Al Gore fyrirlesturinn

Ég fór á Gore. Var heppinn að skrá mig fyrir miða áður en þeir kláruðust. Ég reyndar rétt meikaði að komast inn á Kirkjusand að ná í hann á föstudag, Strætó var tíu mínútum of seinn. Mér þótti það reyndar undarlegt hjá Glitni, miðað við efni fyrirlestursins, að bjóða ekki upp á að nálgast miða í öðrum útibúum. Það er ekkert tæknilegt vandamál og þá hefði fólk ekki þurft að keyra borgina þvera og endilanga.

Sætum var úthlutað og ég sat á milli Ómars R. Valdimarssonar og Landlæknis. Spjallaði aðeins við þann fyrrnefnda. Ég fékk upp í kok þegar var verið að kynna Gore. Fyrst kom bankamaður, síðan  rektor og að lokum forsetinn. Aðeins of mikið af sleikjuskap. Al sjálfur var síðan líka að taka þátt í þessu að segja að Ísland væri nú frábært.

Fyrirlesturinn sjálfur var bara nokkuð áhugaverður. Mest áhrif á fólk höfðu upplýsingar um breytingar á Norður Íshafi. Eða svo sýndist mér. Ég hafði gaman af vísunum hans í Carl Sagan. En mér þótti eiginlega áhugaverðast að sjá muninn á því hvernig umfjöllun er um hlýnun jarðar í ritrýndum vísindablöðum og í fjölmiðlum almennt. Það er spurning hvað veldur því. Kannski er þetta maður bítur hund áhrifin. Hlýnun jarðar er ekki frétt en efasemdir eru það.

Umfjöllun íslenskra fjölmiðlamanna um málið sýnist mér einkennast oft af tilraunum til að láta eins og þeir séu voðalega hugrakkir að fjalla um skoðanir efasemdarmannanna. Áróður olíufyrirtæka hefur líka augljóslega áhrif. En hverjar sem ástæðurnar eru þá er þetta allavega til þess að skekkja mynd almennings af stöðu mála.

Stefán bendir á hið augljósa í bloggfærslu sinni. Við þurfum engan Al Gore til að segja okkur þessa hluti. Mynd mín af stöðu mála breyttist ekkert í dag. Það skiptir líka engu máli nákvæmlega hvaða tölur hann er að nota (þó ég hefði glaður viljað hafa raunvísindamann mér við hlið til að útskýra) því þetta er að gerast og það er engin frétt.

En Gore lagði líka áherslu á þetta, vísindamenn ættu að tala meira og tala á mannamáli. Reyndar langaði mig að benda Landlækni á að læknar ættu oftar að tjá sig um skottulækningar en gerði það ekki.

Ef við erum samt að fókusa á það sem snertir okkur mest, olíuneyslu okkar, þá er staðan orðin sú að við þurfum hvort eð er að minnka hana af því hún er orðin svo dýr og mun verða dýrari. Umhverfisvernd og gróðasjónarmið fara þarna hönd í hönd
Að lokum bendi ég á úrvalsfærslu mína frá því í gær um almenningssamgöngur sem mér fannst of fáir tjá sig um.