Einelti er víða

Í gær vísaði ég á stórfenglega grein Friðbjörns Orra Skjöldur gegn skálmöld bæði hér og á Facebook. Ég vildi að sem flestir gæfu sér tíma til að lesa hana. Í kjölfarið kom komment á Facebook:

Æ greyið; telst það ekki rafrænt einelti að tengja á greinar hans?

Merkingin er augljóslega sú að grey Friðbirni Orra er enginn greiði gerður með því að benda fólki á það sem hann skrifar. Mér þótti þetta stórfyndið komment. Síðan bendir Baldur á skrif Gísla Freys Valdórssonar um þetta. Gísli Freyr er alveg ofboðslega hneykslaður á öllu vonda fólkinu sem vísar á grein Friðbjörns Orra og segir:

Enginn hefur lagt í að hrekja grein Friðbjörns Orra heldur reyna menn allt annað til að gera lítið úr höfundi.

Ég skal útskýra hvers vegna ég hrakti ekkert í grein Friðbjörns Orra og það er vegna þess að hún er augljós vitleysa frá upphafi til enda. Ég hef engu við hana að bæta. Hún er svo heimskuleg að allt hugsandi fólk getur séð í gegnum hana. Ég sé ekki að ég geti svívirt Friðbjörn Orra grófar heldur en með því að benda á hvað hann sjálfur skrifar. Lesið greinina ef þið hafið ekki gert það. Best er reyndar að Gísli er hneykslaður á því að sumir í bloggheimum hafa kallað hann, Friðbjörn Orra eða einhvern annan (eða báða, ég veit ekkert hvað hann er að tala um) fasista. Ef þið hafið fyrir því að lesa greinina Skjöldur gegn skálmöld þá sjáið þið að þar er mótmælendum einmitt líkt við fasista. Merkilegt alveg.

En já, Gísli Freyr vísar að sjálfssögðu ekki á neitt. Hann bara dylgjar. Ég er ekki dylgjumaður þannig að ég vísa á tvær færslur hans til viðbótar til að þið getið séð hann í aksjón, raunar er hann í báðum tilfellum búinn að ritskoða þær. Hér má lesa Gísla Frey hæðast að mér þegar ég varð fyrir piparúða. Berið það saman við línuna: “Ég lít þannig á að ég eigi marga andstæðinga (líklega ekki marga óvini) en ég myndi ekki óska þeim neins ills” í nýjustu færslu hans. Síðan er hér færsla þar sem Gísli sagði, þar til að vakin var athygli á færslu hans, að VG hefði notað ungliðahreyfingu sína til að kveikja í þinghúsinu.

Ég hvet semsagt alla til að lesa allt það sem Gísli Freyr skrifar. Ég held að það sé ekkert sem komi sér betur fyrir vinstri menn. Ég bendi annars á að Gísli starfaði einu sinni sem æskulýðsfulltrúi ríkiskirkjunnar, svona ef þið viljið vita hvernig fólk má finna þar.