Frábær rannsóknablaðamennska

Ég rakst á frétt á Vísi sem er nær eins og frétt á Stúdent.is um Stúdentaráðskosningarnar. Þar hefur fréttamaður náð stórkostlegum hæðum í rannsóknarblaðamennsku og segir:

Betri kjörsókn var í ár eða 1179 atkvæðum meira en í fyrra þegar 3446 kusu til stúdentaráðs og bar þá Röskva sigur úr býtum með 6 atkvæða mun.

Jahá, fleiri kusu í ár en fyrra og því betri kjörsókn? Eða er einhver misskilningur hér á ferð? Gleymir fréttamaðurinn að taka inn að frá síðustu kosningum hefur heill skóli verið innlimaður í HÍ og þar að auki fjölgað í nemendahópnum?
Í frétt RÚV stendur líka:

Kjörsókn var 40%.

 Sem er önnur tala en ég nefndi í morgun. Á Stúdent.is segir:

Vaka fékk 2342 atkvæði eða 52,25% atkvæða til stúdentaráðs og Röskva fékk 2149 atkvæði eða 47,75 %. Auðir og ógildir seðlar voru 144. Alls kusu 4625 af þeim 13.679 sem voru á kjörskrá.

Ef við reiknum þetta út 4625 deilt með 13679 fáum við 33,8%. RÚVarar eru álíka góðir í námundun og ríkiskirkjufólk.

Í fyrra var kjörsókn 34,64% og var hún því örlítið verri í ár en í fyrra en þó á svipuðum slóðum og yfirleitt.

Þetta er sumsé vönduð rannsóknablaðamennska á öllum vígstöðvum.