Lokafrágangur

Á morgun fæ ég athugasemdirnar frá Terry og get því farið að ganga endanlega frá ritgerðinni. Ég veit ekki alveg hvað það tekur langan tíma en vonandi frekar stuttan miðað við það sem hann sagði. Þá verð ég bara ekkert lengur meistaranemi heldur óformlegur meistari. Ég verð formlegur meistari 20. júní. Ég held að ég hafi verið að setja hraðamet með því að vera bara þrjú ár í gegnum meistaranámið í þjóðfræði. Eggert segist ætla að slá metið. Sjáum til með það.

Allt í einu er útskriftarfögnuður úrlausnarefni. Þetta er ekki beint heppilegur tími fyrir stóra veislu. Eygló verður með breiðasta móti komin 37 vikur á leið. Eina sem ég var eiginlega búinn að ákveða var að hitta fólkið sem var með mér í Rannsóknir í þjóðfræði, kúrs dauðans. Tommi verður nefnilega á landinu.

En ég er ekki verkefnalaus. Akkúrat núna er ég að slengja saman útdrætti fyrir Þjóðarspegilinn sem verður núna í október. Það ætti að vera fyrirhafnarminna en síðasta grein. Þá skrifaði ég grein fyrst á ensku, þýddi hana síðan á íslensku og innlimaði hana að lokum í ritgerðina sjálfa. Núna er ég að taka kafla úr ritgerðinni og breyta í grein. Ég er líka svo heppinn að núna get ég vitnað í sjálfan mig.

Síðan er framtíðin frekar opin. Ég finn mér augljóslega eitthvað að dunda við. Það er ótal margt á teikniborðinu.