Nú hafa ýmsir vinstrimenn lýst því yfir við mig að þeir hafi andúð á Sóleyju Tómasdóttur og ætli ekki að kjósa VG út af því. Einhverjir líta meira að segja svo á að slíkt sé einhvers konar stuðningsyfirlýsing við Þorleif Gunnarsson. Mig grunar að Þorleifur sé mjög ósammála þeirri greiningu, sérstaklega nú þegar ein skoðanakönnun hefur sýnt að hann komist ekki einu sinni inn í borgarstjórn. Það er einfaldlega þannig að Sóley er örugg inn en Þorleifur er það ekki lengur.
Mér hefur alltaf þótt rökréttara að hugsa um baráttusætin í kosningum heldur en fyrsta sætið enda er líklegast að maður hafi áhrif þar.
Áður en Besti flokkurinn kom fram bentu skoðanakannanir til þess að Líf Magneudóttir og jafnvel Elín Sigurðardóttir gætu komist að í borgarstjórn en núna virðist það allt í einu og sorglega ólíklegt. Þetta þykir mér sorglegt af því að ég tel í raun að þær séu jafnvel nær mér í skoðunum en þau tvö sem sitja í efstu sætunum. Ég veit að þær myndu berjast fyrir þeim gildum sem mér eru kær og skipta máli í borgarstjórn – mannréttindi, menntun og velferð.
Mér þykir allavega skrýtið að refsa Sóleyju með því að kjósa ekki Þorleif, Líf og Elínu og koma þannig jafnframt í veg fyrir að viðhorf VG, sem voru jafnvel í minnihluta ákaflega mikilvæg, heyrist sterkt í borgarstjórn.