Fyndnasta frétt síðustu viku var án efa sú að Vigdís Hauksdóttir hélt að kosningarnar væru hneyksli vegna þess að hún hlustaði ekki á það sem formaður landskjörstjórnar sagði áður en hann las upp þá sem komust inn á stjórnlagaþing. Það var hilaríus.
Í dag heldur hún því fram að landskjörstjórn hafi misskilið kosningalögin. Ég fór svona snöggt yfir lögin og það sem ég held að Vigdís hafi ekki áttað sig á því að þar er ekki bara ákvarðað hvernig skal útdeila efstu sætunum heldur líka þeim neðstu. Sumsé, ekki bara ofan frá heldur líka neðan frá. Við sjáum það ferli í stóra pdf skjalinu frá landskjörstjórn. Þar sjáum við að niðurstaðan er ljós þegar búið er að útdeila 26. sætinu. Þá var búið að útdeila öllum sætum fyrir neðan þau sem gefa sæti á stjórnlagaþing og þar að auki efstu 11 sætunum. Þeir sem voru eftir á þeim punkti komust þá inn. Ég sé ekkert í lögunum um að frambjóðendur þurfi að ná umræddum sætishluti til að ná kjöri heldur er sú tala fyrst og fremst notuð til að senda umfram atkvæði á frambjóðendur sem eru fyrir neðan.
En það gæti verið að ég sé að misskilja misskilning Vigdísar. Ég er þó nokkuð viss um að frummisskilningurinn sé frá henni kominn.