Fimm flokka kerfið

Það er oft talað á þá vegu að á Íslandi séu alltaf fjórir flokkar á Alþingi. Sjálfur man ég ekki eftir neinum kosningum þar sem ekki komust að minnsta kosti fimm flokkar inn á þing. Í fyrstu kosningunum sem ég fylgdist með virðast þeir hafa orðið sjö (þó ég viti ekkert um þann þeirra sem náði bara einum manni inn). Í flestum kosningum hafa líka verið einhver ný framboð sem ekki hafa náð inn.

Það sem virðist ætla að vera skrýtnast við þessar kosningar er að flokkur sem er á þingi skuli vera að missa alla sína þingmenn þó hann sé í framboði. Það virðist ekki hafa gerst síðan 1987. Það að fólk virðist ætla að hafna Frjálslynda flokknum þrátt fyrir að hann sé að mestu laus við spillinguna er hálfundarlegt. Flokkurinn missti trú margra þegar Margrét gekk út og flokkurinn fór að reyna að heilla rasista. Samt grunar mig að hér sé fyrst og fremst verið að hafna einsmálsflokknum. Hann hefur hangið þarna inni síðan 1999 án þess að ná nokkru fram. Það er bara ekki spennandi að styðja slíkt til lengdar. Ætli það verði ekki líka endalok Borgarahreyfingarinnar ef hún nær yfirhöfuð manni inn?
Mig grunar hins vegar að það sem verði sögulegt við þessar kosningar verði stórsigur VG sem maður er næstum hættur að efast um. Það að þetta sé spurning um hvort að flokkurinn tvöfaldi þingmannafjöldann akkúrat eða tæplega sýnir hve góð úrslitin ætla að verða. Ég hef ekki séð könnun nýlega sem gerir ráð fyrir öðru en að VG allavega þrefaldi fjölda þingmanna frá því 2003.

Ég er reyndar ekki hissa. Mér hefur alltaf þótt ákveðið sjálfsttraust skorta hjá flokknum. Fylgið hefur oft verið í hæstu hæðum í könnunum en enginn inna flokksins virðist hafa trúað því að hægt væri að landa því. Ég var alltaf ósammála. Ég held að það hafi lengi verið til stór hópur fólks sem gat hugsað sér að kjósa VG en valdi samt eitthvað annað í kjörklefanum. Munurinn á þessum kosningum og fyrri er að fólkið virðist ætla að ganga alla leið.