Þöggun Jóns Gnarrs

Ármann skrifar færslu í dag og er góður eins og vanalega þar sem hann vogar sér að vera fúli kallinn sem efast um grínið. Meðal annars segir hann um Jón Gnarr:

Svo hefur leiðtoginn auðvitað verið í ádeilunni, maður. Þegar góðærið stóð sem hæst, verið var að stela sparifé, hlutafé og öðrum eigum Íslendinga og koma þjóðinni í þau vandræði sem hún er núna, þá var leiðtoginn auðvitað að deila á … bankaþjófa? Sjálfstæðisflokkinn? Nei, gamla fúla vinstrigræna Svíþjóðarvingaða nöldurseggi. Já, það var gott grín. Með pólitískum broddi.

En hver var sá broddur? Að meinsemd íslensks samfélags væri ofurdálæti á Svíþjóð? Eða þessi 10% sem voguðu sér að vera með einhver leiðindi í garð kapítalismans?

Ég ætla að ganga aðeins lengra en Ármann hér. Hver hefur ekki séð á bloggsíðum og vefmiðlum bjálfa sem koma fram og gera lítið úr Steingrími Joð með því að líkja honum við Georg Bjarnfreðarson. Málið er náttúrulega að þessi líking segir voðalega lítið um Steingrím Joð og þeim mun meira um þá sem sköpuðu persónu Georgs.

Georg er viljandi gerð skopmynd af a) Steingrími Joð og b) háskólamenntuðum vinstrimönnum. Skopmyndin er ekki á nokkurn hátt sanngjörn og byggir fyrst og fremst á hægrisinnaðri sýn á umrætt fólk. Ég get bara ekki séð annað en að markmiðið með því að skapa Georg hafi verið það að reyna að þagga niður í þessu leiðinda vinstri fólki sem vogaði sér að gagnrýna alltumlykjandi hugmyndakerfi frjálshyggjunnar. Hannes Hólmsteinn kom líka, ef ég man rétt, fram sem gestaleikari í þættinum. Undirliggjandi boðskapur handritsins hefur væntanlega ekki farið framhjá honum.

Árið 2007 var mjög vinsælt að selja sig. Næturvaktin var framleidd af Saga Film. Eigandi þess fyrirtækis er eða var merkilegt nokk útrásarvíkingurinn Jón Ásgeir. Það gæti vel verið að handritið hafi ekki verið skrifuð út frá sannfæringu handritshöfundarins Jóns Gnarr hann tók allavega sporin í þessum dansi þöggunar.