Davíð, biskupinn og eineltið

Það  er voðalega gaman að sjá kirkjunnar menn verja Davíð hægri vinstri. Biskup kallar það einelti að mótmæla fyrir framan Seðlabankann. Reyndar verð ég að segja að þar eru menn einmitt að fara skrýtna leið til að losna við að leggja Davíð í einelti og það er að níðast á hinum í leiðinni.

En já, kirkjunnar menn eiga almennt bágt með að skilja eineltishugtakið. Davíð er maður sem hefur maskínu í kringum sig, hann er ekki einn þó maskínan sé reyndar löskuð. Hann hefur þar að auki menn til að verja sig. Það er ekki verið að níðast á Davíð fyrir að vera skrýtinn eða öðruvísi, það er verið að koma í veg fyrir að hann eyðileggi meira en hann hefur þegar gert.

Það má einhver duglegri maður en ég fara í gegnum pistla biskups og reyna að finna þar gagnrýni á það hvernig Davíð réðst á menn hér áður fyrr. Þar voru menn teknir fyrir hægri vinstri og þeim slátrað af hinum sterku. Hvar var biskup þá?
Það mætti líka spyrja hvar biskup var þegar Davíð og hans klíka réðst á ákveðinn prest fyrir að semja smásögu þar sem foringinn var gagnrýndur. Studdi biskupinn prestinn sinn? Nei, honum var bara bolað burt úr starfi sínu sem ritari Kristnihátíðarnefndar.

Davíð var líka almennt góður við kirkjuna á sínum tíma og biskupinn hikar ekki við að klóra bakið á manninum sem klóraði bak hans svo vel og vandlega. Á tímum Davíðs fóru prestar í ofurlaunin, ekki á kostnað hinna trúuðu heldur líka okkar sem teljum kristni lítils virði. Efstur í launastiganum er náttúrulega biskupinn sjálfur. Mammonsdýrkandi númer eitt.

Kirkjan er einfaldlega hluti af valdaklíkunni með nokkrum heiðvirðum frávikum. Hún óttast að valdið hverfi.