Fólkið sem alltaf vill skatta

Ég las í gær grein eftir Hannes Hólmstein þar sem hann notar alveg stórkostleg rök gegn vinstrimönnum – þeir vilja alltaf hækka skatta. Til þess að styðja þessa fullyrðingu sína vitnar hann til þess að vinstrimenn hafi líka viljað hækka skatta fyrir tveimur árum. Ég veit ekki nákvæmlega hvað Hannes er að vitna í þarna en ég man hins vegar eftir gagnrýni á skattalækkanir.

Segjum að það hefði verið hlustað á þessa vondu menn og skattarnir hefðu hækkað en ekki lækkað. Þannig hefði verið slegið á þensluna og neysluna sem þýddi að við værum í mikið betri stöðu í dag. Við værum væntanlega ennþá fökkt en ekki jafn fökkt.

En í dag er það ekki bara skynsemin sem kallar á skattahækkanir eins og fyrir tveimur árum heldur er það bara nauð. Sú nauð kemur til vegna skipbrots hagfræðihugmynda manna eins og Hannesar Hólmsteins.

Það er annars svoltið merkilegt að Hannes hafi ekki vit á að halda kjafti. Hvar sem hann fer er hann ásóttur af vofu. Það er ekki kommúnisminn sem ásækir Hannes svo heldur er það vofa hans sjálfs. Það er fortíðardraugurinn Hannes sem kemur fram í ótal myndskeiðum og greinum frá tímum brjálæðisins.