Það væri óneitanlega þægilegt að hafa skýr lög og reglugerðir í stað þess að senda mál endalaust fyrir dóm. Höfundaréttarlög eru ákaflega óskýr og þegar þau eru skýr þá eiga þau illa við nútímann. Það þarf að breyta þeim. Vandinn er að það eru miklar líkur á því að fyrirtæki muni hafa mest áhrif á slík lög en hagur almennings verði hunsaður. Væntanlega munu höfundar heldur ekki græða neitt sérstaklega á þeim nema þegar hagur þeirra og fyrirtækjanna fara saman.
Sjálfum finnst mér fáránlegt að höfundarréttur sé byggður á formúlunni ævi höfundar + 70 ár. Það þýðir að höfundarréttur gildir í raun oft yfir eina öld. Það er ekki bara að höfundurinn sjálfur sé löngu dáinn heldur líklega börnin hans og barnabörn. Það væri mikið rökréttara að hafa útgáfuárið sjálft sem grunnpunkt.
Jói og Jón sem báðir eiga konu og tvö börn gefa báðir út bók 25 ára gamlir. Jói deyr daginn eftir. Bókin hans er varin í 70 ár. Jón deyr 95 ára gamall. Bókin hans er varin í 140 ár. Er þetta ekki svolítið órökrétt?
Annars væri líka hægt að hafa höfundarétt sem minnkar með árunum en ekki bara einn, tveir og nú. Höfundurinn hefur einn leyfi til að gefa út bók í 20 ár. Þar á eftir má gefa út bókina með því að borga ákveðið gjald. Er ekki eitthvað svoleiðis kerfi á lyfjaeinkarétti?
Núverandi kerfi er allavega ekki slæmt og það er ekkert hannað til þess að verja hagsmuni höfunda heldur fyrirtækja. Það þarf að breyta þessu.