Grill, gestir og Eurovision

Á síðustu stundu varð það plan til að fá Hjördísi og Halla í míní Eurovision partí. Það virkaði ágætlega að hafa þetta fámennt þar sem ég þarf meira og minna að liggja til að leyfa bakinu að lagast. Við grilluðum fyrir gestina og ég gerði tilraun að búa til kaffiís. Það gekk vel.

Stigagjöfin var að vanda skemmtilegasti parturinn við söngvakeppnina. Ég held að dómnefndirnar séu ekkert að gera fyrir keppnina. Fólk virðist hafa gleymt að landa- og menningarkort af Evrópu hefur alltaf verið besta leiðarvísirinn að stigagjöf þjóða. Það er semsagt ekkert sem kom inn með símakosningunni.

Ég hafði spáð Noregi sigri og giskaði að Íslandi gengi vel. Það var óneitanlega dramatískur lokapunktur þegar Azerar fengu 10 stig og komust yfir okkur augnablik áður en frændur okkar Norðmenn gáfu okkur 12 stig.

Mér fannst samt skítt að sjá enga samstöðu með samkynhneigðum hjá keppendum í kvöld. Það er eiginlega keppninni og keppendum, meðal annars þeim íslensku, til skammar.