Langa London ferðasagan

Þegar ég var heima slappur í þarsíðustu viku fékk ég afsláttartilboð á flugi með Iceland Express til London eða Kaupmannahafnar. Ég skoðaði þetta aðeins og tók mig síðan til við að sannfæra Eygló um að við ættum að drífa okkur. Það tókst. Við fórum síðan að ákveða hvað skyldi gera. Eygló hafði aldrei komið inn í London áður þó hún hefði millilent þar þannig að margt kom til greina. Það voru töluverð vonbrigði þegar við áttuðum okkur á að það var vonlaust að redda miðum á söngleikina sem við vildum helst nema á okurverði. Galli við að fara með skömmum fyrirvara.

En við fórum út snemma á föstudagsmorgun. Ég komst að því að nýju skórnir eru málmkenndir og flauta í hliðinu. Flugið sjálft var óeftirminnilegt og okkur tókst að koma okkur inn á hótelið eftir smá villuráf. Fyrsta stoppið okkar var Leicester Square þar sem Svenni og fleiri höfðu bent okkur á að fara til að athuga með miða á söngleiki. Við höfðum ákveðið nokkrar sýningar sem við vorum spennt fyrir og sett í forgangsröð. Efst var We Will Rock You. Þegar var að koma að okkur þá heyrði ég sölumann segja við par sem var við hliðina á okkur að það væri ekkert laust þar fyrir tvo. Ég spurði nú samt um það til að vera viss. Okkar sölumaður skoðaði þetta og sagði að hann ætti engin sæti hlið við hlið en hann ætti sæti í röð. T-28 og U-28. Við ákváðum að stökkva á það enda kostaði það samanlagt minna en þeir miðar sem við höfðum verið að skoða áður.

Seinnipartinn ráfuðum við um og kíktum í búðir. Nokkrir dvd diskar voru keyptir. Við keyptum síðan Ferða-Cluedo í Borders. Af einhverjum sökum fengum við gefins taupoka út á götu sem við notuðum vel og vandlega undir allt dótið okkar. Síðan á leiðinni að leikhúsinu fundum við übernördabúð. Þar keyptum við Munchkin Bites og sæta litla Freddie dúkku. Við borðuðum síðan mjög fínar pizzur á ítölskum stað en urðum verulega óánægð þegar þjónarnir komu seint og síðarmeir með reikninginn.

Við komumst að Dominion fljótt og örugglega. Miðaverðinum fannst frekar grunsamlegt þegar við komum með tvo miða númer 28 og skoðaði þá vandlega áður en hún hleypti okkur í gegn. Þetta var síðan bara mjög fínt. Ég gat hallað mér fram og spjallað þar til sýningin byrjaði og í hléinu. Sýningin sjálf var bara mjög flott. No-one but you og Who wants to live forever voru “showstoppers”. Sérstaklega fannst manni margir að tárast í fyrrnefnda laginu. Söguþráðurinn var augljóslega rugl en það var í raun alltaf sett upp sem brandari. Við Eygló höfðum gaman af því að ein aðalpersónan var “librarian” sem vann í skjalasafni (og brenndi ekki 95% af skjölunum sínum).

Eftir sýninguna komum við okkur heim. Við reyndum að finna matvörubúð en það var ekki mikið af slíku í City. Við spurðum því á hótelinu og okkur var vísað á Tescobúð í nágrenninu. Það var gaman að koma í Tesco aftur. Eins og að fara aftur til Írlands að einhverju leyti. Eygló tók áhættu og keypti sér Cherry-Coke af því að það var kalt en sá eftir því seinna. Í staðinn drakk hún kókið sem ég keypti mér. Sturtan á hótelinu var glötuð og þó flest annað hafi verið fínt þá eigum við ekki eftir að fara á Club Quarters Gracechurch aftur út af henni. Reyndar sturtaði klósettið ekki í smátíma líka en það var eitthvað sem lagaðist bara.

Við byrjuðum laugardaginn á að fara aftur á Leicester Square til að kíkja eftir miðum. Phantom of the Opera var næst á listanum okkar. Við byrjuðum að fara á annan stað en daginn áður og þegar við komum þangað sáum við að ekkert var eftir það sem okkur langaði á nema Mamma mia og Spamalot. Við ákváðum að kíkja aftur á hinn staðinn, bara til öryggis. Biðum þá í 20 mínútur í röð. Ég var byrjaður að segja við Eygló að það væri voðalega kjánalegt að vonast eftir miða á vinsæla sýningu á laugardagskvöldi. En við komumst að og okkur var sagt að það væru til miðar á þriðjusvölum og hann varaði okkur mikið við að þetta væru léleg sæti. Við höfðum hins vegar ákveðið að ef við gætum komist á Phantom þá tækjum við öllum mögulegum sætum. Tveir miðar kostuðu 49 pund.

Eftir að hafa borðað þá röltum við um í kringum Soho og Charing Cross. Þar var spilabúðin Orc’s Nest sem við höfðum gúgglað fyrirfram. Hún var æði. Það voru ótal borðspil þar. Við keyptum Dilbert spil og eitthvað svona glæpagátuspil. Við enduðum næst í tónlistar og dvd-verslun sem við fríkuðum út í. Við ætluðum bara rétt að kíkja inn en keyptum um það bil 17 dvd- myndir (sumar sem hluta af pakka). Þetta var bara svo ódýrt að við gátum ekki annað. Við röltum þarna aðeins um. Ég keypti mér bol sem ég hefði viljað eiga þegar ég var í framlínu bókasafns: Fuck Google, Ask me (vona að Google almennt og Bjarni sérstaklega fyrirgefi mér þetta).

Næst var British Museum. Önnur heimsókn mín þangað. Ég hugsaði aftur að þetta væri ránsfengur heimsveldis. Get ekki komist yfir það. Eygló fannst þetta mjög óspennandi sett upp og ég er eiginlega sammála. Það eina sem stóð uppúr var klósettferðin. Setan var útpissuð og ef ég hefði ekki verið alveg á ystu nöf þá hefði ég farið annað. Ég eyddi töluverðum tíma í að þurrka allt upp. Síðan lenti ég í því að fara eitthvað fyrir “sturta niður” skynjarann sem olli því að ákveðinn líkamspartur lenti í sturtu án þess að ég hafi viljað það.

Fyrir sýningu ákváðum við aðfara á indverskan stað sem heitir Mumbai bar ef ég man rétt. Ég hef aldrei borðað alvöru indverskan mat og ég var alveg rosalega hrifinn. Ég á eftir að gera þetta aftur. Eftir matinn á meðan Eygló var á salerninu kom þjónn með eitthvað sem mér þótti mjög undarlegt á borðið. Þetta var greinilega heitt og leit svolítið út, fannst mér, einsog vorrúlla í einhverju plastdóti. Ég opnaði þetta smá og fann sterkan sítrónuilm. Ég ákvað að smakka en um leið og ég setti þetta upp í mig þá áttaði ég mig á því að ég væri mesti hálfviti í heimi. Þetta var heitt og rakt handklæði. Ég reyndi að láta á engu bera og fór að nota handklæðið eins og ætlast er til. Veit ekki hvort þetta vakti mikla athygli en Eygló hló að mér þegar ég sagði henni þetta.

Við fundum leikhúsið eftir smá leit. Það lofaði ekki góðu þegar við þurftum alltaf að fara ofar og ofar. Við vorum hins vegar nokkuð sátt þegar við sáum sætin og útsýnið. Lítið pláss fyrir fætur en við sáum langstærsta hluta sviðsins. Þetta var alveg frábært. Ég söng með eða hreyfði varirnar öllu heldur. Ég elska náttúrulega þessa tónlist og hef gert lengi. Bjóst varla við að komast á svona “alvöru” uppfærslu. Ég var mjög glaður. Reyndar lenti ég í því að fá krampa í fótinn í miðri sýningu. Ég vildi helst standa og teygja úr mér til að láta þetta líða burt en það kom ekki til greina. Það vildi samt svo heppilega til að ég var við vegginn og gat sest aðeins upp á stólarminn án þess að vera fyrir nokkrum og teygja þannig úr fætinum. Það virkaði.

Eftir sýninguna var komið að því að fara eftir leiðbeiningum Terry og ganga eftir suðurbakka Thames. Við vorum þá við Piccadilly Circus þannig að þetta var nokkuð langur göngutúr. Við röltum fyrst inn á Trafalgar torg sem var í svo miklu uppáhaldi hjá mér síðast þegar ég var þar. Ég sannfærði Eygló um að klifra upp á stöpul súlunar hans Nelsons. Þarna vorum við með fulla unglinga í kringum okkur og horfðum yfir torgið með fullt af drasli í pokunum okkar. Við ræddum aðeins saman og ég minntist á að við værum bráðum búin að vera saman í níu ár og spurði þá Eygló hvort hún myndi vilja giftast mér. Og hún sagði já. Við sátum þarna aðeins saman og nutum augnabliksins þar til einhverjir reykingamenn hröktu okkur á brott.

Við röltum niður að Westminster og skoðuðum Big Ben. Yfir brúna og framhjá auganu sem ég tók fram að ég myndi aldrei fara í. Ég var þá farinn að leita mjög að salerni en fann ekkert. Ég leysti það mál á ósmekklegan og hugsanlega ólöglegan hátt. Við enduðum með að fara yfir London Bridge með útsýni yfir Tower Bridge. Þaðan var stutt á hótelið.

Á sunnudagsmorgun fórum við hægt og rólega af stað. Ákváðum að byrja á því að fara niður að St. James’s Park og þaðan að Buckingham höll. Það var notalegt. Við hoppuðum síðan í lest og borðuðum á frekar óspennandi stað sem hét Adams Ribs. Rétt hjá var indverski staðurinn frá því í gær (Denman Str.) og hefðum frekar átt að fara þangað aftur. Verst þótti mér að ég þurfti að hamra inn verðið sjálfur á posann og þjórféð á meðan afgreiðslustúlkan stóð yfir mér og starði á mig. Ég er ekki góður í þjórfé. Veit aldrei hvað ég á að gefa. Síðan er stundum ruglingslegt hvort maður á að gefa eða ekki. Vonlaust kerfi alveg.

Við fórum næst í Hamleys leikfangabúðina sem mér sýndist vera okurbúlla. Samt gaman að skoða. Við fórum síðan inn í Soho og skoðuðum okkur um. Eygló rifjaði það upp á meðan við röltum þarna innan um XXX-búðirnar að daginn áður hafði hún sent sms til Helgu um að við hefðum farið í búð í Soho sem hún og Brjánn hefðu verið mjög hrifin af og keypt helling af dóti þar. Gæti misskilist. En dagurinn hafði bara þotið hjá og við komum okkur undirgrundina og aftur að hótelinu og síðan út í Stansted Express. Hótelið var valið af því að það var einmitt svo nálægt Liverpool Street Station. Þá ringdi í fyrst skipti í ferðinni en það angraði okkur ekki. Veðrið hafði líka verið mjög fínt.

Eftir að hafa tjékkaðokkur inn borðuðum við á Pontis. Ég fékk mér Tiramisu í eftirrétt og það var bara mjög gott. Við eyddum litlum tíma í fríhöfninni. Í öryggisgæslunni fékk ég hrós frá öryggisverði fyrir hve snöggur ég var að stökkva úr skónum mínum, skella á færibandið og grípa aftur. Ég þekki kerfið á Stansted líka ágætlega. Ég hef farið í gegnum öryggisskoðun þarna sex sinnum, þar af fimm sinnum síðasta hálfa árið.

Flugið heim var aðallega eftirminnilegt fyrir að náunginn fyrir framan mig var sífellt að reyna að ýta sætinu aftur en gat það ekki af því að ég var fyrir. Hann virtist ekki fatta þetta og reyndi aftur og aftur. Þar sem ég hef slæma reynslu af því að ræða um svona mál ákvað ég bara að láta á engu bera og að lokum hætti hann að reyna. Ef það er einhver fyrir aftan þig sem er 1.87 á hæð þá áttu ekki einu sinni að láta þér detta í hug að færa sætið aftur. Almennt finnst mér að fólk eigi ekki að færa sætin aftur án þess að spyrja þá sem fyrir aftan eru. Helsti kostur RyanAir er að sætin eru óhagganleg. Styð það kerfi.

Á flugstöðinni tóku Ambrose og Íris á móti okkur. Eygló fékk nýjan síma í afmælisgjöf en gleymdi að kaupa áfengi fyrir minn toll. Við röltum síðan í gegnum tollskoðunina án þess að nokkur vörður hefði áhuga á okkur. Það er væntanlega eitthvað voðalega ódópsmyglaralegt við mig.

10-11 á stöðinni fær mínusstig þar sem ekkert brauð var til þar. Við villtumst í leit að bílnum en fundum að lokum. Ég fékk að skafa og Eygló að keyra. Glöð vorum við þegar við komum heim.