Greining á VG og mér

Nú að léttara hjali.

Ég ákvað í gær að skemmta mér aðeins í tilgangslausum rökræðum við Maurildismann þar sem hann æsti sig merkilega mikið. Kveikjan var að hann skrifaði færslu þar sem hann skipti félagsmönnum VG í fjóra hópa:

Þetta eru eiginlega 4 flokkar í einum. Femínistaflokkur, umhverfissinnaflokkur, kommúnistaflokkur og flokkur áhugamanna um sinn pólitíska frama.

Ég ákvað að spyrja hvar hægt væri að flokka mig þarna og fékk þau svör að ég væri í síðastnefnda flokknum og bætt var eins og til skýringar:

…og pólitískan frama VG

Mér fannst þetta nú frekar skondið og skaut létt á hann. Þar fékk ég nánari útlistun sem ég geri fastlega ráð fyrir að hafi verið að miklu leyti beint að mér persónulega:

Lýsing á fjórðu týpunni væri samt einhvernveginn svona: Hún má varla ferðast upp um meira en fjórar hæðir í lyftu með öðru fólki án þess að vera búin að taka að sér formlegt hlutverk í „félagsskapnum“. Hún leitar uppi kyrrstæða vagna til að mega draga þá -og mælir sjaldan hnjóðsyrði um húsbónda sinn, hver sem það er á hverjum tíma. Hún myndi t.a.m. fá samviskubit ef hún fylgdi sannfæringu sinni ef það kæmi sér illa fyrir húsbóndann.

Ég ætti satt best að segja að nota þetta alltaf í starfsumsóknir. Verst að þetta er ekki satt. Ég ímynda mér að fólk sem þekkir mig vel geti hlegið vel að þessu (sérstaklega þeir sem muna að ég var Framsóknarmaður sem hataði Halldór Ásgrímsson og kannski óþægð mína innan VG).

Ég gæti vissulega listað upp fjölmargar stöður sem ég gengt í hinu ýmsasta félagsstarfi en skýringin er nú frekar sú hvað ég á erfitt með að segja nei (ég tek fram að það er auðveldara núna þegar maður á barn þannig að þið getið ekki nýtt ykkur það).

Kenning Maurildismannsins um aðild mína að framapotarafélaginu er náttúrulega miklu vafasamari þegar við skoðum hvað ég hef gert fyrir VG annað en að mæta á fundi síðan ég gekk í flokkinn fyrir rúmum fimm árum:

  • Bar út U-Beygjuna (reyndar 2003 sem er áður en ég gekk í flokkinn).
  • Var með spilakvöld fyrir nokkrum árum.
  • Hef verið í Hverfisráði Breiðholts síðan í desember í fyrra.

Ég sóttist ekki eftir neinu af þessu nema mögulega að bera út U-Beygjuna á sínum tíma en það er of langt síðan að ég man það ekki. Ég hef aldrei farið fram í prófkjöri eða forvali.

En væntanlega telur Maurildið að ég hafi með fimm ára hörkuframapoti komið mér í þá eftirsóttu stöðu sem Hverfisráð Breiðholts er innan VG. Hún hentar  mér reyndar ágætlega af því að a) frá því að ég flutti í Breiðholtið þá hef fengið áhuga á þessu hverfi og þykir vænt um það (þó ég hafi satt best að segja haft töluverða fordóma gegn því hér áður fyrr) og b) fundirnir eru niður í Mjódd sem þýðir að ég get alltaf labbað sem er hentugt fyrir mann sem er í fæðingarorlofi á eins bíls heimili. Ég tek fram að ég er alveg til í meiri fram innan VG ef það er áhugi hjá félögum mínum þar að veita mér hann (*blikk blikk*).

Allavega. Ég er í VG af því að ég er vinstri maður (myndi ekki móðga kommúnistavini mína með því að flokka mig með þeim), umhverfisverndarsinni og femínisti. Ég hef áður lýst hvers vegna ég ákvað að ganga í VG og það var eftir að hafa heyrt Samfylkingarmenn lýsa því yfir að VG væri fyrir fólk sem héldi að pólitík snerist um rétt og rangt. Mér líkar síðan ágætlega að geta kosið í prófkjörum fólk sem ég vil að komist á þing eða í borgarstjórn. Áhugi minn á “frama” er í beinu samhengi við hvaða málum fólk er að vinna þar. Ekki er ég alltaf sáttur en það er einfaldlega enginn annar kostur í stöðunni.

En þetta er alltof langt um ekki neitt. Mig langaði bara til að halda upp á þessa lýsingu ef hún myndi hverfa af netinu.