Grænt skyr

Í gær var grænu skyri kastað á nokkrar kosningaskrifstofur. Ég dró strax þá ályktun að þetta væri tengt atkvæðagreiðslu um samningu um álver í Helguvík. Þetta er augljóst þar sem grænt skyr hefur verið notað af umhverfisverndarsinnum. Af einhverjum ástæðum voru voðalega fáir sem tengdu þetta.

Mikið var gert úr því að kosningaskrifstofa VG hefði sloppið en fáir nefndu að ekkert hefði verið gert við Frjálslynda, Borgarahreyfinguna eða Lýðræðishreyfinguna (ég geri ráð fyrir að það séu einhverjar skrifstofur hjá þeim). Hver sá sem hugsar augnablik skilur hvers vegna stóriðjuflokkarnir þrír urðu fyrir árásinni en eiginlega er skrýtnast að Frjálslyndir hafi sloppið. Líklega af því að þeirra stuðningur hefur aldrei skipt máli.

Það virðist vera staðlaða lygin að VG ráði yfir hinum og þessum hópum. Í Búsáhaldabyltingunni var fólk úr öllum flokkum þó Sjálfstæðismennirnir hafi almennt titlað sig fyrrverandi. En það var hentugra að ljúga að þetta væri allt VG lið. Ég held í sjálfu sér að það væri ekkert slæmt fyrir VG ef þetta væri satt. Hins vegar hlýtur þetta að ergja Borgarahreyfinguna sem inniheldur fólk sem var í miklu aðalhlutverki þarna (þó ég hafi aldrei séð Þráinn þarna).

Annars hafa ljúgandi Sjálfstæðismennirnir nær algjörlega hunsað yfirlýsinguna sem barst frá hópnum sem kastaði skyrinu þar sem kemur fram að þetta séu Kratar sem eru, skiljanlega, reiðir jafnaðarmannaflokknum. Samfylkingin sveik fagra Ísland vel og vandlega. Það að VG sé eini flokkurinn sem er raunverulega umhverfisinnaður þýðir ekki að allir sem aðhyllast slíka stefnu séu svona langt á vinstrivængnum (eins og sást á Íslandshreyfingunni). Síðan eru líka margir til sem eru miklu lengra til vinstri en VG (og kalla okkur krata).