Fórnarlambstaktíkin

Allir sem hafa fylgst með vita að taktík Borgarahreyfingarinnar í kosningabaráttunni hefur verið sú að spila sig sem fórnarlamb fjórflokkakerfisins. Það er aðallínan. Aðrir eru óheiðarlegir og leggja stein í götu okkar. Þetta sást best þegar Borgarahreyfingin fór með rangt mál til að kenna öðrum flokkum um undarlegar aðfarir RÚV. Það var frekar ódrengilegt útspil af framboði sem þykist yfir aðra hafna þegar komið er að heiðarleika.

En ef við spyrjum okkur raunverulega hvað það hafi verið sem hafi haft verst áhrif á getu Borgarahreyfingarinnar til að kynna sig til að byrja með þá er það augljóslega ekki stóru flokkarnir heldur þeir litlu. Borgarahreyfingin er, að mínu mati, eina pólitíska aflið sem varð raunverulega til í kringum Búsáhaldabyltinguna. Það sem truflaði Borgarahreyfinguna, sérstaklega til að byrja með, er að það komu fram tvö önnur ný framboð sem reyndu að spila sama leik. Bæði Lýðræðishreyfingin og Lýðskrumslistinn komu fram og létu eins og þar var á ferðinni óspillt afl sem orðið hefði til upp úr grasrótinni. Staðreyndin var hins vegar að þetta voru fyrst og fremst tækifærissinnar sem stukku á vagninn. Borgarahreyfingin hvarf þannig í fjöldann.

Það er hins vegar margt í kerfinu sem vinnur gegn litlum flokkum. Þeir fá enga styrki og þurfa að vinna sig upp frá grunni við erfiðar aðstæður. Við getum samt spurt okkur hvort að það væri endilega gott að allir nýir flokkar fái sömu aðstöðu og eldri flokkar. Ég held að við myndum fá allt of mörg framboð tækifærissinna sem yrði um leið til þess að þau kæfðu hvert annað og enginn næði manni inn. Stóru flokkarnir myndu áfram græða. Það mætti spyrja hvernig Borgarahreyfingin væri stödd í dag ef hún væri enn að keppast við Lýðskrumslistann um athygli. Annars veit ég ekki hvort það væri beint betra fyrir Borgarahreyfinguna að athygli beindist að stefnumálum þeirra til dæmis um nýja kjördæmaskiptingu eða stjórnlagaþing. Hugmyndirnar þeirra eru svo óúthugsaðar að þær  er óframkvæmanlegar. Það er mikið vænlegra til árangurs að spila áfram fórnarlambstaktíkina.