Líf + 70

Ef þið búist við sérstaklega vel rökstuddum pistli þá verðið þið fyrir vonbrigðum. Þetta eru frekar pælingar sem mér þætti ágætt að fá athugasemdir við.

Höfundaréttur helst uns 70 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir lát höfundar.

Ég get engan veginn skilið að fólki þyki þetta rökrétt (og ekki bara af því að höfundar og afkomendur þeirra eru verðlaunaðir fyrir langlífi en afkomendum refsað ef höfundarnir deyja ungir). Mér þætti miklu betri lausn að höfundaréttur væri einfaldlega tengdur útgáfuári eins og það var hér áður fyrr. Segjum fimmtíu ár (eða bara þrjátíu). Hvað er að því?
Er það sérstakt réttlætismál að Bítlarnir og afkomendur þeirra séu að græða á öllu efninu sem hljómsveitin gaf út? Í október verða einmitt 50 ár frá því að smáskífan Love Me Do kom út. Af hverju er það ekki bara nóg? Reyndar átti það að gerast en lögunum var breytt. Réttlætið sigraði eða hvað?
Ég get haldið upp á níræðisafmælið mitt árið 2069 með því að lesa public domain útgáfu af Vefaranum frá Kasmír sem var gefin út árið 1927.

Ég hef reyndar meiri áhuga á Þórbergi Þórðarsyni sem er gott því ég verð ekki nema 66 ára þegar verk hans fara úr höfundarétti árið 2045.

Á Rafbókavefnum eru verk eftir Jón Trausta. Hann var bara fimmtán árum eldri en Þórbergur. Hann lést hins vegar í spænsku veikinni sem gerir það að verkum að við getum leyft okkur að gera hvað sem er með verk hans. Einhver góður bókmenntafræðinemi gæti tekið Höllu og Heiðarbýlið og gert sína eigin útgáfu af verkinu með góðum formála (eða formálum) sem setja verkin í betra samhengi fyrir okkur. Það gæti verið skemmtilegt BA-verkefni til dæmis.

En ég er bara búinn að tala um þessa frægu. Staðreyndin er að flest höfundaverk eru gleymd þegar þau falla í lén almennings. Það eru eiginlega bara verk hinna frægu sem fólki geta lifað af þessi sjötíu dauðu ár. Hinir eru dauðir, grafnir og gleymdir og verk þeirra líka.

Það er erfitt að ætla að endurútgáfa gamalt efni látins höfundar sem ekki er komið úr höfundarétt. Afkomendurnir geta skipt tugum (jafnvel hundruðum). Það gæti jafnvel verið að einhvers staðar liggi gleymdur útgáfusamningur. Ég gældi einu sinni við að þýða erlenda bók en ég fann hvergi upplýsingar um höfundinn – ég komst aldrei að því hvenær hann lést (þrátt fyrir að nota gagnasöfn sem ég hafði aðgang að í gegnum Landsbókasafnið). Það er oft talað um munaðarlaus verk í þessu sambandi en það má ekki taka það hugtak bókstaflega því ég á ekki bara við verk sem enginn á réttinn á heldur líka verk sem öllum er sama um. Það gæti verið að útgáfufyrirtæki eigi réttinn en hafi engan hag af því að gefa verkið út. Um leið gætu verið til staðar afkomendur (eða fjarskyldir fjölskyldumeðlimir) sem hafa engan áhuga á verkum sinna forfeðra og formæðra. Maður getur, og hefur, rekist á áhugaverð verk sem eru einfaldlega föst á þessum jaðartíma milli dauða höfundar og almenningslénsins.