Óþekkt morðflensa – fréttakomment sem virka

Þar sem ég fékk nýlega leiðinlega flensu kíkti ég á blogg um slæmt flensuafbrigði. Þaðan var vísað á frétt Daily Mail þar sem talað er um flensu í Ástralíu þar sem hundruð hafi látist. Nú er Daily Mail ekki besta blað í heimi svo vægt sé til orða tekið. Ég kíkti því á athugasemdirnar sem fylgdu blaðinu. Þar var fjöldinn allur af Áströlum að tjá sig um að þeir hefðu aldrei heyrt um þessa morðflensu sem átti að hafa gengið þar. Ég held að ég geti því verið rólegur.

En svona ættu fréttaathugasemdir að virka. Nú eru einstaka Moggabloggarar sem í raun og veru stunda að bæta við eða hrekja fréttir en maður tekur varla eftir þeim fyrir þeim sem annað hvort endursegja fréttirnar eða koma með heimskulegar upphrópanir. Þetta fréttabloggskerfi er ekki að virka hjá þeim af því að þeir leyfa fólki sem er fyrst og fremst að reyna að vekja athygli á sjálfu sér að nota þetta óhindrað. Hugsanlega mætti kalla þetta ritskoðun en fyrst og fremst er þetta gæðastjórnun. En Mogginn væri reyndar líklegastur til að birta bara blogg frá þeim sem hafa skoðanir sem henta honum þannig að líklega væri slíkt kerfi dauðadæmt frá upphafi.