Um síðustu helgi skrapp ég í Spilavini og fékk þar nýtt spil sem heitir Eggjadans. Þetta kemur í skemmtilegum umbúðum – eggjabakka – og inniheldur tíu egg og tvo teninga. Eitt eggið er úr viði en öll hin eru hálfgerðir skopparabopparaboltar.
Markmið leiksins er að safna þessum eggjum. Maður kastar fyrst teningi sem ræður hver eða hvort einhver fær egg í umferðinni. Maður þarf til dæmis að hlaupa í kringum borð eða gala eins og hani til að vinna eggið. Síðan kastar sá sem fær eggið teningi upp á hvar hann á að geyma það. Það er sumsé auðvelt að hlaupa eggjalaus í kringum borð en þegar maður er með egg milli hnjánna þá er það töluvert erfiðara.
Við Eygló vorum fljót að klára að spila þrisvar sinnum og þótti þetta stórfyndið og skemmtilegt. Þannig að Eggjadans hentar ekki bara börnum heldur líka barnalegu fólki eins og okkur. Reyndar náði ég að klóra Eygló í einum eggjaslagnum þannig að næst verð ég með vel snyrtar neglur.
Þetta á örugglega eftir að enda í einhverjum jólapökkum í ár. Mæli með Eggjadansi.