Arfleifð Davíðs

Davíð varð einu sinni reiður og talaði um götustráka. Vandamálið við þessa götustráka var þó fyrst og fremst að þeir komu inn kerfið sem hann skapaði og notuðu það. Raunar eru þessir götustrákar ekki nema lítill hluti af vandanum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þeir sem Davíð og félagar völdu persónulega til að eignast bankana á útsöluverði hafa náð að sturta þeim ofan í klósettið. Raunar náði Davíð að hjálpa á lokametrunum með heimskulegri aðferðafræði þegar Glitnir lenti í vanda, sérfræðingarnir fengu ekki að ráða. Kaupþing lifir áfram en einungis af því að hann fær sérstaka fyrirgreiðslu.

Fólk þarf að átta sig á að vandamálið felst ekki í þessum bavíönum sem hafa verið að nota kerfið í von um risavaxinn og skjótfenginn gróða heldur í hugmyndafræðinni sem skapaði kerfið. Markaðurinn átti að virka á einhvern töfrakenndan hátt ef hann væri bara látinn að mestu í friði. En að sjálfssögðu gerði hann það ekki. Við hefðum þurft á góðum lagaramma og regluvirki en ekkert slíkt var til staðar af því að það samræmdist ekki hugmyndafræðinni.

Viðbrögðin við vandanum voru líka í anda hugmyndafræðinnar og því álíka gagnslaus. Stefnan var fyrst og fremst að láta markaðinn vera. Ekki gera neitt. Láta vera. Það var ekki fyrren allt var komið í algera steik sem eitthvað var raunverulega gert. Það er gríðarleg kaldhæðni fólgin í því að nú sé hið kapítalíska kerfi hlutað sundur af frjálshyggjupésum á sósíalískan hátt. Kerfið er dautt, hugmyndafræðin er dauð. Arfleifð Davíðs er rústir einar.

Við þurfum fyrst og fremst kommon sens en lítið hefur farið fyrir slíku á Íslandi síðustu árin.