þess að ég fékk samþykki til að gera þá rannsókn að efni meistararitgerðar minnar. Styrkurinn varð líka til þess að ég gæti auðveldlega tekið rúmar tvær vikur í frí til að fara með Eggert til Árósa að læra um fornsögur Íslendinga. Það var alveg voðalega gaman og ég kynntist mörgu skemmtilegu fólki.

Ágúst og fyrrihluti september eru í móðu þar sem ég var í endalausum reddingum. Margt sem þurfti að klára áður en kom að seinni utanlandsdvöl ársins. Í um tvö ár hafði það hangið yfir mér að ég þyrfti að taka eina önn erlendis og loks kom að því. Ég fór út með Kobba sem var að fara til Englands en þar þurfti ég að millilenda.

Tíminn í Cork var frekar skrýtinn. Ég á ennþá eftir að melta alla reynslu mína þar og reyna að sjá hvort þetta hafi eitthvað breytt mér. En ég kynntist dálítið af fólki, sá dálítið af Írlandi, lærði ýmislegt um Írlandi og Íra, borðaði mikið af óspennandi mat og bjó einn með ókunnugum.

Ég var glaður þegar ég kom heim. Gott að búa til laufabrauð með vinum og kunningjum og eyða síðan jólunum og áramótunum heima.

Næsta ár verður síðan allt öðruvísi. Ef vel gengur þá mun ég klára meistararitgerðina mína og svo…