Aumustu rökræðubrögðin

Ég sá upphafið af Staksteinum í Morgunblaðinu í dag. Þar stendur:

Forsvarsmenn BSRB eru eitthvað viðkvæmir fyrir umfjöllun Staksteina…

Eins og venjulega þegar þetta bragð er notað þá er viðkvæmnin fólgin í því að svara gagnrýni. Þetta er alveg makalaust aumt bragð. Ef þú gagnrýnir einhvern, og sérstaklega á óréttmætan hátt eins og þarna var um að ræða, þá eru allar líkur á að þér verði svarað. Það að fara að væla um að einhver sé viðkvæmur er bara út í hött.

Það að gera andstæðingum sínum upp tilfinningar eru einhver slöppustu vopnin í rökræðum. Svipuð útgáfa er að tala um að mótaðilinn sé að æsa sig eða sé reiður. Það kemur umræðunni ekki við. Þarna er bara verið að reyna að mála andstæðinginn í neikvæðum tónum í von um að eigin málflutningur hljómi betur í kjölfarið.

Ég ætla ekki að segja að þetta sé Staksteinum (sem ég hef bara einu sinni lesið í heild sinni) eða Morgunblaðinu ekki samboðið því mér sýnist þetta einmitt vera það stig sem blaðið er og hefur alltaf verið á. Þar er fyrst og fremst ráðist á andstæðinginn en ekki málflutning hans.