StebbiFr og Facebook

Alveg finnst mér fáránlegt að stofna einhvern Facebook hóp til höfuðs Stebba Fr. Ég ætlaði reyndar að skoða hann en hef ekki fundið. Ef einhverjir Facebook vinir mínir hefðu gengið í hann þá sæi ég hann líklega en væntanlega eru þeir yfir það hafnir.

Hins vegar hafna ég því með öllu að ekki megi skjóta á Stebba Fr. fyrir bloggstíl hans. Fólk er að segja að maður ráði hvort að maður lesi hann eður ei en hann velur, ásamt svo mörgum Moggabloggurum, að setja sjálfan sig inn sem kommentara á Moggafréttir. Um leið og sú ákvörðun hefur verið tekin þá er maður ekki lengur bloggari út í bæ heldur hluti af fréttaflutningnum. Þetta fólk setur sig upp sem álitsgjafa á fréttirnar og ekkert eðlilegra en gagnrýna slíkt eftir innihaldinu. StebbiFr er líklega duglegastur af þessum ólaunuðu álitsgjöfum Morgunblaðsins og fær athygli eftir því. Satt best að segja er hann fyrir mér meira áberandi hluti Morgunblaðsins heldur en ritstjóri blaðsins og blaðamenn þess.

Síðan má held ég alveg skjóta á málflutning hvaða bloggara sem er þó þeir séu ekki að setja sig á stall með því að kommenta á fréttirnir hjá Mogganum. Það hefur til dæmis enginn þurft leyfi til að skjóta á mig.