Nafnleysingjar á netinu

Það er oft talað um nafnleysingja á netinu. Meðal þess sem er sagt er að þetta fólk sé algjörlega ómarktækt. Ég er því bæði sammála og ósammála. Rök eru ávallt gild, ef þau byggja á staðreyndum allavega. Það skiptir því í raun engu máli hver skrifar þau.

Það er hins vegar allt annað þegar um er að ræða mat á hlutum. Maður sér stundum nafnlausa kommentara (þar tel ég líka fólk sem gefur ekki nægilegar upplýsingar til að það þekkist) sem segja að eitthvað sé hárétt, bandvitlaust eða hvaðeina. Svona athugasemdir eru almennt ekki mikilsvirði en þeir verða í raun einskis virði þegar maður veit ekkert um þann sem skrifar.

Ég hef oft séð umræður þar sem fólk er að styðja eigin skoðanir undir dulnefni. Ég man reyndar eftir því að hafa séð svoleiðis fólk skrifa undir vitlausu dulnefni og koma þannig upp um sig. En IP tölur eru nú yfirleitt leiðin til að afhjúpa svoleiðis. En nafnleysingjarnir geta líka alveg eins verið vinir og vandamenn þess sem skrifar eða einhvers sem er skrifað um.