Ubuntu – EEEbuntu

Ég hef í cirka tíu ár verið að pæla í Linux. Ég hef reglulega skoðað hvað er að ske og leikið mér aðeins að því að prufa. Síðast gerði ég það í hittifyrra þegar ég setti Ubuntu upp í smá tíma. Ég var nokkuð hrifinn af því þá en ýmislegt var ekki að virka almennilega.

Eftir að ég keypti mér EEE tölvuna setti ég upp Windows XP af því að ég vildi geta fiktað í ritgerðinni minni sem var í Office. Þegar ég var búinn að klára ritgerðina var planið alltaf að setja upp eitthvað Linux kerfi aftur. Ég skoðaði ýmislegt og endaði á EEEbuntu sem er breytt útgáfa af nýjasta Ubuntu.

Ég er búinn að vera með það uppi í viku og allt gengur vel. Tölvan talar auðveldlega við Windows tölvur sem skiptir miklu máli á meðan skipt er um kerfi. Ég er búinn að leika mér heilmikið með þetta. Niðurstaðan er einfaldlega sú að ég myndi mæla með Ubuntu fyrir venjulega. Þetta er einfaldlega notendavænna en Windows. Fyrst þegar ég fiktaði í Linux þurfti ég að læra heilmikið af einhverjum skipunum. Í nýjasta Ubuntu/EEEbuntu er ekkert um svoleiðis nema að maður vilji það.

Líklega tilheyri ég þeim hluta tölvunotenda sem er erfiðast að gera til geðs. Ég er vanur að geta fiktað, bætt og breytt öllu í Windows. Ég kann það allt. Núna get ég eiginlega ekki notað neitt af þekkingunnni. Það eru reyndar ýkjur. Forritin eru svo svipuð. Ég var þegar farinn að nota Pidgin í Windows í staðinn fyrir Messenger (og innlima þannig Facebook spjallið í sama kerfi) og ég held því áfram. Það er bara það sem viðkemur stýrikerfinu og öllu því sem er breytt. Það er líka frábært að hafa engan Internet Explorer í tölvunni.

Á þessum tímapunkti get ég ekki séð annað en að það sé réttast að reyna að setja inn Ubuntu eða svipuð kerfi í sem flestar tölvur í skólum. Hvað ætli ríki og sveitafélög eyði miklu í þessi dýru kerfi? Um leið væri örugglega ekkert mál að setja í gang þýðingarverkefni fyrir þá sem vilja stýrikerfið á íslensku. Það er áhugavert að fyrir nokkru komu upp tölvur í Háskóla Íslands sem voru bæði með Macintosh og Windows stýrikerfum. Af hverju var ekki líka, eða bara, sett upp Ubuntu? Vissulega eru til einhver forrit sem eru bara til í Windows en það eru engin slík forrit sem allir þurfa að nota.

Kannski verður Ubuntu ekki til í áratugi en Linux útgáfurnar eru bara svo margar að komast á þetta sama stig að það þarf ekkert að vera neitt vandamál að skipta yfir ef þess þarf. Slík breyting þarf ekki að vera erfiðara, og væri líklega auðveldari, en að uppfæra Windows. Fyrir utan að það er ekki fokdýrt.

Linux er sumsé ekki lengur bara fyrir nörda heldur er það notendavænt kerfi hér og nú. Nýtum okkur það.

Nú þarf ég bara að sannfæra Eygló.